Leyfið þeim að hafa dýrin hjá sér

Viktoría Hermannsdóttir, Fréttablaðinu

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á það að gæludýr eru félagslegur stuðningur fyrir eigendur sína.

Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt fram á það að gæludýr eru félagslegur stuðningur fyrir eigendur sína. Þau geta hjálpað við að draga úr þunglyndi, álagi, eflt sjálfstraust og aukið gleði fólks svo eitthvað sé nefnt.

Þaðvar erfitt að fylgjast með fréttum um daginn þar sem talað var við gæludýraeigendur sem búa í íbúðum á vegum Öryrkjabandalags Íslands. Íbúunum hefur verið gert að losa sig við dýr sín þar sem dýrahald er bannað í íbúðunum. Það séu reglur sem hafi verið lengi í gildi en verið sé að framfylgja af alvöru fyrst núna.

Kattareigandi lýsti á átakanlegan hátt í viðtali við fréttamann RÚV að henni hefði liðið hræðilega og grátið í tvo daga þegar barst tilkynning um að hún þyrfti að láta frá sér köttinn sinn eða að öðrum kosti missa íbúð sína.

Önnur kona, mikið líkamlega fötluð, lýsti því að stundum kæmist hún ekki fram úr rúminu og yrði að bíða eftir hjálp en þá kæmi kötturinn hennar og biði hjá henni. Sem sagt einstakt samband þeirra á milli enda segist hún ekki getað lifað án kattarins síns.

Það er óskiljanleg mannvonska sem fylgir því að ætla að taka frá þessu fólki dýrin sem skipta það svo miklu máli og létta því lífið á erfiðum stundum.

Ég var í Þýskalandi á dögunum þar sem mun meira frjálsræði ríkir um dýrahald heldur en hér á landi. Hér eru dýr bönnuð víða en þar í landi fær besti vinur mannsins að fylgja honum hvert sem er. Hvort sem það er í almenningssamgöngum eða á barinn. Ég varð heldur ekki vör við að nokkur kippti sér upp við það.

Ég get heldur ekki skilið hvernig það truflar aðra íbúa í fjölbýlishúsum að einhverjir íbúar séu með gæludýrin sín inni í íbúðum sínum. Varla eru þau æðandi um gangana.

Væri ekki nær lagi að endurskoða þessi lög og leyfa fólki, sem í sumum tilvikum er einangrað vegna fötlunar sinnar, að njóta þess að hafa gæludýr hjá sér sem veita því félagsskap og gleði? Það held ég nú. Leyfið því að hafa dýrin hjá sér.

Bakþankar í Fréttablaðinu 13. maí 2015

http://www.visir.is/leyfid-theim-ad-hafa-dyrin-hja-ser/article/2015705139882