Rússneskur hvolpur tekur við af Diesel

ruv.is:
Frönsk yfirvöld samþykktu í dag að taka við rússneskum hvolpi í stað lögregluhundsins Diesel sem lést við skyldustörf í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París fyrr í mánuðinum.
Í bréfi til starfsbróður síns í Rússlandi segir Bernard Cazeneuve innanríkisráðherra Frakklands gjöfina vera einstaklega táknræna og sterka. Belgíski fjárhundurinn Diesel lést við skyldustörf í umfangsmikilli aðgerð lögreglu 18. nóvember þar sem til átaka kom á milli vígamanna og lögreglu í norðurhluta Parísar.

Hvolpurinn sem kemur í hans stað heitir Dobrynya og er hálfs árs gamall þýskur fjárhundur. Hann býr í miðstöð lögregluhunda í Moskvu. Áður en hann verður sendur til Frakklands fer hann í ítarlega skoðun hjá dýralækni og verður sendur í sóttkví.