Átta vikur frá sjónarhorni ræktanda

Ég gjói augunum á Pálínu, er eiginlega alltaf að fylgjast með henni og finnst hún verða skrýtnari með degi hverjum. Ég dreg síman upp úr vasanum og tel vikurnar aftur, gæti ég hafa áætlað þetta eitthvað vitlaust? Nei, ég veit fyrir víst að Sixten var hjá mér um páskana… en við hvað á ég að miða ef Fálki hefur kannski parað hana líka?

Fyrir nokkrum mánuðum flutti ég inn rakka, sem hefur sankað að sér titlum og verðlaunum. Kappinn var orðinn vel fullorðinn við komuna til landsins, en eftir alla athyglina frá lóðatíkum þá er ég ekki frá því að hann hafi jafnvel yngst um eitt eða tvö ár. Hann leit að minnsta kosti ekkert út fyrir að vera 11 ára gamall þegar hann var að eltast við Pálínu. En svo hef ég ákveðnar áhyggjur af því að Fálki, ungur rakki í minni eigu hafi náð að nýta sér smá gat á athyglisgáfu minni til að eiga í nánari kynnum við Pálínu. Það sem mælir gegn því að eitthvað hafi átt sér stað á milli þeirra er að Pálína var farinn að bíta Sixten frá sér og var komin fram yfir fyrirframskilgreindan fengitíma. En samt, það var þessi svipur á þeim Pálínu og Fálka – sem gerir það að verkum að mig grunar að eitthvað hafi átt sér stað.

IMG_3334

Ég er stödd upp í hesthúsi og finn ekki Pálínu, hún kemur alltaf um leið og ég kalla en nú er hún hvergi sjáanleg. Ég verð fljótlega örlítið óróleg, þetta er svo ólíkt henni og svo er hún hvolpafull í þokkabót. Ég kíki inn í hús, stundum stelst hún þangað til að stela mat þegar ég sé ekki til.

Nú er ég orðin stressuð, kalla og blístra og þá heyri ég loks gelt frá hesthúsinu, ég dríf mig þangað en sé engan hund. Samt heyri ég gelt og jú þarna glitir í trýni – hún er búin að grafa sig undir hesthúsið… og er föst! Ég næ í skóflu og stækka gatið og toga hana út. Nú skil ég hvert hún hefur verið að hverfa síðust misseri á meðan ég mokaði stíurnar.

Pálína er gengin átta vikur í dag, hún er orðin frekar sver en samsvarar sér vel. Mig grunar að það séu svona þrír/fjórir hvolpar í henni, en ákveð í fyrsta skipti að fara með tík í röntgen. Af hverju? Aðallega vegna þess að ég á leið upp á dýraspítala, en líka af því að mig langar að prófa þetta og ég tel að það geti hjálpað til núna að vita með nokkurri vissu hversu mörgum hvolpum ég á von á.

Dýrahjúkrunarfræðingurinn tekur á móti okkur og fer með Pálínu í röntgenið. Ég fæ smá áfall þegar myndin birtist – Pálína er klárlega stútfull af hvolpum, já þeir eru sex. Vá, það verður nóg að gera í sumar!

 

IMG_3472

Pálína er gengin 58 daga og ég er nokkuð viss um að það styttist í hvolpana, hún ráfar um másar og ólíkt því sem hún er venjulega er hún ekki límd við fæturna á mér, en fer í staðinn inn í búr. En þetta stressar mig örlítið ég þarf nefnilega að taka hestatúr í kvöld. Innst inni veit ég svo sem að hún ætti að geta græjað gotið sjálf, tík í topp formi en maður vill jú vera til staðar.

Hún er farin að krafsa duglega áður en ég legg af stað, en Hanna systir ætlar að vera með henni og ég veit að hún er í góðum höndum. Svo hef ég það á tilfinningunni að hvolparnir bíði aðeins. Ég er þó með símann uppi við og geri hálft í hvoru ráð fyrir að þurfa að keyra upp hraðan í hestaferðinni til þess að komast heim til að taka á móti hvolpaskaranum.

