Öll í strætó

Jórunn Sörensen:

 

  1. janúar sl. skrifar Heiða Björg Hilmisdóttir stjórnarformaður Strætó pistil í Fréttablaðið með ofangreindri fyrirsögn. Ég orðlengi það ekki að ég er tek undir hvert einasta orð hennar.

Ég geng mikið mér til ánægju og heilsubótar. Mér þykir afar gaman að fara út í náttúruna hér á Höfuðborgarsvæðinu eins og til dæmis á hæðirnar fyrir ofan Rauðavatn. En mér þykir einnig gaman að fara niður í bæ. Ganga þar um garða borgarinnar, rölta um bæinn og njóta þess fjölbreytta mannlífs sem borgin býður upp á. Svo kíki ég kannski á kaffihús og fæ mér hressingu.

Það er of langt fyrir mig, gamla konu, að ganga á þessa staði að heiman en ég get ekki tekið strætó þótt hann stoppi beint fyrir framan heimili mitt. Mér er nefninlega bannað að nota strætó því vinur minn og göngufélagi er fjórfættur. Hann er hundur.

Við Íslendingar eru fremst í flokki þegar kemur að því að tileinka sér nýungar af öllum tagi en þar er eðlileg þróun hundahalds sannarlega ekki meðtalin. Í áratugi var hundahald með öllu bannað í þéttbýli – borgin var þrátt fyrir það auðvitað aldrei hundlaus. Hundahald er nú leyft en með hvílíkum skilyrðum að fjöldi fólks veigrar sér við að gangast undir þau en heldur sinn hund í „óleyfi“. Ég er sérstaklega skattlögð af því að ég valdi að bæta hundi við fjölskylduna.

Ég skora á þig Heiða Björg Hilmisdóttir stjórnarformaður Strætó að sjá til þess að ég og Spói minn, auk annarra hundaeigenda sem vilja nota strætó, fái það. Það er nokkuð ljóst að strætisvagnarnir munu ekki „fyllast af hundum“. Þá ályktun dreg ég af ást okkar Íslendinga á einkabílnum. En örugglega eru það samt einhverjir hundaeigendur – fyrir utan mig – sem vilja mjög gjarnan nota strætó sem „hagkvæmari, umhverfisvænni og jafnvel fljótlegri“ kost en að nota einkabílinn. Svo ég vitni í þín eigin orð.

 

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. janúar 2018