Hreinsun hunda – fyrr og nú

hundahreinsun

Jórunn Sörensen:

Eitt af því sem sumt fólk á Íslandi nefnir sem ástæðu þess að það segist vera á móti hundahald í þéttbýli er sullaveiki. Sullaveiki er hræðilegur sjúkdómur en hér á landi tókst að vinna bug á veikinni um aldamótin 1900 en mjög fá tilfelli komu í ljós eftir það og höfðu þeir einstaklingar sem greindust með sull, veikst fyrir aldamót, fyrir utan tvo. Bandormurinn/sníkillinn hefur ákveðinn þroskaferil – hundur-sauðfé-nautgripir. Sjúkdómnum var útrýmt með tvennum hætti: Slátrun fjár og nautgripa á stöðum sem hundar gátu ekki komist í innyfli og ormahreinsun hunda.

Búskaparhættir, fáfræði og sóðskapur eru ástæður sullaveikinnar hér á landi. Af þessum þremur þáttum hefur þó hundurinn fengið alla sökina og var reynt að takmarka hundahald á landinu með ýmsum hætti – skattlagningu og svo banni.

Ofangreindar upplýsingar eru úr grein Páls A. Pálssonar „Sullaveiki á Íslandi – sögulegt yfirlit“ sem er birt í bókinni: „Dýralæknatal, búfjársjúkdómar og saga“ sem gefin var út af Dýralæknafélagi Íslands 2004. Ritstjóri er Brynjólfur Sandholt.

Það er áhugavert að skoða hvernig ormahreinsun hunda hefur breyst. Nú förum við með hundana okkar til dýralæknis þar sem þeim er gefin tafla og málið afgreitt. Í reglugerð um hundahreinsun og varnir gegn sullaveiki frá árinu 1957 er því lýst mjög nákvæmlega hvernig hundahreinsun skyldi fara fram.

  1. gr.

Hundahreinsun skal fara fram í húsi, þar sem gólf og veggir eru steinsteyptir eða gerðir úr öðru þéttu efni, sem auðvelt er að hreinsa. Aðstaða skal og vera þar til þess að tjóðra hund, meðan á hreinsun stendur. (…)

 

  1. gr.

Til hreinsunar hunda skal nota bandormalyfið arekolhydróbrómið (Arecolini hydrobromidum, Ph. D., Add. Vet.) og til böðunar hundanna eftir hreinsun kresól-sápulög (Kesolum saponatum, Ph. D.) (…)

 

  1. gr.

Þá er hundahreinsunarmaður er að starfi, skal hann búast sem til vosverka og klæðast síðum olíustakki (eða treyju og buxum) vaðstígvélum eða öðrum hlífðarfatnaði samsvarandi.

Svelta skal hund í sólarhring fyrir inngjöf bandormalyfs, og vatn má hundurinn ekki fá síðustu 4-6 klukkustundirnar fyrir inngjöf. (…)

Eftir inntöku frá margir hundar klígju. Til þess að koma í veg fyrir, að hundur kasti upp, þarf að hafa ofan af fyrir honum, vekja áhuga hans á einhverju, gæla við hann, sneypa hann, halda honum í stöðugri hreyfingu með því að leiða hann í bandi o.s.frv. Ef hundurinn kastar samt sem áður upp, er inngjöf endurtekin með hálfum skammti.

Lyfið verkar venjulegast niðurhreinsandi ½-3 klukkutundum eftir inntöku, en farist það fyrir, má endurteka inngjöfina 6 klukkustundum eftir fyrri inngjöf. Gera má ráð fyrir, að bandormar og bandormsegg gangi niður af hundinum með saurnum. Saurinn þarf að hreinsa jafnóðum burtu, svo að hann berist sem minnst á hundinn sjálfan og aðra hunda. (…) Eftir hreinsun, sem skjótt er lokið, eftir að hún hefst, skal baða hundinn rækilega í hæfilega stórum stampi upp úr veiku kresólvatni (…)

Greininni lýkur síðan á að lýsa hreinsun húsnæðis og þessari setningu: Að sjálfsögðu þrífur hundahreinsunarmaður sig sjálfan vel að verki loknu, þvær sér nosturslega um hendur úr veiku kresólvatni og gengur í bað, ef þess er kostur.

Í ofangreindri lýsingu sjáum við hreina misþyrmingu á hundum. En þegar þessi aðferð var fundin var hún sú eina sem var til. Það vekur hinsvegar upp spurningar um sjónarmið þeirra dýralækna til mannúðar, virðingar og verndar dýra sem notuðu þessa aðferð löngu eftir að sú sem við notum nú varð þekkt.

 

Netfang mitt er vorverk@simnet.is

Eldri svart/hvítu myndirnar sem sýna hundahreinsun eru úr Dýraverndaranum

dropPill2