Jórunn Sörensen:
Í fórum mínum á ég endurrit úr Sakadómabók Reykjavíkur frá 15. október 1975 þar sem beiðni lögreglunnar um húsleit á heimili, í þeim tilgangi að ná í hund, var hafnað.
Þennan hund átti gömul kona sem bjó litlu búi uppi í Selási í Reykjavík. Börnum sem ólust upp í Árbænum, á þessum tíma, var velkomið að koma á þennan litla bæ og skoða dýrin og leika við hundana.
Það sem varð tilefni þess að lögreglan vildi ná í umrædda hund var að hann var sakaður um að hafa bitið dreng. Engin áverkavottorð eru í þeim gögnum sem lögð eru fyrir dóminn. En eins og áður segir, beiðininni var hafnað. Hins vegar hvarf hundurinn skömmu síðar sem og hinn hundur gömlu konunnar og sáust þeir aldrei framar. Gamla konan hélt uppi fyrirspurnum, hringdi í Dýraspítala Watsons í Víðidal en enginn hafði komið með hundana þangað. Einnig hringdi gamla konan í lögregluna sem kannaðist ekki við að hafa orðið vör við hundana.
Á þessum árum var hundahald bannað í Reykjavík og á öllu Höfðuborgarsvæðinu og gekk lögreglan mjög hart fram í að taka hunda af fólki eða hirða þá ef þeir höfðu sloppið að heiman. Það var því enginn vafi talinn leika á því að lögreglan náði umræddum hundum með tilheyrandi afleiðingum.
Nú er hundahald leyft með ströngum skilyrðum en enn eru hundar fjarlægðir af heimilum án dómsúrskurðar. Tilefnin eru ýmis. Hundur er sagður hafa bitið, hann býr í húsi þar sem öðrum íbúum er illa við hunda eða segjast vera með ofnæmi og tekst að ráða því að hundahald er bannað í húsinu.
Mér finnst löngu tímabært að það sé látið á það reyna hvort lögreglan er enn, eftir hátt í hálfa öld, að brjóta á eignarétti fólks með því að fjarlægja eign þeirra, fjölskylduhundinn og láta drepa hann án þess að fyrir liggi dómsúrskurður í málinu.
Einnig væri það bæði þarft og fróðlegt verkefni fyrir góðan nema í lögfræði að kanna hve marga hunda lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu hefur tekið lausa eða af eigendum og drepið sl. 40 ár.