Hvað er þetta með Íslendinga og hundahald?

Sem snúbúi (manneskja sem býr erlendis og snýr aftur á klakann) hef ég alltaf haft ákaflega gaman af því að pæla í íslendingum og hvers vegna við erum svona og hinsegin.

Hundalífspósturinn fékk leyfi Margrétar Gústavsdóttur til að birta þessa skemmtilegu grein:

http://pjatt.is/2015/02/12/hvad-er-thetta-med-islendinga-og-hundahald/

Eitt af því sem einkennir til dæmis Íslendinga, og er mjög áberandi, er voðalega neikvætt viðhorf til gæludýra og þá sérstaklega hunda en þetta stafar af því að við erum svo hrikalega ung sem menningarþjóð og svo óskaplega gömul sem sveitavargar í sjálfsþurftabúskap.

Það er að segja, borgarmenning er rétt að komast á gelgjuskeiðið hér á Íslandi og þar sem þorri þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu má segja að við séum flest enn á gelgjunni. Hinsvegar er arfurinn okkar, menningararfurinn, alfarið úr sveitinni og sjávarþorpunum og menningin miðast að mörgu leiti enn við það.

Þetta má berlega sjá á viðhorfi margra borgarbúa til hunda.

Í hugum margra eru til dæmis kjölturakkar einhverjar afbrigðilegar skepnur sem duga ekki til neins enda myndi enginn senda chihuahua hund á eftir hóp af beljum eða kindahjörð. Þetta sprettur úr sveitamenningunnin þar sem hundar höfðu aðeins einn tilgang: Að smala!

Kettir höfðu þann tilgang að veiða mýs en að eiga hund, bara sem vin, var augljóslega einhver framandi geðbilun.

Til að þykjast ekki vera sveitavargar notar fólkið sem svona hugsar allskonar réttlætingar fyrir því að hundar mega ekki koma með eigendum sínum í strætó, á kaffihús, í búðir, Kringluna og bara niður Laugaveginn.

Jú, það gæti einhver verið með OFNÆMI!

Að mörgu leyti minnir þetta á ruglið í Sigmundi Davíð um að útlenskt kjöt sé skelfilega hættulegt.

Eru Íslendingar í alvöru með meira ofnæmi fyrir hundum en flestar aðrar þjóðir Evrópu? Mér þætti mjög gaman að sjá rannsóknir sem sanna það vegna þess að þar sem ég hef flakkað mega hundar yfirleitt vera allstaðar á þessum stöðum.

Ég tók sérstaklega eftir þessu í stórborgunum í Þýskalandi en þar voru hundarnir meira að segja kúrandi undir borðum á fínustu veitingastöðum, – og einu sinni sá ég hund í bíó í París.

Í flestum borgum vesturlanda er hundamenningin svo mikil að það er meira að segja heil starfsstétt sem sérhæfir sig í að fara út að ganga með hunda… og það er bara brotabrot.

Ég hef meira að segja hitt amerískt par sem var með hundinn aðrahvora helgi eftir skilnað. Og allt staðfest á þar tilgerðum pappírum.

Að þessu sögðu mættu Íslendingar auðvitað vanda sig betur við uppeldi hunda sinna.

Í þessum stóru borgum þarna úti sér maður mjög oft fólk á gangi og hundarnir ekki einu sinni í bandi. Bara vappandi rólegir við hlið eigenda sinna sem augljóslega kunna að ala þá upp.

Að mati sumra eru þessi tvö bara tilgangslausir vitleysingar. „Little do they know“ – Þetta eru dásamlegar týpur.

Annars erum við svo fáránlega meðvirk að það er kannski ekki skrítið að okkur gangi illa að ala upp hundana okkar:

„Já, nei hann vill bara sofa í sófanum. Sjáðu hvað hann er sætur! Ég get ekki sagt honum að faraaaa.“

Kjölturakkar, forsetar og kóngafólk hafa alltaf átt samleið. They go wayyy back.

Í flestum löndum Evrópu er löng og mjög djúp hefð fyrir hundahaldi og hundurinn sem besti vinur mannsins er jafn viðurkennt fyrirbæri og að smjör er gott með brauði og rauðvín með osti.

Kjölturakkar tilheyrðu yfirstéttinni, sem ekki þurfti að senda þessa yndislegu vini okkar á spretti eftir kindum eða kúm, og margar tegundir þeirra bera einmitt… nokkuð virðuleg og frekar ‘royal’ nöfn.

Mér þætti gaman að sjá okkar krúttlegu þjóð taka smá þroskakipp á þessu sviði og drífa í því að taka hunda bara fullkomlega í sátt.

Leyfa þeim að vera með. Taka strætó. Tjilla á Klambratúni.

Hundar eru algjörlega frábær dýr og þú ert að missa af miklu með því að líta bara á þá sem einhverja „mansals-verkamenn“ sem vinna fyrir matnum sínum með því að hendast á eftir kindum. Ég meina. Átt þú kind?

Hundar eru vinir og verðir, þeir eru blíðir, standa með þér í gegnum allt og elska þig alltaf eins og þú ert. Í raun sjá þeir bara ekki sólina fyrir þér. Þú finnur hvergi aðra eins ást og tryggð.

Ég segi bara eins og hinn ofur andlegi Eckhart Tolle.

„Make me the person my dog thinks I am.

 

Margrét H. Gústavsdóttir gerði fyrsta vefinn sinn árið 1996 og bloggaði fyrst árið 2002. Hún hefur starfað við blaðamennsku, auglýsingagerð, markaðsmál, ritstjórn, skífuþeytingar, útvarp og fleira tengt fjölmiðlum frá því hún var tvítug en netið hefur alltaf verið hennar uppáhald. Margrét bjó í nokkur ár í London, L.A og Köben en býr nú hér í borg óttans.