Katrín Halldóra Sigurðardóttir leikkona svarar spurningum Hundalífspóstsins
Hvað heitir hundurinn þinn / nafn og tegund?
Ég á tíkina Edith af tegundinni Old english sheepdog. Hún varð tveggja ára í janúar.
Af hverju valdir þú þetta kyn?
Mágkona mín á rakkann Jökul af sömu tegund og frá því að ég kynntist honum hef ég verið ákaflega hrifin af tegundinni og karakternum. Old english sheepdog eru oft kallaðir “loðnir trúðar”, þeir eru blíðir, klárir og fjölskylduvænir en mjög sterkir karakterar og það getur gengið á ýmsu. Við fluttum Edith inn frá Frakklandi þegar hún var hvolpur þar sem engin OES tík var á landinu sem hægt var eignast hvolp undan.
Hversu lengi hefur þú átt hunda?
Hún er minn fyrsti hundur, ég fékk hana fyrir einu og hálfu ári síðan.
Hvernig lýsir þú samskiptum þínum / fjölskyldunnar við hundinn ?
Edith er partur af fjölskyldunni. Hún er oftast með okkur hvert sem við förum. Ég dekra mikið við hana en hún er samt alltaf í markvissri þjálfun og þarf að læra reglur heimilisins. Hún má ekki vaða yfir allt og alla, það myndi hún auðvitað helst vilja gera.
Er Lífið betra með hundum?
Já ég myndi segja að hundur getur bætt lífið töluvert. Þeir stækka hjartað manns og eru svo gífurlega mikill félagsskapur. Það er svo gefandi að hugsa ekki bara um rassgatið á sjálfum sér, sjá um að hundurinn nærist, leika við hann, hirða upp eftir hann og dekra við hann. Hundur dregur mann út í göngu í hvaða veðri sem er, amk tvisvar á dag því það þýðir ekkert að vera með óhreyfðan hund heima; þreyttur hundur er góður hundur! Svo kynnist maður hverfinu sínu allt öðruvísi og veit hvað allir hundarnir í hverfinu heita – en ekki endilega fólkið! Þegar ég er frá henni þá sakna ég hennar mikið, sakna þess að heyra ekki fótatakið hennar, að heyra hana borða og að horfa í fallegu augun hennar sem eru svo ómótstæðileg.