Kona og hundur í kumli

Þórhildur Bjartmarz:

Fornleifafræðingar hafa fundið hundsbein í uppgreftri á Skriðuklaustri, Hrísheimum, Keldudal svo að einhverjir staðir séu nefndir. En hversu algengt er að hundsbein finnast í kumlum hér á landi? Dr. Kristján Eldjárn gerði ýtarlega grein fyrir beinafundum í bók sinni árið 1956. Það vakti sérstaka athygli mína við lestur bókarinnar að í aðeins einu tilfelli var hundur heygður með konu svo að öruggt sé. En á öllu norræna menningarsvæðinu hefur ekki fundist greinalegt konukuml með hundsbeinum þ.e.a.s til ársins 1956. Þetta vekur upp ýmsar spurningar t.d. áttu karlar hundana og voru hundar stöðutákn þeirra. Átti fyrirfólk hér á landi verðmæta hunda. Það væri spennandi að vita meira t.d. í þeim kumlum sem hafa fundist undanfarin ár. Hafa fornleifafræðingar fundið bein kvenna og hundsbein eða jafnvel konu, hund og hest saman í kumli?

Bókin Kuml og haugfé í heiðnum sið á Íslandi eftir dr. Kristján Eldjárn kom fyrst út árið 1956. Ritinu var ætlað að vera jöfnum höndum heimildarrit  fyrir fornleifafræðinga og fróðleikur fyrir almenning. Kuml og haugfé geymir yfirlit um alla kumlfundi frá heiðni á Íslandi til þess tíma er bókin kom út. Skýrt er frá elstu merkjum mannabyggðar og síðan eru allir fundir raktir í hverri sýslunni á fætur annarri. Gert er grein fyrir 123 greftrunarstöðum úr heiðni.

Um hundsbein í kumlum stendur á bls 249-50: (undant. númer kumla er ekki með í mínum texta)

  Í 19 íslenzkum kumlum hafa fundizt hundsbein. Stundum eru það þó aðeins lítilfjörlegar leifar, sem getið er í skýrslunum, t.d. í Brúarfundinum aðeins ein tönn. Hér er þó fylgt þeirri reglu að telja hund hafa verið í kumli, sem hundsbein finnast í.

Af þessum 19 kumlum hafa jafnframt fundist hross í 13. Um legu hundanna í kumlunum er fátt eitt að segja. Helzt virðist hafa verið venja, að hundurinn lægi til fóta manninum eins og hesturinn. Dæmi þessa eru kuml á Hafurbjarnarstöðum og á Dalvík. Í Dalvíkurkumli á hundurinn að hafa verið „mellem benene“ á manninum og Gautlandakumlinu undir knjám hans. Þetta orðarlag stafar af því, að í báðum þessum kumlum hugðu menn líkið hafa setið. Má vel vera, að hundinum hafi verið komið fyrir við kné húsbónda síns, líkt og hann léti vel að honum.

 Á Kornsá höfðu hestur og hundur verið heygðir saman í sérstöku kumli. Konan sem heygð var í Kornsárkumlinu, er eina konan, sem víst er, að hafi fengið hund með sér. Af kumlunum 19, sem hundar hafa fundizt í, eru að minnsta kosti 6 örugg karlakuml. Hin verða að liggja milli hluta.

Á öllu norræna menningarsvæðinu tíðkaðist á víkingaöld að láta hunda í kuml manna. Í Danmörku hafa hundsbein fundizt í 8 víkingaldarkumlum, þar af 6 karlakumlum og tveimur óskilgreinanlegum, en engu öruggu konukumli. Í Svíþjóð þekktist þessi siður einnig. Í Noregi er algengt, að hundar finnist í kumlum, bæði beinakumlum og brunakumlum. Hvergi hef ég getað séð, hvernig hlutfallið er milli karla og kvenna um hundaeign í Noregi og Svíþjóð.

Það er ljóst, að Íslendingar hafa um þetta atriði fylgt sið, sem allar Norðurlandaþjóðir fylgdu, en aðrar ályktanir verða hér ekki dregnar. Vert er að vekja athygli á, að á Íslandi hefur einkum verið algengt að heygja hunda með mönnum ef þeim var einnig ætlaður reiðskjóti. Hestur og hundur eru algeng samstæða.

 Endurskrif úr bók Kristjáns Eldjárns lýkur hér.

download  mynd af Visindavefnum

Hér má sjá drög að skýrslu um greiningu dýrabeina frá Skriðuklaustri eftir Albínu Huldu Pálsdóttur
dýrabeinafornleifafræðing:

http://www.vinirvatnajokuls.is/media/2690/fylgiskjal-1.pd

Viðtal við dr. Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðing um uppgröftin á Skriðuklaustri:

http://www.frettatiminn.is/eg-man-eftir-hverri-einustu-beinagrind

 

Þórarinn Eldjárn í bókinni Grannmeti og átvextir:

Kuml og haugfé

Undir mold og steinum er fornmaður falinn
sem fyrstur af öllum kom hingað í dalinn.
Í gröfina fór hann með hestinn sem haugfé
og hund og sverð og ýmislegt draugfé.