Lögreglan handsamaði kóp á tjaldsvæðinu í Laugardal

Þórhildur Bjartmarz:

Þetta var stóra „krútt“-frétt verslunarmannahelgarinnar. Allir fjölmiðlarnir voru uppteknir að segja frá ferðum kópsins sem lögreglan handsamaði og kom til síns heima í Húsdýragarðinn. Fréttin var á mjúkum nótum allt varð voða sætt og fréttamenn brosandi yfir þessum mikla flótta.

Reyndar kom fram að einn lögreglumaðurinn hefði verið bitinn og þurfti að leita sér aðhlynningar á Slysó en það var svona aukaatriði því kópurinn beit að sjálfsögðu bara í sjálfsvörn. Þess var sérstaklega getið í fréttinni.

En hvað ef hundur er handsamaður í Reykjavík og hvað ef hundur glefsar frá sér í vörn? Það er engin ástæða til að gera lítið úr því en á það er litið mjög alvarlegum augum.  Lítum aðeins á leikreglurnar.

Handsömunargjald Reykjavíkurborgar er 28.000

Að auki skal greiða þann kostnað sem leggst á vegna dvalar eða geymslu viðkomandi hunds.

Ef hundur glefsar getur tjónþoli hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður og er þá skylt að verða við þeirri kröfu, enda hafi verið leitað álits sérfróðra aðila…… sjá 19. grein í Samþykkt um hundahald í Reykjavík. Eigandi hundsins greiðir þann kostnað sem af því hlýtur

  1. gr. Lausir hundar, handsömun, geymsla, aflífun, kostnaður. Sleppi hundur frá eiganda eða umráðamanni, skal viðkomandi tafarlaust gera ráðstafanir til að handsama hann. Hunda í lausagöngu skal færa í sérstaka hundageymslu og tilkynna eiganda, sé hundur merktur, um handsömunina svo fljótt sem auðið er. Eigandi hunds skal greiða allan kostnað við handsömun og geymslu hans, áður en hann er afhentur á ný. Ef hunds er ekki vitjað innan einnar viku frá handsömun, er heimilt að ráðstafa honum til nýs eiganda eða selja hann fyrir áföllnum kostnaði. Að öðrum kosti skal hann aflífaður. Hafi hundur verið handsamaður, er óheimilt að afhenda hann fyrr en að lokinni skráningu, greiðslu leyfisgjalds og áfallins kostnaðar. Kostnaður við handsömun, geymslu eða aflífun hunds skal að fullu greiddur af eiganda.
  2. gr. Grimmir, varasamir og hættulegir hundar. Aflífun. Hafi eigandi hunds eða eftirlitsaðili ástæðu til að ætla að hundurinn sé grimmur eða varasamur, skal eigandi sjá til þess að hundurinn sé ávallt mýldur utan heimilis síns. Ef hundur telst hættulegur, getur eftirlitsaðili, tjónþoli eða forráðamaður hans krafist þess að hundurinn verði aflífaður og er þá skylt að verða við þeirri kröfu, enda hafi verið leitað álits sérfróðra aðila, s.s. dýralækna eða hundaþjálfara, sem viðurkenndir eru af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, áður en ákvörðun um aflífun er tekin. Allur kostnaður vegna skapgerðarmats og vistunar hunds skal greiddur af hundeiganda. Hafi hundur bitið tvisvar eða oftar og/eða valdið skaða, má aflífa hann án frekari viðvarana.