Íslenskir fjárhundar sýndir í Flóanum

Þórhildur Bjartmarz:

Deild íslenska fjárhundsins verður með útisýningu á laugardaginn (20. júni) .  Hundalífspósturinn hafði samband við formann deildarinnar, Margréti Báru Magnúsdóttur, ræktanda.

Hvað verða margir hundar sýndir á þessari sýningu?

Það eru 62 hundar skráðir sem skiptast í nokkra flokka

Hver dæmir?

Dómarinn er íslenskur, Lilja Dóra Halldórsdóttir, hún ætlar að gefa skriflega dóma á íslensku sem hefur ekki verið gert í mörg ár. Ásamt Lilju Dóru starfa í hringnum, Herdís Hallmarsdóttir nýr formaður HRFÍ, en hún verður ritari sýningar og Soffía Kwaszenko hringstjóri.

Klukkan hvað byrjar sýningin og hvar verður hún haldin?

Sýningin byrjar með dómum utandyra kl. 11 við Félagslund í Flóa við hlið Gaulverjabæjarskóla ca 10 mínútna keyrsla frá Selfossi.

Kostar eitthvað fyrir áhorfendur?

Nei, Royal Canin styrkir sýninguna veglega, sem gefur okkur kleift að hafa ókeypis inn. Það er ekki veitingasala þannig að fólk verður að taka með sér nesti. Svo er gott að muna eftir stólum og góðum skjólfatnaði.

 Búist þið við mörgum áhorfendum og er eitthvað um erlenda gesti á svona sýningum?

Já við eigum von á mörgum. Við vitum af u.þ.b. 15 erlendum gestum sem eru að koma gagngert á þessa sérsýningu díf. Það er skemmtilegt að erlendir ræktendur koma til að fylgjast með hvað við erum að gera hér í heimalandi hundsins.

 Ætla margir að gista og er eitthvað fleira á dagskrá?

Það eru margir búnir að panta á tjaldsvæðinu og það er hægt að panta gistingu í Félagslundi. Við í díf ætlum að vera með sameiginglegan kvöldverð á laugardagskvöldið og þegar hafa um 50 manns bókað sig í matinn.

Í kaffihléi á sýningunni ætlum við að kynna svokallað Víkinga-rallý. En ætlunin er að keppa í rallý á sunnudaginn og þá verður hægt að skrá sig á staðnum.

Hvað fæðast margir íslenskir fjárhundahvolpar á ári og hvað fer stórt hlutfall þeirra úr landi?

Það er eitthvað um 120 hvolpar sem fæðast hér á landi og 30-40% eru seldir úr landi.

 Hvernig standa ræktunarmálin er ræktunin á góðri leið?

Það er mikil gróska í ræktun, genastofninn er að stækka sem hefur verið aðalmarkmið deildarinnar undanfarin ár. Það er líka mikil vakning í vinnuþættinum. Það eru fleiri farnir að þjálfa hundana til allskyns vinnu og nú er algengt að sjá íslenska fjárhunda í keppnum t.d. í hundafimi, hlýðni og spori. Nýlega fóru tæplega 20 manns í þjálfunarbúðir með íslenska hunda vestur á Snæfellsnes til að æfa þá í alls kyns vinnu.

Er eitthvað sérstakt framundan hjá deildinni?

Já, Isic fundurinn hér á landi í haust. Isic  er alþjóðlegt samstarf um íslenska fjárhundinn. Isic verður með  ráðstefnu í október, þetta er mjög stór viðburður og undirbúningur fundarins er í fullum gangi hjá deildinni.

Eitthvað að lokum?

Ég hvet fólk sem hefur gaman af hundum til að mæta og eiga skemmtilegan dag með okkur