mbl.is: Forseti Rússlands, Vladimir Pútín, ætlaði ekki að hræða Angelu Merkel, kanslara Þýskalands þegar hann kynnti hana fyrir Labrador tík sinni árið 2007. Pútín útskýrði sína hlið í samtali við þýska dagblaðið Bild á dögunum.
Samkvæmt frétt CNN réðst hundur á Merkel árið 1995 og hefur hún verið hrædd við hunda síðan. Myndir sem teknar voru af Merkel og tíkinni Konni vöktu athygli á sínum tíma þar sem má sjá hvernig Merkel líður óþægilega í návist dýrsins á meðan Pútín brosir. Konni var kynnt fyrir Merkel í sumarhúsi forsetans í Sochi í Rússlandi í janúar 2007.
„Ég vildi bara vera vinalegur,“ sagði Pútín aðspurður út í atvikið í viðtalinu við Bild sem birtist í blaðinu á mánudaginn. „Þegar ég komst að því að hún væri ekki hrifin af hundum baðst ég strax afsökunar.“
Sagt var frá atvikinu í grein um Merkel í The New Yorker árið 2014. Þá var vitnað í Merkel sem á að hafa sagt blaðamönnum seinna að hún hafi skilið af hverju Pútín kom með hundinn.
„Ég skil af hverju hann þurfti að gera þetta, til að sanna að hann væri karlmaður. Hann óttast sína eigin veikleika. Rússland á ekkert, hvorki farsæl stjórnmál né árangursríkan efnahag. Allt sem þeir hafa er þetta,“ á Merkel að hafa sagt.
Í viðtali Bild við Pútín hrósar forsetinn Merkel. Hann neitar þó fyrir að hafa einhvern tímann sagst hafa dáðst að henni. „Ég sagði það aldrei. Ég kann að meta hana því hún er mjög fagmannleg og opinská,“ sagði hann.
Pútín bætti við að þrátt fyrir spennu milli Rússlands og Vesturveldanna, deila báðar hliðar því markmiði að berjast við íslamska hryðjuverkamenn.
„Við þurfum miklu meiri alþjóðlega samstöðu í baráttunni við hryðjuverk, sem er stór áskorun,“ sagði Pútín. „Þó við séum ekki alltaf sammála um allt, ætti enginn að taka því sem afsökun til að segja okkur vera óvini.“
Tíkin Konni lést árið 2014, þá fimmtán ára gömul. Pútín tók hana með sér til að hitta fjölmarga þjóðarleiðtoga og lifði hún eflaust ævintýralegu lífi. Hægt er að fræðast um tíkina á http://www.mbl.is/frettir/erlent/2016/01/14/aetladi_ekki_ad_hraeda_merkel Tony Blair hittir Konni