Sigrún Guðlaugardóttir:
Aðspurð um hvort gefa eigi hvolpa eða gæludýr í jólagjöf svara ég alltaf með hörðu NEI-i. Sem mér finnst alltaf frekar spaugilegt því fyrsti hundurinn minn var jú einmitt jólagjöf. En það segir ekki alla söguna.
Jólin 1995 vorum við systkinin fengin til að opna pakkana frá mömmu samtímis. Það var sitthvor hundabangsinn og með honum sú tilkynning að við ætluðum að fá okkur hund. Það var auðvitað mjög torskilið í fyrstu fyrir 9 og 6 ára gömul börn af hverju það hafi þá ekki bara verið hundur í blessuðum pakkanum en fengum þær útskýringar að við ættum eftir að finna rétta hundinn fyrir okkur. Eftirá að hyggja er ég glöð að þetta var bangsi í pakkanum því annars hefðum við ekki fundið Pjakk.
Pjakkur, Golden Retriever, var 6 mánaða þegar hann kom til okkar. Lítill rauðgyltur hnoðri sem var örlítið óstyrkur á taugum. Hann kom til okkar frá fjölskyldu sem hafði fengið sér hvolp og ekki reiknað dæmið til enda. Hvolpur til að fullkomna vísitölufjölskylduna. Ég er þess fullviss að slík ákvörðun hefur einungis verið tekin með bestu tilætlunum. En stundum bítur maður bara í stærri bita en maður ræður við. Því miður var barnið á heimilinu á aldri þar sem það hafði nægan styrk til að tuskast með hvolpinn en vantaði skilninginn. Þessi stutti tími hjá fjölskyldunni var nægur til að valda honum vissum áföllum sem fylgdu honum til okkar. Hann varð ekki fyrir vanrækslu eða illri meðferð, bara skorti á tíma og þekkingu. Þeim algenga misskilningi að Golden Retriever hundar séu fæddir barnagælur. Eða þeim misskilningi að börn og unglingar séu fær um að hugsa alfarið um eða bera ábyrgð á hundum.
Pjakkur var dásamlegur hundur sem verður alltaf besta jólagjöf sem ég hef fengið. En alla tíð sat í honum mikið óöryggi gagnvart ákveðnum hlutum. Plastpokar hræddu hann mikið enda var nærri búið að kæfa hann í einum slíkum í ,,bangsaleik“. Hann var mjög viðbrigðinn og óöruggur á vissum stöðum og við vissar hreyfingar. Hann hræddist flugelda alla tíð, svo mikil var ofsahræðslan að hann skalf og nötraði frá því sá fyrsti fór upp og síðasti niður tveimur vikum síðar og tvisvar yfir ævina týndist hann í lengri tíma eftir að hafa hlaupið undan skothvelli. Það var ákveðinn kvíði sem við náðum aldrei úr honum.
Jólagjöfin frá því á Aðfangadagskvöld 1995 lifði til ársins 2009 eða í 14 ár. Þá kom að því að jólagjöfin var orðin gömul og veikburða, og tími kominn til að kveðja. Sorgin og erfiðið sem fylgdi því að kveðja var jafn mikið, ef ekki meira en gleðin og ánægjan sem fylgdi pakkanum.
Pjakkur var hundurinn minn. Félagi minn sem fylgdi mér í gegnum gelgjuna, strákavandræði og huggaði mig skælandi, bílprófið og mörg önnur eftirminnileg augnablik í mínu lífi. Hann var uppeldisfélagi minn, ekki tækifærisgjöf.
Takk fyrir póstinn Sigrún