 

IMG_3469

 

Hestatúrinn gekk vel og þegar ég kem heim tekur Pálína á móti mér, hún er nokkuð róleg en hefur víst krafsað talsvert á meðan ég var í burtu. Fljótlega fer ég að koma mér í háttinn, Pálína vill hvergi vera nema upp í rúmi – hún lítur ekki við græna gotkassanum sem ég er búin að útbúa fyrir hana, en fer af og til inn í hundabúið sitt, rótar til og kemur upp í aftur. Ætli það sé svefnlaus nótt í vændum?

Pálína er að brölta af og til, krafsar ekki neitt en ég veit af henni í gegnum svefninn, hún másar lítið og ég hugsa með mér að sennilega ætli hún eitthvað að geyma þessa hvolpa lengur. Ég sannfæri mig um það strýk yfir kviðinn á henni og brosi þegar ég finn fyrir hreyfingum hvolpanna, sem eru í fullu fjöri um miðja nótt. Þreytan sannfærir mig um að ég geti slakað á og ég fell í frjálsu falli í djúpan svefn. Vá hvað það er gott eftir alla útivist og vinnu dagsins…

Ég vakna við heita gusu niður lærið á mér, ég þarf aðeins að hugsa og í smástund grunar mig að mér hafi orðið á en svo finn ég bylgju ganga í gegnum Pálínu sem hefur augljóslega ákveðið að besti staðurinn til að gjóta hvolpunum sé á maganum á mér.  Blaut í gegn renni ég mér niður á gólf með hundinn í fanginu bendi henni á hvolpakassann sem hún tekur snarlega í sátt, athuga að allt sé í lagi og hleyp fram til að vekja hina ljósuna, hana systur mína. Systirin steinsefur og muldrar eitthvað óskiljanlegt. Ég hugsa með mér að hún hafi nægan tíma til að vakna – vatnið bara rétt farið og þokkalegur tími til stefnu til vakna almennilega, því að sjálfsögðu er miðnótt.

Ég fer aftur að athuga með Pálínu og sé þá að í fæðingarveginum er andlit, lítill hvolpshaus komin úr pokanum og farinn að teygja álkuna út um pinkulítið og þröngt op sem hefur tæpast fengið nægan tíma til að opnast. Ég garga eins rólega og ég get á systur og hjálpa Pálínu svo örlítið svo að hvolpurinn komist út í heilu lagi. Það tekur nokkra stund, en loks lekur hann út – lítill og nettur rakki. Hann er lifandi og nokkuð sprækur þátt fyrir frekar erfiða ferð í heiminn. Klukkan er 04:36 heilar sex mínútur síðan að Pálína missti vatnið. Pálína fer strax aftur að rembast og fjórum mínútum seinna kemur annar strákur enn hressari en bróðirinn, leiðin í heiminn var greiðari. Nú líður smá stund tæpar tíu mínútur og þá lekur út lítið hvolpsgrey, Pálína þurfti varla að rembast til að koma henni í heiminn rétt tæp 130 gr og mér sem fannst bræðurnir litlir en þeir voru 150 og 160 gr. Næsta kemur stuttu síðar, Pálína þarf ekkert að hafa fyrir þessu, hvolparnir virðast bara skjótast út. Við systir getum líka bara notið þess að fylgjast með – Pálína sér sjálf um vinnuna, opnar belginn, bítur á strenginn og þrífur litlu skottin hátt og lágt. Klukkan 05:50 er síðasti hvolpurinn kominn í heiminn stór og stæðileg tík. Samtals gaut hún sex hvolpum, tveimur rökkum og fjórum tíkum.

Um leið og síðasti hvolpurinn er kominn í heiminn færist ró yfir Pálínu, hún virðist skynja að þetta sé komið og hvolparnir nýfæddu er duglegir að finna spena. Ég tek til í kringum hana, set þurrt teppi í hvolpakassann og kem öllu í eðlilegt form á meðan ég fylgist með því að allt gangi sem skyldi. Þegar ég er búin að stara nægju mína á Pálínu með litlu krílin sín hendi ég mér í sturtu, það er óþarfi að vera útbíaður lengur en nauðsyn krefur.

