Þórhildur Bjartmarz:
Þessi texti er tekin úr fundargerð stjórnar HRFÍ 20. ágúst sl:
Smalahundafélag Íslands sendi stjórn HRFÍ erindi dagsett 8. ágúst 2015 og óskaði eftir samnýtingu á augnsérfræðingum sem koma til landsins á vegum HRFÍ eða kanna grundvöll fyrir samstarfi á augnskoðunum. Sé skoðuð heimasíða félagsins er ljóst að það heldur utan um skráningar hunda og ræktun hunda. Það er ekki samrýmanlegt markmiðum HRFÍ sem á að beita sér fyrir hreinræktun og kynbótum hundakynja sem viðurkennd eru af FCI að vera i slíku samstarfi enda eru einungis viðurkenndir þeir hundar sem ættbókarfærðir eru hjá félaginu. Af þeirri ástæðu er ekki hægt að verða við beiðni Smalahundafélags Íslands.
Hér lýkur texta úr fundargerð stjórnar HRFÍ en skoðum betur lög HRFÍ
Í 2 grein í lögum HRFÍ segir:
- Markmið HRFÍ er að:
- a) Beita sér fyrir hreinræktun og kynbótum hundakynja sem viðurkennd eru af Alþjóðasambandi hundaræktarfélaga (Fédération Cynologieque Internationale, F.C.I).
- c) Stuðla að réttri meðferð, aðbúnaði og uppeldi hunda.
- d) Stuðla að góðum samskiptum milli hundeigenda, yfirvalda og almennings.
Ég fagna beiðni Smalahundafélags Íslands. Að mínu mati sýnir erindið ábyrgð og snýst um hundavelferð. Ég hvet stjórn HRFÍ til að endurskoða svarið og þiggja samstarf félaganna.
Smalahundafélög sambærileg Smalahundafélagi Íslands eru starfandi víða um heim og hafa starfað yfir 100 ár eins og sjá má á heimasíðu samtakanna; http://www.isds.org.uk/meet-the-isds/history-of-the-isds/ Tilgangur ISDS félaga er að vinna með eðli smalahunda. Smalahundafélag Íslands starfar þannig á allt annan hátt heldur en HRFÍ og tilvist þess á Íslandi er á engan hátt skaðleg HRFÍ.
Það er ekki ósamrýmalegt lögum HRFÍ að smalahundar landsins séu augnskoðaðir hjá sérmenntuðum dýralæknum sem HRFÍ flytur inn til að augskoða hunda og leyfi mér þá að vísa í ofangreind lög 2. grein c og d lið.
Það ber að fagna heilbrigðisskoðunum á hundum og um það fjallar erindi Smalahundafélagsins ekkert annað. Ef HRFÍ hefur pláss fyrir smalahundana þá er hægt að gera samning um augnskoðun. E.t.v. er hægt að fjölga augnskoðunum á ársgrundvelli fyrir vikið. Margir í Smalahundafélaginu búa á landsbyggðinni og það væri t.d. athugandi að hafa augnskoðun oftar á Akureyri.
Í framahaldi af þessum skrifum um Smalahundafélagið þá er spurning hver staða border collie hunda í HRFÍ er. Þurfa þeir að standast smalahundapróf sambærilegt prófum hjá Smalahundafélaginu?
Úr sýningareglum HRFÍ
Sérákvæði um meistarareglur fyrir vinnuhunda
- Til að vinnuhundar sem tilheyra tegundahópum 1, 2, 3, 4, 5, 6 og vatna- og spanielhundar (Flushing/Water) í tegundahópi 8 og fædd eru eftir 1. janúar 2004 (Gildir um hundakyn sem þurfa að skila vinnuprófum skv. Breeds nomenclature lista FCI – stjörnumerktir í Working trials reit, án sviga), hljóti titilinn íslenskur meistari (ISCh), gilda eftirfarandi reglur:
- Að hafa hlotið þrjú meistarastig á sýningum HRFÍ, hjá þremur mismunandi dómurum, þar af eitt stig eftir 24 mánaða aldur (24 mán.+1 dagur).
- Skapgerðarmat (Fellt niður frá og með 01.04.2011)
- Sporleitarpróf viðurkennt af HRFÍ eftir 9 mánaða aldur.
- Bronsmerki í hlýðni. (Gildir fyrir hunda fædda eftir 1. janúar 2004).
- Innfluttur hundur með IPOI próf (Schutzhund, SCHH1) jafngildir lið c og d.
- Smalaeðlispróf fyrir fjárhunda (jafngildir lið c og d).
Samkvæmt þessu þá virðist það vera svo að border collie hundar skráðir í HRFÍ geta orðið Íslenskir Meistarar með því að fara í Smalaeðlispróf sbr lið f. og því er einfaldlega skipt út fyrir Sporaleitarpróf og Bronsmerki.
Á meðan border collie þarf einungis að fara í Smalaeðlispróf þarf t.d. schaffer* að fara í Sporleitarpróf og Bronsmerki. Þarna er eðlisprófi skipt út fyrir vinnupróf sem þarfnast talsverðrar þjálfunar. Af hverju þarf þessi frábæri vinnuhundur sem border collie er ekki að fara í alvöru smalapróf sambærilegt við það sem Smalahundafélag Íslands er með? Krafan væri þá smalapróf og þeir sem ekki hafa aðgang að kindum eða treysta sér ekki í slíka vinnu fara í Sporleitar og Bronspróf. (*Próf frá Björgunarhundasveit Íslands eru viðurkennd sem árangur fyrir schafferhunda)
Það væri frábært að sjá fleiri boder collie hunda í vinnuprófum. Border collie hundar hafa varla sést undanfarin ár í hlýðni, spori né hundafimi. Ég veit ekki um smalaprófin en umfjöllun um þau er allavega ekki áberandi á heimasíðu Fjár- og hjarðhundadeildar.