Sporapróf Vinnuhundadeildar HRFÍ

Annað sporapróf ársins var haldið á Hólmsheiðinni í gær 22. júní. Einungis þrír hundar voru skráðir til þátttöku, sömu hundar og tóku þátt í sporaprófinu í maí. Dómari var Kristjana Guðrún Bergsteinsdóttir sem var að dæma sitt fyrsta próf en hún hlaut viðurkenningu sem sporaleitardómari í keppnisflokk 1 og 2 hjá Hundaræktarfélagi Íslands í apríl sl.  Fyrirhugað var að halda þetta próf á Snæfellsnesi í tengslum við hlýðnipróf en vegna dræmrar þátttöku og þátttakendurnir voru frá Reykjavíkursvæðinu tók stjórn Vinnuhundadeildar ákvörðun um að færa prófið og halda það í heimabyggð.

Ágætis veður og skilyrði voru þegar prófið byrjaði kl. 14 og allar sporaslóðir tilbúnar fyrir þátttakendur í upphafi prófs. Tvær 1000 metra slóðir með fimm 90° beygjum,  fimm millihlutum og endahlut. Sporin voru u.þ.b. 60-80 mín gömul. Hundarnir eiga að finna sporaslóðina en stjórnandinn fær að vita hvar hún liggur. Æfingin byrjar í ca 15 metra fjarlægð frá slóðinni.

Hundarnir sem tóku prófið í þessum flokki fengu báðir 1. einkunn spori I í maí sl. og voru því að keppa í fyrsta sinn í framhaldsflokki. Því miður náði hvorugur að klára verkefnið en mæta örugglega vel undirbúinir í næsta sporapróf.

Spor I er hins vegar 35 – 45 mín. gamalt og inniheldur tvær 90°beygjur, tvo millihluti og endahlut.  Í því spori kláraði hundurinn verkefnið með góðum árangri og hlaut 1. einkunn og fullt hús stiga eða 100 stig. Það var Ibanez White Shephard Fjalladís, eigandi Þórhildur Bjartmarz.

Kristjana Guðrún, dómari var vel undirbúin og full tilhlökkunar í upphafi prófs. Hún skilaði verkefninu vel og þátttakendur ánægðir með hennar störf. Stjórn Vinnuhundadeildar þakkar henni hér með fyrir að dæma sitt fyrsta próf og óskar henni til hamingju.

Sporapróf Vinnuhundadeildar HRFÍ haldið 22. júní 2018. Þegar flestir íslendingar fylgdust með viðureign Íslands og Nígeríu á VM hittust reynsluboltar í sporaprófi á Hólmsheiðinni

Dómari: Kristjana Guðrún Bergsteinsdóttir

Prófstjóri: Stefanía H. Sigurðardóttir