IMG_3543

 

Vika 1

Það krefst ákveðins vilja styrks að sitja ekki allan daginn og horfa á hvolpana. Pálína sýnir það strax að hún er frábær mamma, hugsar vel um þá og þeir virðast allir braggast vel á fyrsta sólarhring. Hvolpakassinn er við hliðina á rúminu mínu – ekki endilega besta staðsetningin því þeir mega varla rumska á nóttunni, þá er maður vaknaður.

Hvolparnir eru sofandi og á spena til skiptis. Pálína rétt stendur upp frá þeim til að fara út að pissa. Hún vill helst vera mötuð – hefur ekki tíma til að borða sjálf. Ég held að henni matnum og vatni og tek það svo frá henni aftur annars reynir hún að fela það í gotkassanum með tilheyrandi sulli.

Hvolparnir rúmast vel á spena og hún virðist gefa þeim nóg en safnar engu júgri – þeir drekka allt um leið. Hvolparnir braggast vel, allir nema litla tíkin, hún virðist ekki vera nógu öflug og dettur af spenanum þegar stóru flykkin – systkinin hennar ýta henni til.

Farið er að bera á talsverðum þyngdar mun. Litla stýrið er bara rétt 150 gr en sá stærsti í gotinu rúmlega 300 gr. Ég reyni að passa að hún fái tíma til að drekka í friði, tek hana upp úr kassanum og legg hjá Pálínu. Hún er duglega að drekka og sígur vel.

IMG_3566 IMG_3564

 

Vika 2

Hvolparnir stækka og ég er hætt að hafa sömu áhyggjur af litlu, þó svo að ég hafi þróað með mér ákveðna þráhyggju þegar kemur að því að vikta hana.  17. Júní rennur upp og fyrsti hvolpurinn opnar augun.

Þegar hvolparnir byrja að opna augun, fer ég að slaka á. Það er nokkuð öruggt merki um að allt sé á réttri leið. Þeir verða líka hundslegri eftir að augun opnast.

Pálína er farin að leyfa sér að standa upp frá þeim og borða sjálf. En ef það heyrist eitthvert tíst er hún komin ofan í kassann til þeirra. Ég er búin að bjóða henni í göngutúr en hún er enn þá ekki til í það. Hennar heimur er bara gotkassinn og hún vill helst ekki vera langt frá honum.

Ég stenst ekki mátið og panta DNA próf fyrir hvolpana hennar Pálínu, framkvæmdin er einföld, ég vil bara vera viss um að Sixten sé pabbinn. Til að þekkja hvolpana í sundur, mála ég þá með naglalakki undir þófanna, nú er hvolpakassinn alltaf örlítið skrautlegri en ráð er gert fyrir.

IMG_3656

Vika 3

Nú getur maður merkt að hvolparnir eru farnir að heyra örlítið og sjónin er farin að koma til. Þrátt fyrir að rúm vika sé liðin síðan þeir opnuðu augun þá, eru hvolparnir blindir eða sjóndaprir fyrstu vikurnar.

Hvolparnir eru farnir að sýna hvor öðrum áhuga, leikurinn er að vakna og það er ekki lengur sama róin yfir hvolpakassanum. Þessi tími er mikilvægur fyrir félagsmótun þeirra. Þeir skapa tengsl við mömmuna og systkinin sín. Þeir eru í rauninni að læra vera hundar og það er ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með því. Hvolparnir eru farnir að setjast upp og reyna að standa en eru enn þá ekkert sérstaklega góðir í því.

Pálína er dugleg að sinna hvolpunum og þeir braggast vel. Tennurnar eru rétt farnar að koma í gegnum góminn, en hún finnur lítið fyrir þeim þegar þeir eru á spena. Hún er farin að leyfa sér að fara frá þeim, en hún vill helst ekki fara langt og er vör um sig, sem er ólíkt henni. Það á enginn að geta stolið hvolpunum hennar það er ljóst.

IMG_3682

IMG_3691

 

Vika 4

Nú er allt farið af stað. Hvolpakassinn er eiginlega orðinn of lítill og á fjögra vikna afmælisdaginn duttu þeir út úr honum í fyrsta sinn. Litlu hvolparnir eru um það bil orðnir hundar og nú er líka kominn tími á að fara gefa þeim eitthvað meira að borða. Ekki það að Pálína virðist hafa næga mjólk en tennurnar geta farið að meiða hana þegar hamagangurinn er sem mestur á barnum.

