18. júlí – Dagur íslenska fjárhundsins verður nú haldinn í þriðja sinn. Þema dagsins að þessu sinni er:
ÍSLENSKI FJÁRHUNDURINN ER FJÖLSKYLDUVINUR
Á þessu ári fagnar þjóðin 100 ára fullveldi og því er enn meiri ástæða til þess að vekja athygli á menningararfi okkar – íslenska fjárhundinum.
Hátíðardagskrá:
Klukkan 12 á hádegi miðvikudaginn 18. júlí hefst ca klukkutímalöng dagskrá á Café Meskí í Fákafeni þar sem þrír hundaþjálfarar flytja fyrirlestra – þeir eru:
• LÍF MITT MEÐ ÍSLENSKA FJÁRHUNDINUM HÓFÍ / Monika Dagný Karlsdóttir
• TÁKNMÁL OG LÍKAMSTJÁNING ÍSLENSKA FJÁRHUNDSINS Í MÁLI OG MYNDUM / Brynhildur Inga Einarsdóttir
• HUNDABANN Í 60 ÁR / Þórhildur Bjartmarz
• AFHENDING VERÐLAUNA Í LJÓSMYNDAKEPPNI / Ágúst Ágústsson gerir grein fyrir vali dómnefndar
Fundarstjóri er Bryhildur Bjarnadóttir
Vinnuhópur um Dag íslenska fjárhundsins hvetur alla eigendur og velunnara íslenska fjárhundsins til að gera sér dagamun með hundinum sínum. Ræktendur eru sem fyrr hvattir til að kalla sitt fólk og hunda saman og gera eitthvað skemmtilegt í tilefni dagsins t.d. fara í göngu eða hittast með hundana og eiga skemmtilega stund saman.
Dagur íslenska fjárhundsins er með Fb síðu . Þar er fólk hvatt til að deila myndum frá deginum undir myllumerkinu #difdagur18. Eins er skemmtilegt að fá fréttir fyrirfram frá þeim sem skipulagt hafa dagskrá hvar sem er á landinu. Margir eiga borða í íslenska fánalitum til að “skreyta” hundinn með á 18. júlí.
Ljósmyndasamkeppni:
Undanfarnar vikur hefur staðið yfir ljósmyndasamkeppni undir yfirskriftinni börn og hundar. Keppninni lauk í gærkvöldi þá höfðu u.þ.b. 110 myndir borist í keppnina merkt með myllumerkinu myndakeppni2018. Nú tekur sérstök dómnefnd yfir og velur úr bestu myndirnar sem eru mjög fjölbreyttar og fallegar. Þá er gaman að geta þess að á myndunum eru líklega svipaður fjöldi stráka og stelpna. Dómnefndina skipa: Ágúst Ágústsson fv formaður díf, Pétur Alan Guðmundsson og Maggý R Þorvaldsdóttir Pease. Þau þrjú eru öll þekktir myndasmiðir. Þeir sem hafa sent inn þrjár bestu myndirnar að mati dómnefndar fá verðlaun sem eftirtaldir aðilar gefa.
Draumsýn Bókaforlag gefur bækur um Hófí eftir Moniku Karlsdóttur
Dýrheimar/Royal Canin gefur hundadýnur og dót fyrir hundinn
Hundalífspósturinn gefur bikara merkta Dagur íslenska fjárhundsins – myndakeppni 2018
Þá gefur Ágúst Ágústsson formaður dómnefndar og fv formaður díf fallegan grip fyrir bestu myndina
Vinnuhópur:
Vinnuhópinn skipa: Anna Kristín Einarsdóttir, Ágúst Ágústson, Brynhildur Bjarnardóttir, Linda Laufey Bragadóttir, Jórunn Sörensen, Stefanía H. Sigurðardóttir, Sólrún Lilja Ragnarsdóttir og Þórhildur Bjartmarz. Vinnuhópurinn hefur hittst nokkrum sinnum frá því snemma vors til að undirbúa dagskrá. Sumt hefur gengið upp og annað ekki. Í ár verður það ljósmyndakeppnin sem verður mest áberandi. Vinnuhópurinn stendur fyrir kynningu á íslenska fjárhundinum á Árbæjarsafni þann 18. Þá er einnig hafin undirbúningur fyrir Dag íslenska fjárhundsins 2019 og stefnt að því að hafa hann veglegan á 50 ára áfmælisári HRFÍ.
Ágætu velunnarar íslenska fjárhundsins – tökum öll þátt í að gera okkur glaðan dag með íslenska fjárhundinum þann 18. júlí.