Þorsteinn Thorsteinsson:
Hundaræktandinn og dómarinn Jean Lanning með Clausentum ræktun í Bretlandi
Jean Lanning er félögum í HRFÍ að góðu kunn en þessi breski hundaræktandi og dómari hefur dæmt á sýningum HRFÍ, nú síðast á afmælissýningunum 2009 og aftur árið 2010 en hún dæmdi hér sömuleiðis árið 1973, á allra fyrstu hundasýningunni sem haldin var á Íslandi. Þá ræktaði hún íslenska fjárhundinn um tíma í Bretlandi, á upphafsárum skipulagðar ræktunar kynsins á Íslandi.
Jean Lanning fékk á huga á hundum og hundarækt strax á unga aldri en móðir hennar hóf ræktun á great dane undir ræktunarnafninu Clausentum þegar árið 1944 og ræktaði Jean einnig undir því nafni. Clausentum varð áhrifamikil ræktun á great dane, bæði í Bretlandi og öðrum löndum og Jean hefur skrifað þrjár bækur um tegundina.
Næsta borg við heimili Jean er Southampton en þar gekk hún í skóla. Ræktunarnafnið hennar á einnig uppruna sinn þar en Clausentum er fornt rómverskt heiti á höfninni í Southampton. Clausentum ræktun sérhæfði sig í great dane en þær héldu einnig aðrar tegundir. „Við ræktuðum einnig mjög góða dalmatian og margir þeirra urðu meistarar. Móðir mín átti einnig mjög góða toy poodle og með árunum var einnig beagles, English cocker spaniel og English springer spaniel bætt við hópinn. Engin þessara tegunda var þó ræktuð í miklum mæli en einungis bestu blóðlínur hvers tíma notaðar við ræktunina“.
Aðspurð um hennar áherslur í ræktun lagði Jean áherslu á að allir ræktendur, óháð tegund, VERÐI að gjörþekkja ræktunarmarkmiðið, annars sé enginn tilgangur með hundarækt og hundasýningum. „Það er hins vegar mjög mikilvægt að rækta einungis frá hundum með GOTT GEÐSLAG sem jafnframt eru HEILBRIGÐIR. Ekki ætti að rækta frá taugaveikluðum hundum eða hundum með slæmt skap eða heilbrigðisvandamál“. Að mati Jean ætti markmið sérhvers ræktanda að vera að bæta sig, að næsti meistari verði betri en sá fyrri. „Þegar þú nærð árangri í því að búa til góð sýningardýr er hægt að hefja línuræktun og byggja upp ættlegg (FJÖLSKYLDUSVIP) sem aðrir ræktendur á alþjóðlegum vettvangi munu bera kennsl á sem þína ræktun. ÞAÐ GETUR HINSVEGAR TEKIÐ MÖRG ÁR AÐ NÁ ÞESSUM ÁRANGRI“.
Að mati Jean skiptir tegunargerð (e. type), skap og heilbrigði ávallt gríðarlegu máli en hún leggur áherslu á að ræktendur blindist ekki af vísindum. „Ræktun bústofna hefur fylgt mannkyninu í þúsundir ára, allt frá því menn bjuggu í hellum. Íslendingar eru frábærir ræktendur bústofna, horfið bara á hestana ykkar, kýrnar, sauðféð o.s.frv. Þið hafið ekki flutt inn nýtt blóð í þúsund ár, ræktun bústofna er ykkur í blóð borin, rétt eins og Bretum. Þið munið ávallt eiga góð dýr“.
Ég spurði Jean hvort hún vildi nefna einhverja sérstaka hunda sem hafa haft sérstaklega mikil áhrif á hennar ræktun en þar nefndi hún fyrst great dane hundinn EngCh Fergus of Clausentum sem fæddist seint á sjöunda áratugnum. „Faðir hans var sigursælasti Ameríski meistari þess tíma. Við ræktuðum síðan nokkuð þétt inn á þessa línu og fengum fjölda meistara. Mikilvægast er þó að Fergus hafði mikil áhrif og enn þann dag í dag er hann á bak við flesta fawn og brindle great danes í Bretlandi og víða um heiminn“.