Í fyrstu máltíð fá þeir lafþunnan hafragraut, stundum tekur það tíma fyrir hvolpa að átta sig nýjum mat, en þessir snillingar klára allt af disknum á augnabliki, greinilega tilbúnir.

Í framhaldinu fer ég að venja þá við hundamat, sem ég legg í bleyti og mýki upp fyrir þá. Þeir eru duglegir að borða halda allir áfram að braggast vel. Núna er hvolpakassinn hins vegar ekki lengur svona hreinn og fínn eins og hann hefur verið. Áhugi Pálínu á að þrífa kassann snögg minnkaði með fóðurgjöfinni, svo nú er það meira og minna undir mér komið að passa að allt sé hreint og fínt.

Þar sem hvolparnir eru orðnir svo duglegir að vera á ferðinni – er ég farin að leyfa þeim að vera meira úti. Þeir njóta sín vel í grasinu og góða veðrinu.

IMG_3934 IMG_3894

 

Vika 5

Hvolparnir eru ákaflega hraustir og ég ákveð að taka þá með mér í vinnuna, þ.e. hesthúsið. Þar sem ég get ekki skilið þá eina eftir á meðan ég er í burtu allan daginn. Ég veit líka að Pálína er miklu sáttari að fá að fylgja mér í mínum verkefnum en að vera skilin eftir heima og ég er viss um að það skili góðu einu til hvolpana að hafa svona mikið pláss, fá að vera úti og geta verið undir eftirliti meira og minna allan daginn.

Í hesthúsinu hef ég útbúið stórt og mikið herbergi fyrir þá með útgengt út á stóran og lokaðan pall. Ég set þá alla í plastbúr á leiðinni upp eftir og á hálft í hvoru von á að þeir væli á leiðinni og verði skelkaðir þegar við komum á áfangastað. En nei þeir leggja bara strax af stað í leiðangur að skoða nýja umhverfið sitt.

Pálína er ótrúlega ánægð að vera komin aftur í  ,,sveitina” hún hleypur um hoppar og skoppar og… étur hestakúk. Ég stressast aðeins upp við það – hringi í dýralækni, en allt í góðu hestarnir eru ný ormahreinsaðir og dýri segir mér að hafa engar áhyggjur mjólkin verið örugglega bara betri.

Að vinnudegi loknum er öllum smalað aftur inn í búr og upp í bíl. Þeim varð ekki meint af sveitaferðinni og daginn eftir og þá næstu er leikurinn endurtekinn.

 

IMG_3956DSC_5624 DSC_5647 DSC_5648 DSC_5653

 

Vika 6

Ég er ótrúlega ánægð með aðstöðuna upp í hesthúsi, þvílíkur lúxus að geta haft hvolpana hjá sér á daginn ég er líka þakklát fyrir þetta frábæra veður sem hefur leikið við mig og hvolpana síðustu daga. Hvolparnir njóta sín í botn við leik inni og úti. Það hafa líka verið nokkrar heimsóknir, verðandi eigendur eru duglegir að kíkja og það er líka svo auðvelt því við erum jú eiginlega alltaf við upp frá.

Allir hvolparnir eru lofaðir og ég er ánægð með væntanlega eigendur, allir svo spenntir og einlægir í áhuganum. Svo er svo skrítið að þrátt fyrir að allt þetta fólk komi og skoði hvolpana sex, þá hafa engar tvær fjölskyldur fallið fyrir sama hvolpinum – það er eins og fjölskylda hvers og eins sé skrifuð í skýin.

Ég er farin að sjá talsverðan karaktersmun á hvolpunum. Sumir eru óhræddari en aðrir, alltaf búnir að finna nýjar leiðir til að grafa sig undir pallinn á meðan aðrir eru meira fyrir að liggja einhvers staðar í sólbaði.

Pálína elskar líka móður hlutverkið – hún elskar að hoppa og skoppa í kringum hvolpana, hún fer ekkert sérstaklega varlega og leikur við þá út í eitt. Henni finnst einkar skemmtilegt að drösla þeim til á hnakkadrambinu. Þegar leikar verða hins vegar of hávaðasamir og ærslafullir leggst hún niður og bíður á barinn, það róar hópinn og hún virðist njóta þess að gefa þeim, þrátt fyrir tennurnar séu eins og í mannætu fiskum.

