Í laugardagsblaði Morgunblaðsins 6.maí er sagt frá listaverkum sem prýða ný úbibú Arionbanka á Smáratorgi. Hér úr úrdráttur úr greininni sem segir frá því hvers vegna fjárhundur var ekki í upprunalega verkinu; íslensk húsdýr og sveitafólk við heyskap.
Helgi Snær Sigurðsson:
Listaverkin „Vorgleði“ eftir Jón Engilberts og „Veggmynd“ Sigurjóns Ólafssonar hafa verið sameinuð á ný í útibúi Arion banka á Smáratorgi Verk sem eiga sér merkilega sögu og voru vísir að listasafni Búnaðarbankans
Tvö stór og merkileg listaverk prýða nú útibú Arion banka á Smáratorgi, verk sem eiga sér forvitnilega sögu sem má rekja aftur til ársins 1948 en þá flutti Búnaðarbankinn (sem síðar varð Arion banki) í eigið húsnæði í Austurstræti 5. Annars vegar er það málverkið „Vorgleði“ eftir Jón Engilberts og hins vegar „Veggmynd“ Sigurjóns Ólafssonar, unnin úr koparvír. Listamennirnir tveir voru fengnir af bankanum til að gera verk sem prýða áttu afgreiðslusal hússins og urðu þessi tvö verk vísir að listasafni bankans og tilheyra nú safni Arion. Þau héngu í sama rými í nær 65 ár, þar til bankinn flutti úr Austurstræti árið 2014 og hafa nú verið sameinuð á ný í Smáraútibúi Arion banka.
Þurftu að breyta verkunum
Veggmynd Sigurjóns sýnir íslensk húsdýr og sveitafólk við heyskap en upphaflega átti fjárhundur að vera í verkinu. Fjárhundurinn þótti hins vegar móðgun við þáverandi forsætisráðherra, Stefán Jóhann Stefánsson, sem á þeim tíma hafði af andstæðingum sínum verið líkt við húsbóndahollan fjárhund bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli, fjárhund að nafni Sloppy Joe. Verkið var án hunds til 1980 en þá gerði Sigurjón nýjan og „öllu meinlausari hund“, eins og því er lýst í fyrrnefndum texta. En hvernig í ósköpunum skyldi þessi tenging hafa orðið til, milli hunds í eigu bandarískra hermanna og þáverandi forsætisráðherra?
„Stebbi Jó“ og Sloppy Joe
Hundurinn var fyrst nefndur í þætti Jónasar Árnasonar, Heyrt og séð, í Ríkisútvarpinu 5. nóvember árið 1947, á ársafmæli Keflavíkursamningsins sem heimilaði bandaríska hemum afnot af Keflavíkurflugvelli. Jónas sagði m.a. í þættinum sögu af hundi sem hann og félagar hans hittu fyrir í heimsókn sinni á völlinn. Hundurinn svaraði ekki köllum þeirra en um leið og bandarískur hermaður flautaði og hrópaði „Sloppy Joe“ brunaði hundurinn af stað. Dró Jónas þá ályktun að hundurinn héti „Sloppy Joe“og eftir að útvarps-þátturinn fór í loftið bjuggu gárungarnir til tengingu milli hundsins og forsætisráðherra, „Stebba Jó“, sem fyrir vikið varð hundur bandaríska hersins, ef svo mætti að orði komast. Saga Jónasar varð því vatn á myllu herstöðvarandstæðinga. Þjóðviljinn fjallaði um hundasöguna í leiðara og Jónas fékk skammir fyrir hana frá útvarpsráði sem meinaði honum að flytja frekari erindi í þættinum, eins og rifjað er upp í Þjóðviljanum í jólablaði árið 1987 en í innslagi sínu fjallaði Jónas um það sem fyrir augu bar þegar hann heimsótti herstöðina.
Sjá: Morgunblaðið 6. maí – Menning bls 46 og 47