Prófsteinn á smalastrák

Þórhildur Bjartmarz:

Það má ýmislegt lesa úr stuttri frásögn. Eins og fram kemur í fyrirlestrum mínum „hundalíf í sögu þjóðar“ þá hafa margir hundar verið á hverjum bæ. Í þessari frásögn segir; Flestum tókst að hæna að sér einhvern hundinn á bænum….

Úr bókinni Göngur og réttir útg.1953 skrifar Kolbeinn Guðmundsson m.a.:

Það fyrsta, er fólkið hafði sem prófstein á smalastrák, sem kom ókunnugur í sveit, var, hvort honum tókst fljótt eða seint að hæna að sér hund, svo að hann fylgdi honum í hjásetunni. Fyrstu dagana höfðu þeir hundinn vanalega í bandi og teymdu hann með sér, en þá gat nú hundurinn ekki gert annað gagn en ef hann fékkst til að gelta. En það var lítið af því gagni, sem góður fjárhundur gat gert, því að þeir þekktu heimilsærnar frá öðru fé og ráku það frá, þegar þess þurfti, og þeir vissu, hvar átti að vera með ærnar og hvað tíma leið og m.fl.

Flestum tókst að hæna að sér einhvern hundinn á bænum von bráðar. Enda var það nauðsyn, þá léttist starfið og leiðindin hurfu, þegar hundurinn og smalastrákurinn voru orðnir félagar og vinir. Ég hefi talað við marga smaladrengi, eftir að þeir voru orðnir fulltíða menn, og flestir hafa þá sögu að segja, að þeim hafi leiðzt fyrstu dagana, en það hvarf frá þeim furðu fljótt og þeir fóru að hafa ánægju af starfinu.

 

smali_gamlar_myndir