Frétt frá MAST hundamítill

Brúni hundamítillinn greinist á ný

20.01.2017 Dýraheilbrigði

Matvælastofnun barst í vikunni tilkynning um að brúni hundamítillinn (Rhipicephalus sanguineus) hafi greinst á hundi sem komið var með á Dýraspítalann í Víðidal. Mítillinn var greindur hjá Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Þessi mítlategund hefur aðeins greinst í örfá skipti hér á landi. Matvælastofnun vill benda hundaeigendum á að vera vakandi fyrir þessari pöddu og hafa samband við dýralækni ef þeir verða varir við hana. Jafnframt er mikilvægt að varast að mítlar berist til landsins með fólki eða farangri.

Matvælastofnun hafði þegar samband við eiganda hundsins sem mítillinn fannst á og kannaði tengsl við önnur gæludýr. Í framhaldinu var haft samband við eigendur þeirra gæludýra. Ekki er ljóst hvernig hundamítillinn hefur borist á þennan hund.

mítill

 

    Brúni hundamítillinn. Ljósmyndir: Karl Skírnisson og Matthías Eydal hjá Tilraunastöð
Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum

Samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingum á Keldum hefur þessi tegund aðeins fundist fimm sinnum áður á hundum hér á landi (1978 – 2010) og þrisvar sinnum á innfluttum hundum í einangrunarstöð. Uppræting hefur tekist í öllum tilvikum og mítillinn því ekki talinn landlægur.

Brúni hundamítillinn er ekki ólíkur skógarmítlinum (Ixodes ricinus) og lundamítlinum (Ceratixodes uriae) í útliti en er frábrugðinn þeim að því leyti að hann getur farið í gegnum öll þroskastig og alið allan sinn aldur innanhúss. Hundamítillinn getur fjölgað sér hratt við hentugar aðstæður, t.d. í hlýju íbúðarhúsnæði. Hann getur komið sér fyrir í sprungum í veggjum og gólfi, bak við lista o.s.frv. og verpt þar eggjum. Lirfur hans nærast helst á blóði úr hundum en geta líka látið sér nægja önnur spendýr, t.d. nagdýr. Fullorðnir hundamítlar nærast helst á blóði úr hundum en geta líka farið á önnur dýr og menn. Að sumri til er orðið nokkuð algengt að vart verði við skógarmítla, og lundamítlar eru landlægir í sjófuglabyggðum, en óvanalegt er að finna mítla á gæludýrum á þessum árstíma nema ef um er að ræða mítla sem geta fjölgað sér innanhúss eins og hundamítillinn.

Erlendis er þekkt að brúni hundamítillinn geti borið smitefnin Ehrlichia canis og Babesia canis sem valda sjúkdómum í hundum en þessi smitefni hafa ekki fundist hér á landi. Jafnframt er vitað að þessi mítill geti borið bakteríuna Rickettsia conorii, sem getur valdið sjúkdómi í fólki og er landlæg í löndum við Miðjarðarhafið (Mediterranean spotted fever) en hefur ekki fundist hér.

Matvælastofnun vill benda hundaeigendum á að vera vel vakandi fyrir þessari óværu og hafa samband við dýralækni ef þeir verða varir við mítla á dýrum sínum eða annars staðar. Samhliða meðhöndlun á hundum sem mítillinn greinist á þarf að ryksuga allt á heimilinu í hólf og gólf, sérstaklega staði sem mítlarnir geta leynst á s.s. í sprungum, undir listum, þröskuldum o.s.frv. Bæli hundsins, teppi, fatnað o.s.frv. þarf að þvo. Bent skal á að mítillinn þolir illa kulda þannig að frysting getur verið ráð í sumum tilvikum. Ef mikill fjöldi mítla er í húsnæðinu gæti þurft að leita til meindýraeyðis.

Það er eins með þessa óværu og ýmis smitefni sem eru algeng erlendis að þau geta borist til landsins með fólki og farangri þess, sér í lagi því sem hefur verið í snertingu við dýr. Fólk er því áminnt um að gæta smitvarna og reyna eins og kostur er að bera ekki smitefni með sér til landsins, t.d. með því að þvo allan fatnað og annað sem hefur verið í snertingu við dýr, hreinsa öll óhreinindi af skóm, þvo þá, þurrka og sótthreinsa.

Ítarefni

Afskrá netfang
Matvælastofnun | mast@mast.is