Tveir leiðsöguhundar voru afhendir í dag

blindrahundar 008 blindrahundar 009 blindrahundar 012 blindrahundar 014 blindrahundar 019 blindrahundar 020 blindrahundar 021 blindrahundar 023

 

Af vefsíðu Blindrafélagsins:

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga afhendu formlega tvo leiðsöguhunda, þá Zören og Oliver, til tveggja notenda í dag.

Þeir bræður Zören og Oliver komu hingað til lands í vor frá Svíþjóð. Þeir eru tveggja og hálfs árs og eru af Labrador kyni eins og flestir leiðsöguhundar hér á landi. Zören verður afhentur Svanhildi Önnu Sveinsdóttur og Oliver verður leiðsöguhundur Lilju Sveinsdóttur. Zören verður búsettur á Akureyri og Oliver í Reykjavík. Þær Svanhildur og Lilja eru nú báðar að fá leiðsöguhund í annað skipti og eru þær fyrstu leiðsöguhundanotendurnir hér á landi til að fá úthlutað öðrum leiðsöguhundi.  Hundarnir sem þær fengu fyrst, þau Exo og Asíta, fara á eftirlaun eftir farsælt starf fyrir félaga sína, Svanhildi og Lilju.

Svanhildur er með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu og starfar á Icelandair hótelinu á Akureyri. Að fá leiðsöguhund hefur bætt líf hennar mikið, veitt henni bæði stuðning og sjálfstæði og gert henni kleift að sinna sínum daglegu og félagslegu þörfum. Undanfarnar vikur hafa þau Svanhildur og Zören fengið að kynnast hvort öðru en hann hefur verið í þjálfun með Svanhildi undir leiðsögn Drífu Gestsdóttur, hundaþjálfara Miðstöðvarinnar. Svanhildur segir Zören afar agaðan og góðan í vinnu en þegar beislið er tekið af honum og hann er í fríi sé hann mikill sprellari og fjörkálfur.

Lilja starfar á Blindravinnustofu Blindrafélagsins í Reykjavík. Hún segist hafa upplifað mikið frelsi við að fá leiðsöguhund. Hundurinn fylgi henni hvert sem er, í strætó, vinnuna, bókasafn og búðir. Bæði sé mikið öryggi að geta treyst á að hundurinn gæti hennar auk þess sem hann sé góður félagsskapur.

Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur í samvinnu við Blindrafélagið unnið að þróunarverkefni með leiðsöguhunda, sem felst í að fjölga leiðsöguhundum á Íslandi. Zören og Oliver eru áttundi og níundi leiðsöguhundarnir sem teknir eru í notkun á Íslandi síðan árið 2008. Áætlað er að um 14 leiðsöguhundar þurfi að vera í notkun á hverjum tíma til að uppfylla þörfina fyrir slíka hunda hér á landi. Vonast er til að hægt verið að úthluta tveimur hundum árið 2016. Tveimur íslenskum leiðsöguhundum var úthlutað fyrr á þessu ári og árið 2014 en annars hafa hundarnir komið hingað til lands frá Noregi og Svíþjóð. Verkefnið hefur gengið vel og hefur hundunum verið vel tekið í samfélaginu. Almennt virðist fólk nú orðið þekkja rétt leiðsöguhunda til að fara með notendum sínum á alla þá staði sem opnir eru almenningi.

Blindrafélagið hefur staðið dyggilega á bak við verkefnið með fjáröflun, meðal annars með sölu dagatala, en  myndir í dagatali félagsins hafa verið  af núverandi leiðsöguhundum, unghundum í þjálfun og hvolpum sem keyptir hafa verið í verkefnið.

Við afhendingu leiðsöguhundanna á fimmtudag munu svo félagar úr Lions hreyfingunni afhenda Blindrafélaginu söfnunarfé Rauðu fjaðrarinnar, landssöfnunar Lions, sem fram fór í apríl og var að þessu sinni til styrktar leiðsöguhundum. Þá verður stofnuð deild innan Blindrafélagsins fyrir leiðsöguhundanotendur.

http://www.blind.is/frettir/nr/1858