Kveðjustund á Keldum

Þórhildur Bjartmarz

Fréttaljós úr fortíð. Þessa frásögn fann ég nýlega á netinu. Því miður er hún ekki merkt höfundi en gerist líklega árið 1955.

Þegar Watson var að flytja hunda af landi brott, fékk hann stundum að geyma þá tíma og tíma á Keldum, meðan þeir biðu ferðar úr landi. Ég minnist þess að eitt sinn kom bóndi norðan úr Skagafirði með hund, til geymslu að Keldum, en Watson hafði keypt þennan hund fyrir norðan.

Þegar bóndi snéri frá klefanum, þar sem geyma átti hundinn tók rakki hans að ýlfra sárt og bera sig aumlega. Bóndi fór þá inn til hans og reyndi að róa hann, snéri síðan aftur en allt fór á sömu leið. Bóndi tók þá af sér annan skóinn, klæddi sig úr sokknum og lét hann inn í klefann. Þetta dugði.

Báðum mun þó hafa verið nokkuð erfiður skilnaðurinn. Enn man ég glöggt þegar við horfðum eftir bónda lötra niður heimreiðina sokklaus á öðrum fæti. Sokksins mun hundurinn hafa gætt þar til hann var settur í sóttkví á Bretlandi.

Sagan er líklega af hundinum Bósa úr Skagafirði sem Watson flutti út 1955. Í Öldinni okkar 1956:

Í Kaliforníu eru þeir tveir hundar af íslenszku kyni, sem víðfrægastir hafa orðið, Brana af Jökuldal og Bósi úr Skagafirði, sem keypt voru í fyrra og flutt vestur um haf og komu fram í amerísku sjónvarpi síðasliðinn vetur við mikla hrifningu.

Ef einhver þekkir betur þessa frásögn eða aðrar um útflutning hunda til Watson væri gott að fá upplýsingar í tölvupósti.  thorhildurbjartmarz@gmail.com

 

Bósi frá Höskuldsstöðum