Við áramót 2015 – 2016

Þórhildur Bjartmarz:

Á fallegum vordegi í mars síðastliðnum, þegar ég var á göngu með hundana mína, kom hugmyndin um Hundalífsbloggið upp í huga minn.  Af hverju ekki, það vantar vettvang til að skrifa greinar um ýmis mál sem eru á döfinni hverju sinni og ekki síður að safna saman á einn stað því helsta úr fréttum sem snýr að hundum hugsaði ég og var í þungum þönkum en býsna glöð yfir þessari hugmynd. Hafði ekki hugmynd um hversu krefjandi verkefni ég var búin að koma mér í þarna á staðnum.

Það er ekki gerandi að standa einn að svona bloggsíðu og hugurinn reikaði til Jórunnar Sörensen sem hefur verið í gegnum tíðina dugleg við að segja sína skoðun á reglum um hundahald hér á landi. Einkum eftir að hún fór að fá fréttir frá henni Bjöllu sem fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Svíþjóðar fyrir nokkrum árum síðan. Bjalla í lestinni, Bjalla á veitingahúsum og Bjalla hér og þar sem lifði í vellystingum í Svíþjóð. Myndirnar sem fylgdu með öllum þessum fréttum af Bjöllu sendi Jórunn áfram til mín ásamt athugasemdum hvort það væri ekki hægt að breyta ástandi hundamála hér á landi. Jú, ég var ekki í vafa um að Jórunn hefði ýmislegt að segja á svona hundabloggsíðu.

Þá vantaði fleiri og sérstaklega einhvern sem hefði með útlit og hönnun að gera. Fljótlega kom Jónína Sif Eyþórsdóttir í hugann. Henni hafði ég kynnst þegar hún starfaði með Unglingadeild HRFÍ og vissi að hún er traust, dugleg og hefur margvíslega reynslu í hundamálum. Jónína sagði einfaldlega „já, ég verð með“ og eftir tvo daga var hún búin að undirbúa síðu til birtingar undir nafninu Hundalífsblogg.

Hundalífsblogginu var vel tekið og strax á fyrstu dögum bloggsins var pistill eftir Jórunni birtur á visir.is og var mest lesna fréttin þann daginn. Eftir tvo og hálfan mánuð var ljóst að bloggið var mun umfangsmeira en ætlað var í fyrstu og við ritstjórarnir þrír ákváðum að breyta nafni og uppsetningu síðunnar í hundalífspóstur.is.

Nú eru yfir 300 greinar og fréttir geymdar á síðunni og við býsna stoltar af framlagi okkar. Við höfum komið ýmsum málefnum í umræðuna og síðan er með stóran lesendahóp. Af nógu hefur verið af taka og til að nefna þá var málefni Hátúns þar sem átti að fjarlæga gæludýr íbúa hússins, stjórnarkjör HRFÍ, hundum misþyrmt og þeir étnir í Kína. Mest lesni pistill ársins er Ísabella og hundarnir sem Sigrún Guðlaugsdóttir skrifaði. Pistilinn var svo birtur í flestum fjölmiðlum landsins þar sem ljósinu var beint að því hvernig hundar koma til hjálpar á jákvæðan hátt og svo að fötlun Ísabellu. Sigrún sjálf hefur staðið sig frábærlega í fréttum og viðtölum sem fylgdu í kjölfar pistilsins.

Við höfum reynt að vekja athygli á mikilvægi hunda í lífi okkar og að lífið sé betra með hundum. Hundar hafa jákvæð áhrif á líf okkar allra. En við hundaeigendur höfum í svo mörg ár beðið eftir því að aðrir viðurkenni það. En hver á að breyta því ef ekki við sjálf?  Við verðum að sækja fram, hreinlega markaðsetja okkur sem hundaeigendur. Markaðssetja hundalífið. Taka mið af hvolpauppeldinu styrkja það jákvæða, gera það áberandi, ekki bara meðal okkar hundaeigenda heldur koma því áleiðis til allra í umhverfi okkar. Við verðum að segja frá góðum atburðum þar sem hundar koma við sögu ekki bara í spjalli á fundum með öðrum hundaeigendum heldur verður það að komast áleiðis út í þjóðfélagið og þá sérstaklega til þeirra sem ráða málefnum okkur tengdum.

Það er svo margt gott gert þó að við eigum langt í land, við höfum Rauða kross hunda, blindrahunda og allskyns hjálparhunda sem við á Hundalífspóstinum höfum fjallað um og ætlum að halda áfram að vekja athygli á, á næsta ári. Vekja athygli á jákvæðu hundalífi.

Gestapennum þökkum við fyrir þeirra framlag.  Það er gaman að fá póst frá fólki sem vill koma fréttum eða skoðunum á Hundalífspóstinn. Vonandi bætast fleiri pistlahöfundar í hópinn á næsta ári. Þá höfum við einnig fengið leyfi til að birta nokkuð af hundatengdu efni úr Bændablaðinu.

Hundalífspósturinn hefur birt fréttir og myndir á vinnuprófum HRFÍ og frá annari vinnu með hundum t.d. smalahundakeppni á Hornarfirði, mót Sleðahundaklúbbsins sl. sumar og frá æfingu Björgunarhundasveitar Íslands.

Við höfum fjallað um ýmis mál HRFÍ. Til dæmis nýlega var ítarleg grein um Mark Watson og hans aðkomu í stofnun og sögu félagsins. Formannskjör og stjórnarskiptin í maí sl . Nú síðast ákvörðun stjórnar um að opna félagið fyrir nýjum félagsmönnum og veita þeim félagsaðild án gjalds á almanaksárinu.

Ágætir lesendur Hundalífspóstsins við þökkum samfylgdina á árinu sem er að líða. Við hlökkum til að takast á við málefni sem verða til umfjöllunar á nýju ári. Með Hundalífspóstinum teljum við okkur gera hundamálum góð skil og leggjum þess vegna í þessa miklu vinnu.

Gleðilegt nýtt ár 2016

 

Garðabær 29. desember 2015

Þórhildur Bjartmarz