Mosfellsbær svarar fyrirspurn FÁH

Mosfellsbær svarar fyirspurn

http://www.fah.is

sunnudagur, 10. apríl 2016 – 18:15

Hér kemur svar frá Mosfellsbæ við fyrirspurn Félags ábyrgra hundaeigenda og þökkum við Hafdísi hundaeftirlitsmanni kærlega fyrir.

 1. Hvar eru óskilahundar geymdir? Óskilahundar sem teknir eru í Mosfellsbæ, fara á hundahótelið að Leirum.
 2. Hvað er gert til þess að reyna að hafa uppi á eiganda hunds sem finnst innan bæjarmarka? Ef að hundaeftirlitsmaður í Mosfellsbæ er beðinn um að taka hund vegna lausagöngu, er það langoftast vegna þess að sá sem finnur hundinn hefur reynt að hafa uppá eigandanum, finnur ekki útúr því hver sé eigandinn og að hundurinn er ekki merktur. Þá hringir viðkomandi í hundaeftirlitið og þá er farið með hundinn á Leirur. Þar er hann örmerkjaleitaður. Finnist ekki örmerki á honum er ekkert í raun hægt að gera nema að bíða þess að e-r vitji hans. Ef hinsvegar eigandinn finnst í örmerkjaleitun, þá er hringt í hann og honum tjáð hvar hundurinn er niðurkominn.
 3. Er einhver munur á verklagi varðandi hunda sem eru örmerktir og þeirra sem ekki eru það? Nei, ekki nema að þá er hægt að hringja í eigandann og upplýsa hann hvar hundurinn er strax þegar hundur er fangaður.
 4. Hvert er dagsgjald hjá þeim vörsluaðila sem hýsir óskilahunda fyrir bæinn? Það er 2.900 krónur með öllu, á Leirum.
 5. Er hundaeftirlit Mosfellsbæjar með upplýsingasíðu, eins og t.d. á Facebook, þar sem hægt er að sjá tilkynningar um týnda og fundna hunda? Hundaeftirlitið í Mosfellsbæ er með gsm. Í það er alltaf hægt að hringja hvenær sem er sólarhringsins. Hundaeftirlitið vinnur náið með bakvaktinni sem er einskonar neyðarvakt fyrir Mosfellsbæ, eftir að Þjónustustöðin/Áhaldahúsið lokar, semsagt eftir kl. 16.10 – 8.00 á virkum dögum og svo um allar helgar. Þannig eru í raun 2 aðilar sem vinna saman og mjög oft þegar að hundur er týndur kemst hann heim, án þess að fara á hundahótel, af því að þessir aðilar vinna saman. Fólk er duglegt að hringja í hundaeftirlitið eða senda sms. Það er líka mun betra að spyrjast fyrir því annars gæti hundurinn verið kominn á hundahótel. Einnig er fb. síða sem heitir „týnt í Mosó“ og fólk er duglegt við að nota hana líka.
 6. Í hversu mörg útköll fara hundaeftirlitsmenn að meðaltali á dag? Það er mjög misjafnt ef verið er að tala um útkall vegna lausagöngu hunda. Kvartanir vegna hunda eru af ýmsum toga eru þær miklu fleiri en útköll vegna lausagöngu.
 7. Hverjar eru hæfniskröfur sem gerðar eru til hundaeftirlitsmanna? Góð spurning! Ég þekki ekki hæfniskröfur sem settar eru hjá öðrum sveitarfélögum. Ætli þetta sé ekki persónulegt mat hvers sveitarfélags fyrir sig. Ég er hundaeigandi og hef verið í 14 ár. Mér fellur vel að umgangast hunda og þekki nokkuð vel inná atferli þeirra. Svo er ég hundavinur og ber virðingu fyrir dýrum og velferð þeirra almennt.
 8. Hvernig eru samskiptum lögreglu og hundaeftirlits háttað þegar kemur að óskilahundum, sérstaklega ef óskilahundur er gripinn utan opnunartíma hundaeftirlitsins? Lögreglan hefur þá samband við Bakvakt Þjónuststöðvarinnar/ Áhaldahúsið. Bakvaktin vinnur allar helgar, öll kvöld og nætur ef svo ber undir.
 9. Þegar hundur er fjarlægður af heimili er þá beðið um heimild til þess fyrir dómstólum? Ef fjarlægja þarf hund af heimili er það gert bæði í samvinnu við lögreglu og heilbrigðiseftirlit.
 10. Hversu margar kvartanir (sundurliðað eftir umkvörtunarefni) berast á hverju ári til hundaeftirlitsins? Kvartanir og ábendingar vegna hunda voru 83 talsins 2015.
