MAST: Ofsahræðsla dýra vegna flugelda

29.12.2017 Dýraheilbrigði

Áramótin nálgast óðfluga og minnir Matvælastofnun dýraeigendur á að huga vel að dýrum sínum á meðan á flugeldaskotum stendur. Slíkar sprengingar kunna að valda dýrunum ofsahræðslu og geta þau valdið slysum á sjálfum sér og öðrum við slíkar aðstæður. Hægt er að fyrirbyggja slys með því að grípa til viðeigandi varúðarráðstafana fyrir gamlárskvöld og þrettándann.

Dýraeigendur, sérstaklega þeir sem eiga hunda, ketti og hesta, kannast vel við þann óróa og angist sem dýr þeirra ganga í gegnum á þessum tíma vegna látanna sem fylgir flugeldaskotum. Dæmi eru um að hundar sleppi og hlaupi fyrir bíla eða á fjöll. Hestar úti í haga eru sérlega í hættu. Fjölmörg dæmi eru um að hestar hafi fælst við flugelda, brotist út úr girðingum og hlaupið til fjalla eða í veg fyrir bílaumferð, og valdið slysum á sjálfum sér og öðrum. Hestar eru mikil hópdýr svo ef einn hleypur af stað getur allur hópurinn fylgt. Einnig eru margir komnir með hesta á hús á þessum tíma og farnir að stunda útreiðar. Óþarfi er að lýsa því hvað getur gerst ef flugeldum er skotið upp rétt hjá eða yfir fólki við útreiðar.

Matvælastofnun vekur athygli á því að í nýrri reglugerð um skotelda er leyfilegur skottími skemmri en áður. Almenn notkun flugelda er leyfð frá 28. desember til 6. janúar frá kl. 10:00 til 22:00 og alla nýársnótt. Mikilvægt er að virða þessi takmörk til að gefa dýraeigendum kost á að viðra dýr sín án hættu á ofsahræðslu vegna flugelda.

Matvælastofnun beinir því til almennings, og sérstaklega foreldra og forráðamanna barna og unglinga, að sýna þá tillitsemi við dýrin og eigendur þeirra að eingöngu stunda flugeldaskot, hvellhettusprengingar og nota ýlur á gamlárskvöld eða á þrettándanum. Það hjálpar dýraeigendum við að grípa til ýmissa fyrirbyggjandi ráðstafana.

Það helsta sem hægt er að gera er eftirfarandi:

  • Hestum sem komnir eru á gjöf í hesthúsum skal gefið vel, hafa ljósin kveikt og útvarp í gangi.
  • Gott er að gefa hestum vel sem eru á útigangi og halda þeim á kunnuglegum slóðum, þar sem þau fara sér síður að voða ef hræðsla grípur þá. Ef hægt er að setja hesta inn er það öruggast.
  • Eigendur ættu helst að fylgjast með hestunum ef því er komið við, eða alla vega vitja þeirra sem fyrst eftir lætin.
  • Gæludýr: Í þéttbýli er best er að halda köttum alveg inni dagana í kringum áramót og hafa hunda alltaf í taumi þegar þeim er hleypt út, þó það sé bara út í garð.
  • Hunda er best að viðra vel árla dags í birtu svo þeir verði þreyttir um kvöldið og ef þeir eru mjög hræddir þá gjarna viðra fyrir utan bæinn. Svo að kvöldi er mjög snjallt að viðra stutt meðan skaupið er, þá er yfirleitt afar rólegt.
  • Dýr sem sýna mikla hræðslu ber ekki að skilja eftir ein. Misjafnt er hvort hrædd gæludýr vilja félagsskap eigandans eða hvort þau vilji skríða í felur. Ef þeim líður betur í felum skildi maður leyfa þeim það. Allra mikilvægast er að dýrin sleppi ekki út.
  • Gott er að tala rólega en glaðlega við dýrin, til að sannfæra þau um að heimurinn sé ekki að farast. Jafnvel er hægt að gefa þeim smá dýranammi meðan eða strax á eftir hvelli, svo þau tengi þessi læti einhverju jákvæði. Strokur og snerting eiganda róar einnig flest dýr og veitir þeim styrk.
  • Þegar það versta gengur yfir ber að að halda dýrunum inni, gjarna í rými sem þau þekkja, loka og byrgja glugga og hafa tónlist í gangi. Yfirleitt er best að hafa ljósin kveikt, til að draga úr ljósaglömpum. Fyrir hunda er jafnvæl hægt að prófa að nota eyrnartappa, sumir sætta sig við það, aðrir ekki.
  • Ef ofangreint er ekki talið nægjanlegt, þá er gæludýraeigendum ráðlagt að tala við sinn dýralækni vel tímanlega fyrir áramót og fá ráðleggingar. Hægt er að fá lyfseðil fyrir kvíðadempandi lyf og þá er mikilvægt að byrja ekki meðhöndlun of seint þegar dýrið er komið í hræðslukast, en þá er virknin mun takmarkaðri. En varað er við að gefa dýrum nokkur lyf nema í samráði við dýralækni.
  • Þó hundar virðist rólegir skyldi ekki taka hundana með út, hvorki á brennur né til að skjóta flugeldum. Blys og rakettur geta skotist í allar áttir og annað fólk getur stundum verið óútreiknanlegt, þannig að slíkt umhverfi er alls ekki hundavænt. Munið að hundar heyra mun betur en við. Hundur sem verður fyrir mjög slæmri upplifun getur borið skaða af því ævilangt. Einnig þó hundur virðist rólegur getur hann í raun verið ofsahræddur, en bara verið í hálfgerðu lömunarástandi af hræðslu.
  • Ungum dýrum sem eru að upplifa sín fyrstu áramót þarf að sýna sérstaka aðgát. Dagarnir fyrir áramót geta gefið vísbendingu um hvað verða vill.
  • Ef reynslan sýnir að dýr verður ofsahrætt við lætin kringum áramótin er ráðlagt að byrja þjálfun fyrir næsta ár einhverjum mánuðum fyrr. Hljóð af sprengjum og látum er t.d. hægt að finna á YouTube sem er hægt að venja þau við hægt og rólega, og samtímis nota jákvæða styrkingu. Of seint er að byrja slíka þjálfun nokkrum dögum fyrr og getur það gert illt verra.
  • Einnig fæst hjá mörgum dýralæknum róandi lykt ýmist í hálsbandi, eða til að setja í innstungu og er gott að setja slíkt upp ekki seinna en 2 vikum fyrir áramót.

Allra mikilvægast er alltaf að dýrin séu í öruggu umhverfi og njóti stuðnings eiganda sinna.

http://mast.is/dyraheilbrigdi/dyravelferd/dyrahald-og-flugeldar