Í vikunni fékk ég niðurstöður úr DNA prófinu. Það var frekar mikið sjokk, enginn af hvolpunum 6 var undan Sixten, hundinum sem ég flutti inn fyrir þetta got. Nei, Fálki tók í tauminn, hann er orðinn pabbi. Sem betur fer máttu þau alveg parast saman, en þetta var nú ekki planið að svo stöddu.

DSC_5638 DSC_5626 DSC_5633 DSC_5640 IMG_4009 IMG_3971 IMG_3968 IMG_3961 IMG_3864

Vika 7

Hreint út sagt – þá væri litla 50fm íbúðin mín orðin fokheld, ef ég gæti ekki sett hvolpana út í hundagerðið heima og tekið þá með mér í hesthúsið. Þvílík orka í þessum litlu kroppum og vá hvað það er gaman að vera til.

Pálína er enn að gefa þeim spena og áhuginn á mjólkinni er ekkert að fara mikið minnkandi en hún er líka ekkert að venja þá af.

Þeir eru orðnir nokkuð hávaðasamir í leik og duglegir að tuskast til. Ég tek reglulega einn og einn hvolp út úr hópnum, til að átta mig betur á hverjum og einum. Þeir eru allir mjög mannelskir og óhræddir og vilja mjög gjarnan vera upp í fangi, samt er ekki alveg jafn notalegt að knúsa þá núna og fyrir stuttu síðan, þessar tennur eru ekkert djók, þegar þær læsast um eyrnasnepilinn.

Öll umhverfisþjálfum hingað til hefur gengið vel. Þeir eru orðnir vanir því að ferðast á milli staða og bíða í búrinu. Þeir sofa líka í búri á nóttunni og vakna heldur snemma til að fara út að pissa og kúka. Fyrsti klukkutíminn í vöku er sá skemmtilegasti – þá ætlar allt um koll að keyra.

DSC_5881 DSC_5884 DSC_5901 DSC_5805 DSC_5839 DSC_5846 DSC_5854 DSC_5864 DSC_5707 DSC_5752 DSC_5766 DSC_5665 DSC_5668

Vika 8

Hvolparnir fóru í skoðun til dýralæknis og komu ákaflega vel út úr henni. Sex hraustir og flottir hvolpar sem fengu allir topp einkunn. Þeim varð ekki meint af öllum þessum ferðalögum eða sveita veru.

Hvolparnir fara að heiman einn af öðrum. Pálína kippir sér ekkert upp við það, samt er hún enn dugleg að gefa þeim spena og hefur ekki fjarlægst þá neitt sérstaklega í það minnsta er hún alltaf tilbúin að sinna þeim og þrífur enn upp eftir þá. Reyndar hafa hvolparnir verið ótrúlega duglegir við að gera stykkin sín úti og ef þeim verður mál inni hefur teppið í forstofunni (og dagblaðið) verið hið besta klósett – teppinu verður skipt út núna.

Tveir hvolpar eru aðeins lengur hjá mér, önnur fjölskyldan er erlendis en breytingar á heimilishögum hjá væntanlegum eigendum gerðu það að verkum að einn hvolpurinn þurfti að fá nýja fjölskyldu. Það tók nú ekki langan tíma en það var gaman að geta haft þá tvo aðeins lengur eða fram á tíundu viku.

Nú eru allir hvolparnir komnir til nýju fjölskyldnanna sinna og standa sig vel í nýju hlutverki. Þeir eru sumir hverjir rosalega duglegir að gera stykkin sín úti – en öðrum finnst betra að kúka á skólatöskur, veski og skó. Þeir eru uppátækjasamir en ljúfir og virðast allir mikið gefnir fyrir knús og kjass. Ég vona innilega að þeir haldi áfram að standa sig svona vel í lífinu. Pálína lætur eins og ekkert sé leikur bara við mömmu sína fyrst að hvolparnir eru farnir, það er ekki að sjá að hún láti það á sig fá að börnin séu flutt að heiman.