Sem ráð fyrir hundaræktendur og nýja einstaklinga í þessu sporti okkar hvetur hún alla til að skoða bestu hundana í þeim tegundum sem ætlunin er að eiga. „Komið á Crufts, bestu hundasýningu í heimi sem haldin er í Birmingham í mars á hverju ári. Lesið allar þær bækur sem þið komið hönd á og talið við alla sem rækta og hafa gaman af hundum (óháð tegund). Með tilkomu internetsins hefur aldrei fyrr verið betra að tala við frábæra ræktendur út um heiminn og skoða myndir af hundunum þeirra“.
Þegar Jean var spurð út í þróun tegundanna sinna undanfarin ár sagði hún ræktendur í Bretlandi stunda ræktunina af heilum hug og einungis vilja það besta fyrir hundana sína. „Þeir eyða miklum tíma og peningum í að sýna hundana sína fyrir allra augum um all landið. Vandamálið sem við höfum hinsvegar í þessu landi eru HVOLPAFRAMLEIÐENDUR sem framleiða hvolpa í stórum stíl og oft fá þeir slæmt uppeldi og eru ekki umhverfisþjálfaðir. Þessir framleiðendur munu aldrei verða taldir á meðal vel liðinna ræktenda enda gera þeir öllum hundum mikinn óleik. Í mörg ár höfum við reynt að setja lög gegn HVOLPAFRAMLEIÐSLU en höfum ekki enn náð algjörum árangri“.
Jean hætti að mestu ræktun fyrir um 15 árum og býr núna í litlu húsi í þorpi og ræktar af og til got af chihuahua. „Ég ræktaði frægan litlan chihuahua sem heitir IntCh Clausentum Alfred Bramerita. Hann býr í Tékklandi og er stórmeistari og með næstum alla erlenda meistaratitla“. Hún nefndi að flestir fóðra hunda sína í dag á tilbúnum hundamat en sú var ekki alltaf raunin. „Hundarnir okkar voru aldir á fersku kjöti og hágæða hundakexi og voru langlífir og heilbrigðir. Í dag deyja margir hundar hinsvegar ungir en ÁSTÆÐAN hefur þó ekki fundist“.Jean er hógvær varðandi sína ræktun og þegar hún er spurð hvernig hún voni að fólk muni minnast hennar sem hundaræktanda segir hún að við verðum bara að bíða og sjá! „Ég er einungis ein af mörgum sem hefur jafnframt verið dálítið heppin“.
Þar sem Jean er dómari á allar hundategundir og hefur dæmt um allan heim var viðeigandi að biðja hana um ráð fyrir íslenska dómaranema. „Það er aldrei hægt að læra of mikið. Ef þið fáið tækifæri til að rækta, ala upp og sýna hágæða hunda verðið þið (með tímanum) góðir dómarar. Sumir hafa auga fyrir hundum á meðan aðrir ná því aldrei. Við munum alltaf hafa einhverja vanhæfa dómara. Ég held hinsvegar að fáir dómarar séu óheiðarlegir. Sumt fólk reynir að verða dómarar of fljótt en ekkert kemur í stað reynslu. Sumir halda að þeir viti allt á 18 mánuðum!? Mitt ráð til ALLS UNGS fólks er að ferðast um heiminn. Prófið að vinna fyrir fræga Breska og Ameríska ræktendur í ár en betri þjálfun fæst ekki. Komið síðan aftur með til Íslands með það sem þið hafið lært varðandi undirbúning sýningarhunda og að sýna þá í sýningarhring“. Jean hefur verið dómari lengi en það sem hefur að hennar mati breyst mest á þeim tíma er hve FCI hefur vaxið en hún hefur verið samþykkt sem alþjóðlegur dómari af samtökunum allan sinn dómaraferil.
