Korpur flytur í sveitina

Brynhildur Inga skrifar fyrir yngstu lesendur Hundalífspóstsins.

Hundurinn Korpur segir sögur af ættingjum sínum.

Þegar fóstra mín var komin með 4 íslenska fjárhunda, Köru ömmu mína, Snögg mömmu mína, Úlf pabba minn og Móra frænda fannst henni það vera tilvalið að kaupa bújörð og gera hundana að afbragðs fjárhundum, því flutti öll fjölskyldan vestur á Snæfellsnes.

Snögg var ekki alveg sátt við flutninginn til að byrja með og átti það til að hlaupa eitthvert út í buskann og varð svo hrædd og rataði ekki heim.

Það þurfti oft að fara að leita af henni og fannst hún þá á hlaupum í sveitinni og varð ósköp fegin þegar hún var komin heim í hóp hinna hundanna og í öryggi fóstru.

Ef Snögg hefði nú bara aðeins stoppað á þessum hlaupum sínum og hugsað í smá stund eða jafnvel notað nefið og rakið slóðina til baka hefði hún  komist heim af sjálfsdáðum. En þegar maður er hræddur þá gleymir maður stundum að hugsa.

 

fyrsti veturinn

 

Fyrsta veturinn á bóndabænum fengum við sko að kynnast ofsaveðri. Rétt eftir að féð var komið af fjalli fékk það að vera úti á túni og einnig að fara inn í fjárhúsið ef það vildi eða ganga fyrir opnu eins og það var kallað. Einn morguninn skall á með blind byl svo ekki sá út úr auga.

Fóstra mín, maðurinn hennar og vinnumaðurinn á bænum voru í fjósinu að mjólka  kýrnar þegar veðrið skall á en hættu strax að mjólka þegar þau  sáu hvað veðrið var orðið kolvitlaust og hlupu út til þess að hóa á féð. Féð var komið út um öll tún og einnig að næsta bæ. Þau fóru þá á bílnum að næsta bæ og þurfti að reka féð yfir ána en féð ætlaði ekki að þora yfir því það var kominn svo mikill krapi í ána þannig að fóstra varð að ganga á undan og búa til slóð fyrir það, vinnumaðurinn gekk á eftir og rak féð áfram og áleiðis heim og þau hóuðu  stanslaust svo féð sem var í fjallinu eða á túninu rinni á hljóðið og færi heim á leið.

Ein kindin þorði ekki að fara yfir ána og var nokkuð blaut og uppgefin þannig að  henni var vippað uppá  pallinn á bílnum og síðan keyrð heim.

IMG_0020-0

Fóstra og vinnumaðurinn skiptu nú liði og fóru sitthvoru megin við litla hæð til að reyna að ná öllu fénu. Þannig háttaði til þarna í landslaginu að það voru nokkur skurðir á leiðinn og voru þeir orðnir fullir af krapa.  Þrjár kindur höfðu dottið í einn af þessum skurðum og sátu þar fastar. Fóstra mín varð að fara ofan í skurðinn til þess að reyna að ýta undir kindurnar og losa þær svo hægt væri að koma þeim heim. Ekki vildi betur til en þegar hún var búin að koma tveimur af kindunum upp úr skurðinum þá missti missti hún af sér stígvélin og  var orðin alveg tilfinningalaus í fótunum af kulda og sat föst í krapanum. Það var eins og krapinn héldi dauðahaldi í hana.  Hún reyndi að kalla í gegnum vindinn til vinnumannsins sem hafði farið aðra leið með kindahóp á undan sér.

Sem betur fer heyrði hann dauft óp hennar og gekk á hljóðið og tókst að draga hana og kindina sem enn sat föst upp úr skurðinum og veiða stígvélin hennar fóstru uppúr krapanum.

Fóstra sagði að hún vissi ekki hvernig  henni hafi tekist að ganga heim jafn köld og blaut sem hún var þennan fárviðris dag.

Þegar búið var að reka féð heim í fjárhús var strax farið í það að telja kindurnar og kom þá í ljós að það  vantaði nokkrar.  Það var því ekki um annað að ræða en fara heim í bæ og hafa fataskipti, s.s að fara í þurr og hlý föt, þurra sokka og skó og fara aftur út að leita. Móri sem var alltaf svo góður með kindunum fékk þá að fara með fóstru út að leita því hann er með svo frábært lyktarskyn. Hann fann nokkrar kindur sem höfðu grafist í fönn. Þegar ullin á kindunum blotnar verða þær svo þungar að þær geta varla hreyft sig svo það tók þær langan tíma að ganga heim. Sumar voru alveg orðnar aðframkomnar af þreytu.

Eins og allir vita sem þekkja fóstru mína þá passar hún alltaf svo vel dýrin sín. Daginn eftir fréttist í að það voru ekki allir svona heppnir að ná kindunum sínum heim því stór hópur af fénu hafði grafist í fönn. Þennan fyrsta vetur í sveitinni fengum við að kynnast því hvernig vont veður getur farið illa með dýrin.

Með kveðju
Brynhildur Inga Einarsdóttir, hundaþjálfari
borg1@centrum.is
www.reykjadals.is