Hundaæðisdagurinn 2017
27.09.2017 Dýraheilbrigði
Matvælastofnun vill vekja athygli á að 28. september er á alþjóða vettvangi tileinkaður baráttu gegn hundaæði. Hundaæði er sjúkdómur sem veldur dauða fjölda fólks og dýra, þrátt fyrir að mögulegt sé að halda honum í skefjum með bólusetningum hunda. Á Íslandi hefur hundaæði aldrei greinst og mikilvægt er að halda þeirri stöðu. Matvælastofnun hvetur fólk til að vekja athygli vina og ættingja í löndum þar sem hundaæði er landlægt, á mikilvægi bólusetninga.
Um 60 þúsund manns látast af völdum hundaæðis í heiminum á hverju ári, sem er nærri ein manneskja á hverjum 10 mínútum, aðallega börn. Hvar sem við erum í heiminum, getum við öll haft áhrif á að breyta þessu með því að vekja hundaeigendur til vitundar um mikilvægi þess að láta bólusetja hundana sína, þar sem hundaæði er landlægt.
Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunin (OIE), Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) og Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO), settu árið 2015 fram sameiginlega stefnu um varnir gegn hundaæði í heiminum. Markmið verkefnisins er að árið 2030 verði engin dauðsföll meðal fólks í heiminum af völdum hundaæðismits frá hundum og því er í stefnunni lögð áhersla á bólusetningu hunda. Alþjóðastofnanirnar og ýmis ríki hafa veitt fjárhagslegan stuðning til framleiðslu og dreifingar hundaæðibóluefnis.
Hundaæði hefur aldrei greinst á Íslandi og hér eru hundar ekki bólusettir. Aðeins örfá lönd í heiminum geta státað af svo góðri stöðu. Strangar reglur gilda um innflutning hunda hér á landi, m.a. krafa um bólusetningu gegn hundaæði ef hundurinn kemur frá löndum sem ekki eru laus við sjúkdóminn. Jafnframt er þess krafist að fullnægjandi vörn sé staðfest með rannsókn á blóðprufum. Eftir komu til landsins tekur við fjögurra vikna dvöl á einangrunarstöð. Tilgangur þessara reglna er að vernda dýr og menn í landinu gegn sjúkdómsvaldandi örverum og sníkjudýrum sem ekki eru hér fyrir. Mikilvægt er að almenningur sé vakandi fyrir mögulega ólöglegum innflutningi og tilkynni til Matvælastofnunar ef rökstuddur grunur er um slíkt.
Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Alþjóðadýraheilbrigðisstofnunarinnar:
|