Kettir, Kattavinafélagið og Kisukot

 

Jórunn Sörensen skrifar um ketti:

Í Fréttatímanum 17.-19. júlí sl. er grein um ketti sem finnast á vergangi og farið er með í kattagæsluna Kattholt. Í greininni kemur fram að þá voru 40 fullorðnir kettir í Kattholti og 22 kettlingar á öllum aldri. Hundalífspósturinn fór á stúfana og talaði bæði við Halldóru Snorradóttur starfsmann í Kattholti og Ragnheiði Gunnarsdóttur sem rekur kattaathvarfið Kisukot á heimili sínu á Akureyri.

Kattavinafélag Íslands var stofnað 1976 og fór strax að taka við köttum sem fundust á flækingi og reyna að koma þeim til síns heima eða nýrra eigenda. Margt hefur áunnist í Reykjavík á þeim árum sem liðin eru síðan. Félagið byggði Kattholt – hús fyrir starfsemina sem er rekið fyrir félagsgjöld og styrktarfé en einnig greiða Reykjavíkurborg og nágrannasveitarfélögin fyrir hvern kött sem finnst á þeirra svæði.

Kisukot á Akureyri hóf starfsemi 2012. Það er Ragnheiður Gunnarsdóttir sem rekur athvarf fyrir ketti á sínu eigin heimili – eins og Kattavinafélagið gerði í upphafi. Kisukot nýtur engra styrkja frá Akureyrarbæ.

Hundalífspóstinum er ekki kunnugt um önnur athvörf fyrir ketti á landinu og er það miður því vandamálið – eða segjum frekar úrlausnarefnið er varðar ketti á vergangi er gífurlegt. Það sem er gert til þess að halda fjölgun katta á flækingi í skefjum er bæði lítið og handahófskennt.

Kettir fara á vergang af ýmsum ástæðum. Sumir flækjast að heiman og týnast og oft eru það fress sem eigandi hefur vanrækt að láta gelda. Það fæðist allt of mikið af kettlingum vegna vanrækslu eigenda á að láta gera dýrin ófrjó. Þessir kettlingar eru oft gefnir hverjum sem hafa vill ef svo má að orði komast. Jafnvel fólki sem vill síðan ekkert með köttinn hafa og skilur hann eftir á stað þar sem öruggt er að hann ratar ekki heim. Einnig er Hundalífspóstinum kunnugt um að fyrir sumarleyfin, jólin og fermingarnar fjölgi þeim köttum sem fólk kemur með til dýralæknis til þess að láta aflífa þá. Og dýralæknirinn sem ég ræddi við sagði að sama fólkið fengi sér svo gjarnan nýjan kettling síðar. Svo eru kettir sem lifa villtir við ýmsar aðstæður og þeim fjölgar að sjálfsögðu.

Kattavinafélag Íslands er félag allra kattavina á Íslandi – samkvæmt nafninu. Félaginu bíður enn stærra verkefni en að sinna aðeins köttum Reykjavíkur og nágrennis. Á næsta ári verður félagið 40 ára og tími til kominn að gera stórátak í að fjölga félagsmönnum um allt land og taka höndum saman við bæjarfélög um allt land í málefnum er varða ketti. Á meðan kettir finnast á vergangi ætti Kattavinafélag Íslands að reka Kattholt í hverju bæjarfélagi.

Ég enda þennan pistil á athugasemd kattarins Grettis (Garfield) sem sagði: Hvernig getur orðið of mikið af köttum – það er fullt af fólki sem á engan ennþá.