Þau kvöddu í lok árs 2017. Gunnlaugur Skúlason, Jakobína G. Finnbogadóttir og Ágústína Berg störfuðu að málefnum hunda. Hundalífspósturinn birtir hér stutta samantekt um Gunnlaug Skúlason fyrsta formann Hundaræktarfélags Íslands
Gunnlaugur Skúlason fæddist í Bræðratungu í Biskupstungum árið 1933. Hann lést 19. nóvember 2017. Gunnlaugur nam dýralækningar í Þýskalandi á árunum 1957 til 1962. Árið 1963 tók hann við embætti héraðsdýralæknis í Laugarási og starfaði hann við fag sitt í hálfa öld.
Gunnlaugur Skúlason, dýralæknir var formaður Hundaræktarfélags Íslands frá stofnun þess í september árið 1969 og var formaður félagsins til 1978 en þá baðst hann undan endurkjöri.
Markmið Hundaræktarfélags Íslands var í fyrstu að halda utan um ræktun og skráningu íslenska fjárhundakynsins. Á fyrstu árum félagsins var starfsemin ekki mikil en Gunnlaugur lagði fram tillögu strax ári eftir stofnun félagsins að opna félagið fyrir öðrum hundakynjum og hefja skráningu allra hreinræktaðra hunda. Í hans stjórnartíð var fyrsta hundasýningin haldin í Eden í Hveragerði. Sýningin heppnaðist vel og Gunnlaugur kom þá með tillögu um að næsta sýning yrði haldin á Akureyri. Gunnlaugur lagði til að gefnar yrðu út leiðbeiningar um uppeldi og meðferð hunda sem hann taldi áríðandi í baráttunni fyrir betra hundahaldi. Á þeim tíma sem Gunnlaugur gegndi formannsstöðu í Hundaræktarfélaginu var hundahald bannað í Reykjavík.
Hundaræktarfélagið varð aðildafélag að Sambandi dýraverndarfélaga Íslands og tók Gunnlaugur þátt í störfum þess sem fulltrúi HRFÍ. Á árinu 1970 skoraði Hundaræktarfélagið á borgarstjórn Reykjavíkur að aflétta hinu óraunhæfa hundabanni en leyfa í stað þess takmarkað hundahald með þeim ströngu reglum sem Hundavinafélagið og Dýraverndurnarfélag Reykjavíkur beittu sér fyrir.
Gunnlaug Skúlason þekkti ég því miður ekki persónulega en mikið dáist ég að því að hann gaf kost á sér til formennsku á sínum tíma í félagi sem hafði það að leiðarljósi að vernda íslenska fjárhundakynið í heimalandi þess á þeim tíma sem almennt ríkti mikil andstæða við hundahaldi í þéttbýli. Sem félagi og fyrverandi formaður Hundaræktarfélags Íslands þakka ég fyrir starfskrafta Gunnlaugs Skúlasonar Hundaræktarfélagi Íslands til framdráttar.
Þórhildur Bjartmarz
fyrrverandi formaður Hundaræktarfélags Íslands