Fyrsta hundasýningin hér á landi var haldin á vegum Hundaræktarfélags Íslands í Eden í Hveragerði í ágúst 1973 en taka skal fram að þetta var óformleg sýning og engin meistarastig í boði. Dómari þessarar sýningar var engin önnur en Jean Lanning en að hennar mati er árangurinn síðan undraverður. „Ef ég man rétt þá var sýningin haldin í stórri glerbyggingu. Ég var send til Íslands í boði hins háttvirta MARK WATSON, serviturs og auðugs Englendings sem dáði Ísland og ÍSLENSKA FJÁRHUNDINN og ég held að landið ykkar hafi veitt honum FÁLKAORÐUNA“.
Jean starfrækti annasamt hundahótel og þar kynntist hún fyrst íslenska fjárhundinum. „Stundum dvaldi ljúf lítil gælutík sem hét Kim hjá okkur. Ég held það hafi verið á sjötta eða sjöunda áratugnum, en fína nafnið hennar var HREFNA OF WENSUM. Fjölskyldan varð að láta hana frá sér og við tókum hana að okkur. Þetta var indæll hundur og okkur þótti vænt um hana. Hún var sigursæl á MEISTARASTIGSSÝNINGUM í fjölbreyttum Y-flokki, þ.e. óskilgreindum flokki“.
„Mark Watson kom til okkar dag einn en hann var þá nýkominn frá Íslandi og hafði áhyggjur af því að tegundin myndi deyja út í landinu ykkar. Á þeim tíma ræktaði Sigríður Pétursdóttir kynið á bóndabænum sínum en þurfti á nýju blóði að halda. Mark bað okkur að rækta frá Kim og annari tík sem bjó í Southampton. Báðar þessar paranir voru mjög skyldleikaræktaðar en Mark gat þá loks gefið Sigríði tvo hvolpa. Hann keypti einnig par af henni sem hann gaf mér. Við ræktuðum tegundina áfram um tíma en ég var ekki nægjanlega ánægð með mjúka feldinn sem nýju hundarnir frá Íslandi komu með. Hundarnir frá Mark Watson höfðu grófari feld sem ég kaus heldur. Ég veit hinsvegar að ræktunarmarkmið íslenska hundsins leyfir tvær feldgerðir. Þegar ég hef dæmt þá á Íslandi var ég mjög ánægð með ræktunarmarkmiðið. Tegundin á mikið að þakka MARK WATSON og Sigríði Pétursdóttur“.
Hún heldur áfram að skrifa um Watson og íslenska fjárhundinn: „Mér skilst að hann hafi farið með fyrstu hundana sína til Kaliforníu en þegar hann snéri aftur til Englands hafði stofninn minnkað nokkuð þar sem hann missti marga hunda af völdum vírus sem kallaðist þá HARD PAD. Hann missti að lokum áhuga á hundarækt of flutti til London þar sem hann átti FÍNA ANTÍKBÚÐ á Old Brompton Road. Ég sagði að hann hafi verið servitur ENSKUR aðalsmaður, ég held hann hafi verið sonur einhvers ættgöfugs lávarðar“.
Jean upplýsir að aðrir hafi ekki ræktað íslenska fjárhundinn í Bretlandi og kynið hafi því miður dáið út þar. Ástæðurnar hafi bæði verið ónógur áhugi og lítill ræktunarstofn. „Við ræktuðum fallega tík (hún sést á mörgum póstkortum í dag) sem bjó hjá góðri fjölskyldu í Guildford. Þau ætluðu að rækta frá henni en því miður þá dó hún í umferðarslysi. Kannski einhver muni flytja þá [íslenska fjárhundinn] til Englands, það væri indælt ef það myndi gerast“.
Þessi grein var birt árið 2011 í Sámi. Hundalífspósturinn þakkar Þorsteini Þorsteinssyni, dómara og ræktanda fyrir leyfi til að birta þessa fróðlegu grein bæði á ensku og íslensku