Valgerður Stefánsdóttir, forstöðumaður Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra svarar spurningum Hundalífspóstsins:
- Hvað heitir hundurinn þinn/hundarnir þínir/teg og aldur?
- Af hverju valdir þú þetta kyn?
- Hversu lengi hefur þú átt hund/hunda?
- Hvernig lýsir þú samskiptum þínum/fjölskyldunnar og hundsins?
- Er lífið betra með hundum?
Ég á tvær schnauzertíkur sem heita Dilla og Fóa. Dilla er níu ára og er amma Fóu, sem er eins árs. Ég hef átt schnauzerhunda í 10 ár. Fyrsti schnauzerinn minn var Rúfus en hann þurfti ég að láta fella vegna veikinda. Rúfus var það sem við í minni fjölskyldu köllum „töffara og góðan gæja“ og er hans sárt saknað.
Ég átti hund þegar ég var unglingur og var lengi búin að láta mig dreyma um að fá mér annan hund eftir að ég var komin í eigið húsnæði og hafði aðstæður til. Ég og dóttir mín höfðum það eiginlega fyrir tómstundagaman að skoða hundabækur og hundaauglýsingar. Stundum fórum við líka og skoðuðum bæði hvolpa og hunda sem vantaði ný heimili. Á þessu tímabili passaði ég líka hunda í lengri eða skemmri tíma. Þá kom í ljós að ég hafði ofnæmi fyrir einhverjum tegundum þannig að leitin fór að beinast að hundum sem vektu síður ofnæmisviðbrögð. Mig langaði ekki í smáhund en heldur ekki í stóran hund og mig langaði til þess að geta unnið með hundinn minn. Inn í þessi leitarskilyrði passar schnauzer einmitt fullkomlega. Schnauzer hundar eru heilsuhraustir og sterkbyggðir og þola alla veðráttu. Þeir eru gáfaðir og afar skemmtilegir í þjálfun, sjálfstæðir hundar sem geta leyst alls kyns vandamál, góðir fjölskylduhundar og barngóðir. Það er gaman að vinna með schnauzer í hundafimi, hlýðni, spori, dansi og hverju sem er því þeir eru afar fjölhæfir vinnuhundar og geta þannig líka nýst í sprengjuleit, í leit að krabbameini, fjárrekstri og veiði.
Maðurinn minn var ekki sérlega áhugasamur um að fá hund en hann gerði sér grein fyrir því að áhugi minn var ólæknandi og það var hann sem gaf mér Rúfus. Hundarnir voru alltaf mínir en ekki hans. Það var því þó nokkuð mikið á hann lagt þegar Dilla og Rúfus eignuðust 13 hvolpa. Rúmum tveimur mánuðum eftir að hvolparnir komu í heiminn átti ég að fara til Namibíu og vinna þar í 4 vikur. Ég kom flestum hvolpunum út og var búin að koma þeim tveim sem eftir voru í fóstur á meðan ég væri úti þegar tveim hvolpum var skilað tilbaka. Daginn áður en ég fór voru því 6 hundar á heimilinu. Hann féllst á að passa alla – enda varla annað í stöðunni. Hann sagðist svo bara hafa þurft að brynja sig æðruleysinu og hugsa: „Ég tek bara einn kúk í einu,“ þegar hvolparnir gerðu þarfir sínar í röð á gólfið.
Schnauzerhundar eins og aðrir vinnuhundar eru fjörugir orkuboltar fram til tveggja ára aldurs (og lengur). Þeir þurfa því að fá að vinna að verkefnum sem bæði reyna á þá andlega og líkamlega. Það gildir einnig um þá eins og aðra að þreyttir hundar eru þægir hundar. Allir sem fá sér vinnuhund eins og schnauzer þurfa að gera sér grein fyrir því að hundarnir þurfa þjálfun og að hæfileika þeirra verður að nýta á jákvæðan hátt. Hin hliðin – sú neikvæða við sjálfstæði og að hafa hæfileika til að leysa vandamál – virkjast fljótt ef eigandinn er latur. Hundarnir fara þá að búa sér til sín eigin verkefni eins og til dæmis að grafa sér leið út úr garðinum, að gera bréfakörfuna að sérstöku viðfangsefni og taka að sér sjálfstæð verkefni pappírstætari eða glíma daglangt við að ná fyllingunni út úr hundabælinu. Sumir taka líka upp á því að safna í bælið sitt áhugaverðum hlutum eigandans, gleraugum, hárkollum, flöskum, skóm, úrum, gólffötu og þess háttar.
Fóa er mjög líflegur hundur enda bara eins árs. Hennar fyrsta verk á morgnana er að hlaupa að rúminu mínu og athuga hvort hún finnur ekki gleraugun mín til að taka í kjaftinn og dansa hróðug með, helst alla leið út í garð að pissa. Í fyrsta sinn sem henni tókst þetta lagði hún þau frá sér á hvolfi á hraungrýti þannig að ég varð að kaupa mér ný gler en í önnur skipti hafa gleraugun ekki skaðast alvarlega. Úrið mitt varð sömuleiðis fyrir henni og lá úti í einn sólarhring áður en ég fann það í garðinum. Nú er ég vonandi búin að læra að ganga betur frá hlutunum mínum þar sem hún nær þeim ekki. Nýlega fór þessi árátta hennar svo að birtast á jákvæðari hátt en um daginn tapaði Dilla endurskinsvestinu sínu í upphafi morgungöngunnar. Á bakaleiðinni stökk Fóa snögglega til hliðar greip vestið hróðug í kjaftinn og kom dansandi til mín með það.
Hundarnir mínir eru varðhundar og gelta þegar gesti ber að garði. Sumum á heimilinu finnst þetta hvimleitt en mér er sama. Það er líka góð tilfinning að vera með varðhundi á göngu því hann myndi fyrr láta lífið en að nokkur gæti gert mér mein og það er ekki hægt að fara inn á heimilið nema með leyfi og vitund eigendanna. Dilla og Fóa eru miklir vinir fjölskyldunnar, bæði barnabarna og fullorðinna. Að eiga hund sem sýnir manni alltaf aðdáum og ást og reynir að gera manni allt til geðs eru mikil lífsgæði. Það er líka alveg ljóst að útivistin og mannlegi félagsskapurinn sem fylgir hundum hefur góð áhrif á andlegt og líkamlegt heilbrigði. Ég fer út að ganga áður en ég fer í vinnuna á morgnana og eftir að ég kem heim úr vinnu á daginn. Í gönguferðunum reyni ég líka að gera æfingar með hundunum. Ég hitti reglulega vinkonur mínar sem ég kynntist í gegnum hunda og spora, geng úti eða æfi með þeim hlýðni og gleymi öllum áhyggjum og vandamálum þegar ég sökkvi mér niður í vangaveltur um aðferðir við að móta atferli hundsins. Það að eiga hundana hefur líka haft þau áhrif að núna er ég ekki með ofnæmi fyrir neinum hundum og þannig hafa hundarnir sýnt beinan lækningamátt.
Lífið er svo sannarlega betra með hundum og öllum þeim skemmtilegu og yndislegu vinum sem ég hef kynnst í gegnum hundana.
Valgerður Stefánsdóttir
Forstöðumaður
Samskiptamiðstöð heyrnarlausra