Hugleiðingar um strætó og sprengjuleitarhunda

Þórhildur Bjartmarz:

„Margir hverjir eru með ofnæmi og sumir hreinlega hræddir við hunda, og það var ekkert tekið á því í þessari nefnd hvernig eigi að bregðast við því. Hvort það eigi að segja þeim upp, eða hvort þeir þurfa að hætta störfum.“

Þetta sagði Jónas Jakobsson, trúnaðarmaður vagnstjóra á höfuðborgarsvæðinu í viðtali við Rúv á dögunum þegar rætt var um hvort leyfa ætti gæludýr í strætó.

Þessi orð um ofnæmi og hræðslu kom upp í huga minn þegar ég átti leið um Kastrup flugvöll sl. föstudag, daginn eftir árás á saklausa borgara í Nice í Frakklandi. Danska lögreglan var með mikinn viðbúnað á flugvellinum og í innritunarsal voru lögreglumenn með vélbyssur, nú allir tilbúnir með vísifingur á gikknum sem var frekar ógnvekjandi.

Þar sem ég stóð og beið innritunar með öðrum farþegum í WOW flugi kom lögreglan með svartan labrador hund í sprengjuleit. Hundinum var sleppt meðal farþega og hann gekk í rólegheitum á milli farþeganna og þefaði. Ósköp eðlilegt að mínu mati en..

Ýmsar skrýtnar hugsanir komu upp í huga minn. Taka mynd – nei það má ekki!  En hvað með þá sem eru hræddir við hunda og eru með ofnæmi hugsaði ég. Í alvöru hvað ef fólk fer að stökkva í loft upp og skrækja að það sé hrætt við hunda. Ég sá fyrir mér að þetta gæti endað með einhverjum allsherjar hryllingi. Allt í tómum misskilningi því einhver íslendingurinn var hræddur við hunda.

En sem betur fer létu farþegarnir þetta yfir sig ganga. Það er þrátt fyrir allt gott að búa í landi þar sem áhyggjur þjóðfélagsins snúast um það hvort það megi fara með gæludýr í strætó en ekki hvort við þurfum vopnaða sérsveitarmenn til að gæta fólks í almenningssamgöngum.

 

„Okkar tilfinning er sú að þetta séu í kringum 95 til 97 prósent vagnstjóra sem vilja þetta ekki,“ segir Jónas.

Það er eitthvað svo krúttlegt við þetta. Jónas lýsir þessu eins og vagnstjórarnir sitji meðal farþeganna og að öllum sé mjög umhugað um líðan þeirra . Það er allskonar fólk sem ferðast um með strætó. Jafnvel fólk sem vagnstjórum og öðrum farþegum getur stafað hætta af en það er eitthvað sem fólk verður að láta yfir sig ganga. Eins og þegar sprengjuleitarhundi er sleppt á meðal farþega. Aðstæður sem við verðum öll að sætta okkur við.

En er ekki hægt að setja á stað námskeið fyrir fólk eins og hræddu vagnstjórana? Kenna þeim að umgangast hunda á jákvæðan hátt. Þeir komast vonandi að þeirri niðurstöðu að hundalíf er jú betra líf.

 

Greinin á ruv.is:

Fullreynt að Íslendingar geti farið að reglum

Ruv 12. júlí sl.

Íslendingum er ekki treystandi til að fara eftir reglum, og því munu vagnstjórar eiga í stöðugu stappi við farþega verði gæludýr leyfð í strætó. Þetta fullyrðir trúnaðarmaður vagnstjóra á höfuðborgarsvæðinu, og segir yfirgnæfandi meirihluta þeirra vera mótfallinn hugmyndinni.

Fjórtán manna starfshópi á vegum Strætó var falið að meta hvort leyfa eigi gæludýr í strætisvögnum á höfuðborgarsvæðinu. Meirihlutinn var því fylgjandi í tilraunaskyni til tólf mánaða, með takmörkunum þó.

Bannað verði að ferðast með dýrin á háannatíma og þau höfð í búri aftast í vagninum. Þá verði stórir hundar að vera í svokölluðu brjóstabeisli með taum, og órólegir hundar með munnkörfu. Sömuleiðis verði rakkar, sem merkja, að vera með svokölluð rakkabindi.

Mikil andstaða gegn hugmyndinni

Fjórir vagnstjórar áttu sæti í áðurnefndum starfshópi. Einn greiddi ekki atkvæði, en þrír voru mótfallnir hugmyndinni. Einn þeirra er Jónas Jakobsson, sem jafnframt er trúnaðarmaður vagnstjóra á höfuðborgarsvæðinu. „Okkar tilfinning er sú að þetta séu í kringum 95 til 97 prósent vagnstjóra sem vilja þetta ekki,“ segir Jónas í samtali við fréttastofu.

„Margir hverjir eru með ofnæmi og sumir hreinlega hræddir við hunda, og það var ekkert tekið á því í þessari nefnd hvernig eigi að bregðast við því. Hvort það eigi að segja þeim upp, eða hvort þeir þurfa að hætta störfum.“

Útfærslan skiptir engu máli, Íslendingar fara ekki eftir reglum

Stjórn Strætó tekur afstöðu til málsins í haust, en Jónas segir að einhverjir vagnstjórar segi upp störfum verði hugmyndin ofan á, og þá skipti engu máli hvernig hún verður útfærð. Fullreynt sé að Íslendingar geti farið að reglum.

„Miðað við okkar reynslu þá erum við ekki að sjá að það breyti neinu miðað við hvernig Íslendingar eru almennt sinnaðir,“ segir Jónas. „Okkar reynsla er sú að þegar kemur að reglum sem settar eru, þá eru menn ekkert að fara eftir þeim. Þetta á ekki við alla, ég tek það fram, en það er meirihluti samt.“

Ríkari hundamenning erlendis en hér á landi

Trúnaðarmaður vagnstjóra segir að þeir muni eiga í stöðugu stappi við farþega með stærri hunda, sem þeir hreinlega nenni ekki að standa í. Þá gefur Jónas lítið fyrir góða reynslu ýmissa nágrannaþjóða af því að leyfa gæludýr í strætisvagna.

„Þar er menningin miklu meiri og sterkari í kringum hundahald, heldur en hefur verið hér á Íslandi. Það er ekkert svo langt síðan að hundahald var leyft á Íslandi, og samfélagsábyrgðin í kringum hundana finnst okkur ekki vera nógu sterk,“ segir Jónas.