Korpur segir börnum sögur úr sveitinni – 5

Brynhildur Inga skrifar fyrir yngstu lesendur Hundalífspóstsins.

Nú var svo komið að Móra og Úlfi var hætt að koma vel saman. Úlfur var kominn með það sem kallast skjaldkirtilssjúkdóm sem gerði það að verkum að honum var oft kalt og hann missti óvenjulega mikið hárin. Úlfur var samt alltaf að derra sig við Móra því hann sagðist vera eldri en hann og að hann ætti því að ráða öllu. Úlfur var reyndar tveimur mánuðum eldri en Móri. Það kom að því að Móra var bara nóg boðið og fór að slást við Úlf.  Móri var sterkari þannig að Úlfur greyið varð að lokum að lúffa fyrir honum. Svo var það einn daginn að Snögg sagði við Úlf að hún kærði sig ekki um það að hann væri að ráðast á Móra son sinn og ef hann hætti því ekki þá myndi hún taka til sinna ráða. Úlfur hætti ekki, þannig að Snögg sagði við fóstru að hann yrði að fara á nýtt heimili svo það yrði friður á heimilinu.

Því varð það úr að Úlfur flutti frá okkur og  í Mosfellsbæinn og þar bjó hann í góðu atlæti þar til hann var að verða 17 ára.

 

Korpur 5 1

 

Einu sinni var fóstra að mála þakið á fjárhúsinu.

Þar sem hún stóð á þakinu önnum kafinn við að mála brá henni heldur betur þegar eitthvað straukst við fótinn á henni. Heldur þú að Móri hafi ekki verið kominn upp á þak til hennar. Móri lét sér ekki muna um að klifra upp brattann stigann, nei hann meira að segja komst einnig sjálfur niður af þakinu. Hann varð alltaf að vera þar sem hún fóstra okkar var. Eflaust hefur hann skynjað það að hún var frekar lofthrædd og viljað vernda hana og láta hana vita að fyrst hann gat farið uppá þakið til hennar þá væri ekkert að óttast. Hann stökk meira að segja einu sinni niður af svölunum á húsinu okkar þegar fóstra fór niður á tún til þess að þjálfa Sögu og Smala. Móri var heppinn að hafa ekki lappabrotnað því hæðin var töluverð. Fóstra segir stundum að hann sé að drepast úr frekju og sætti sig ekki við að vera skilinn eftir heima. Móri er samt skemmtilegur karakter og þess vegna fékk hann að eignast afkvæmi með Hriflu.

Einn af hvolpunum úr því got var hún Varða en hún var ekki mikið fyrir það að leika sér eða verja of miklum tíma með got-systinum sínum.

Á hverjum degi klifraði hún yfir grindina í þvottahúsinu og kom inn í íbúð til okkar fullorðnu hundanna.

Korpur 5 2

 

Ég var nú ekkert sérlega hrifin af því að vera með svona hvolpaskott nálægt mér. Móri passaði því uppá hana og að hún væri ekki að gera eitthvað sem hún mætti ekki. Snögg var líka dugleg að passa hana og þreif hana alltaf hátt og lágt og kenndi henni góða hunda siði.

Þegar Varða stækkaði fékk hún að búa áfram hjá okkur því fóstra sagði að hún hefði bara ákveðið það sjálf að búa með okkur. Hinir hvolparnir fóru allir á ný heimili en samt var Dreki oft hjá okkur því hann flutti til sonar fóstru.

 

kopur 5 3

 

Varða hafði mjög gaman af því að hlaupa á eftir fénu en um leið og kindurnar stoppuðu þá hætti hún að hlaupa. Kindurnar voru ekkert hræddar við hana enda var hún bara lítill kjáni þá.

kopur 5 4

Svo var annað sem hún Varða hafði gaman af en það var að eltast við krumma og honum fannst það nú ekki leiðinlegt að geta dregið hana og okkur hina hundana á eftir sér alveg upp í fjall.

Dreki var mjög ólíkur Vörðu því hann var svo rólegur og þægilegur sagði fóstra. Fóstra fór oft með okkur í langa göngu eftir mjaltir og hlupum við öll út og suður en fylgdumst alltaf vel með því hvar fóstra væri því ekki vildum við týna henni en Dreki var bara eins og skugginn hennar og vék ekki frá henni. Hann horfði bara á hana og síðan á eftir okkur eins og hann væri að velta því fyrir sér hvort við værum eitthvað skrítin að hlaupa alltaf á eftir hrafninum þegar við gætum bara verið á röltinu með fóstru.

Þegar fóstra og maðurinn hennar ákváðu að hætta í búskap og selja jörðina kom stundum fólk til þess að skoða bæinn. Þegar fólkið var að  skoða sig um komu stundum Búri og Grímur sem voru orðnir stórir og stæðilegir hrútar til þess að heilsa uppá fólkið. Ef fólkið heilsaði þeim ekki átti Grímur það til að stanga í afturendann á fólkinu, en það var nú ekki fallega gert af honum.

Mikið áttum við nú eftir að sakna sveitalífsins og þessa sterku karektera eins og hrútanna og allra vinanna sem við áttum í fjósinu og fjárhúsinu.

 

Korpur 5 5

 

Með kveðju
Brynhildur Inga Einarsdóttir, hundaþjálfari
borg1@centrum.is
www.reykjadals.is