 11. Hvernig eru verkferlar hjá hundaeftirlitinu þegar hundur glefsar eða bítur fólk? a) Hundaeftirlitið móttekur kvörtun um bit og skráir. b) Fer með tilkynningu um bit til eiganda hundsins boðleiðis. Rannsakar málið hjá hundaeiganda og krefst þess að hundurinn noti munnkörfu utandyra og að hann sé skráður sé hann það ekki nú þegar. c) Heimsækir þolanda og rannsakar málið og kynnir fyrir honum réttindi. d) Lætur Heilbrigðiseftirlitið vita um málsatvik. e) Formlegt bréf sent frá Heilbrigðiseftirlitinu boðsent af hundaeftirlitinu til eiganda hunds. Farið yfir málavöxtu og óskar eftir svari um réttindi til að láta meta hundinn af hundaatferlisfræðingi áður en ákvörðun er tekin um aflífun. Undir vissum kringumstæðum er aflífun fyrsti kostur af hálfu eigandans, ef ekki þá er boðið uppá atferlismat. Heilbrigðiseftirlit og hundaeftirlit velja þann sem metur hundinn til að hlutleysis sé gætt. f) Fái hundur falleinkunn í atferlismati eða að eigandinn kýs strax að láta aflífa hann fer annaðhvort hundaeftirlitið eða eigandi með hundinn í aflífun hjá dýralækni. Dýralæknir sendir síðan vottorð til Heilbrigðiseftirlits um aflífun. g) Máli lýkur.
 12. Ef hundaeftirlitsmaður kemur auga á lausan hund, hvað gerir hann þá ? En ef eigandi er nálægt, er brugðist öðruvísi við þá? Ef hundur er í lausagöngu, enginn nálægt honum sem ber ábyrgð á honum og vel að merkja, ef engin tilkynning borist um týndan hund til Þjónustustöðvar eða til hundaeftirlits Mosfellsbæjar, þá fer hundurinn á hundahótelið að Leirum. Ef eigandi er hinsvegar sjáanlegur er hann beðinn um að setja hundinn í taum, þar sem hundar eiga aldrei að ganga lausir á almannafæri, heldur vera í taumi og og í fylgd með aðila sem hefur fullt vald yfir honum, sbr. Samþykkt Mosfellsbæjar um hundahald.
 13. Hversu lengi eru óskilahundar geymdir áður en þeim er lógað? Í eina viku.
 14. Er haft samband við félög eins og Dýrahjálp áður en hundi er lógað? Já að sjálfsögðu er alltaf reynt að koma óskila hundum fyrir hjá góðum aðilum
 15. Hversu mörgum hundum hefur verið lógað frá árinu tvö þúsund? Frá því ég hóf störf hjá hundaeftirlitinu árið 2007, þá hefur 6 hundum verið lógað til ársins 2016. Frá árinu 2000 – 2007 voru það 2-4 (ekki alveg staðfest). Það eru 8 – 10 hundar síðastliðin 16 ár.
 16. Er boðið upp á að skrá hunda rafrænt? Nei, af því að það þarf að taka við greiðslu/peningum (skilst mér). – Kominn tími til að breyta þessu.
 17. Ber hundaeiganda alltaf að vera með merki frá hundaeftirlitinu á skráðum hundi? Hver eru viðurlögin við því að setja ekki merki á skráðan hund? Nei ekki skylda að bera merkið, bara hægðarauki fyrir alla. Engin viðurlög má alveg vera annarskonar merki (bara ef hundurinn er merktur eiganda og með gild símanúmer á skildinum sínum).
 18. Er aðeins hægt að ná í hundaeftirlitsmenn á auglýstum símatíma? Nei ekki í Mosfellsbæ. Alltaf hægt að hringja og tilkynna týndan hund eða fundinn Mér finnst mjög mikilvægt að aðstoða fólk í að finna hundinn sinn eða koma týndum hundi til skila. Þessvegna brýni ég það mjög fyrir fólki að hringja sé hundurinn týndur. Ef aftur á móti enginn hringir í mig þá verð ég að fara með hundinn á hundahótelið. Einu sinni lenti ég í því að það var hringt í bakvaktarsímann um helgi (ég var þá á bakvakt fyrir Þjónustustöðina) og mér tjáð að tveir hundar væru að skottast saman við matvöruverslun í Mosfellsbænum. Enginn var með þeim og þeir án eftirlits.Þeir hefðu skv. því báðir átt að fara á hundahótel. En áður en símtalinu lauk var hringt í síma hundaeftirlitsins og kona í símanum miður sín að tilkynna að hún hefði misst tvo hunda út úr húsi. Ég gat þá þarna miðlað málum, sagt henni nákvæmlega hvar hundarnir voru sem var bara rétt hjá heimili hennar og fór hún strax að ná í þá. Mér ber ekki skylda að svara í símann utan vinnutíma en það er oft svo mikið í húfi fyrir eiganda og hundinn, eins og t.d. þarna Ef ég fæ t.a.m. sms um að aðili sé búinn að týna hundi, þá hringi ég í bakvakt og læt hana vita að það sé verið að leita að tilteknum hundi. Þá er bakvaktin með þær upplýsingar hjá sér og hafi einhver samband við bakvaktina vegna fundins, ómerkts hunds þá veit bakvaktin um tiltekinn hund og hann kemst heim án frekari kostnaðar.
 19. Hversu margar fyrirspurnir fékk hundaeftirlitið á síðasta ári? Hef það ekki sundurliðað. En þegar kvartanir berast er oft spurt um reglur og hundahald í leiðinni.
 20. Samkvæmt vefsíðu Hundasamfélagsins þá týndust 195 hundar í desember 2015 og janúar 2016. Hversu margar tilkynningar um týnda hunda bárust hundaeftirlitinu á þessum tíma? Innan við 10 á þessum tveimur mánuðum.

Með kveðju,

Hafdís Óskarsdóttir
Hundaeftirlitsmaður