Þórhildur Bjartmarz:
Jón Sigurðsson, hundaeftirlitsmaður hætti störfum 1. maí síðastliðinn eftir 14 ár hjá „Hundaeftirlit Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðis“
Hundaeigendur í Garðabæ voru almennt mjög ánægðir með samskiptin við Jón og heilbrigðiseftirlitið varðandi hundahaldið, hvort sem þeir voru samþykkir gildandi reglum um hundahald eða ekki. Eftir að Jón byrjaði sem hundaeftirlitsmaður sáu hundaeigendur fljótlega miklar breytinar á samskiptum við hundaeftirlitið. Sem dæmu þá breyttust ótrúlega hörkulegar bréfasendingar til allra hundaeigenda frá fyrrum hundaeftirlitsmanni í vinsamlegar ábendingar um hvað mætti betur fara. Í bæklingi sem Garðabær dreifði í öll hús varðandi vorhreinsun 2015 er falleg mynd af hundi og undir myndinni stendur „Hirðum upp eftir hundana okkar – hundaskítur óprýðir umhverfið.“
Hundalífspósturinn hafði samband við Jón og lagði fyrir hann nokkrar spurningar:
Jón ert þú sjálfur hundamaður, átt þú hund?
Já ég tel mig vera dýra- og hundamann, ég á 7 ára labrador hund. Áður átti ég schäfer, hund sem ég tók að mér þegar hann var fullorðinn. En ég er sveitamaður í mér, ég er uppalinn í sveit, af bændaættum og búfræðingur að mennt
Hvernig vildi það til að þú hófst störf hjá heilbrigðiseftirlitinu?
Það var tilviljun. Ég var forðagæslumaður á svæðinu, heilbrigðiseftirlitið leitaði af starfsmanni sem væri búfræðimenntaður og það var haft samband við mig og mér boðið staðan. Skemmtilegt starf, já og nei, það voru oft erfið mál sem maður þurfti að taka á og passa að taka ekki inn á sig.
Hvernig voru samskipti við hundaeigendur?
Það gera sér ekki allir grein fyrir því hvaða skref þeir taka þegar þeir fá sér hund. En samskiptin við hundaeigendur voru yfirleitt jákvæð og yfir 80% þeirra sem býr í sátt og samlyndi við umhverfið sitt. Svo er það sama fólkið sem þarf að hafa afskipti af, aftur og aftur. Það verður að vera eftirlit með hundaskráningum og hundahaldi. Hundaeftirlitið sinnir öllum útköllum sem varða hunda. Lögreglan vill ekki skipta sér af hundahaldi þrátt fyrir að það komi upp erfiðar aðstæður. Oft er um að ræða leiðindamál í fjölbýlishúsum og á svo viðkvæmum málum þarf að taka á með mannlegu hyggjuviti. Þá þýðir ekkert að koma fram valdmannslegur með hroka. Ég hef lagt mig fram um að vera jákvæður gagnvart hundaeigendum sem standa sem vel.
Hvað með kvartanir?
Allar kvartanir voru skráðar niður. Það helsta sem kvartað var yfir var lausaganga hunda, hundar sem vekja nágranna sína snemma á morgnana, aðallega þó um helgar með gelti. Svo og hundar sem fara í garða nágrannanna og skíta. Jón býr sjálfur í Vatnsendahverfinu þar er alltaf eitthvað um lausa hunda.
Helstu breytingarnar á þeim tíma sem þú starfaðir?
Hundaeigendur eru sífellt duglegri við að afla sér þekkingar. Þeir sækja meira í námskeið þar sem þeir læra hvernig á að halda dýr. Þannig að hundaeigendur eru að verða meðvitaðri um ábyrgð sína.
Er eitthvað í reglum um hundahald eða annað sem þú vilt sjá breytingar á?
Samþykkt um hundahald var nánast óbreytt á þeim tíma sem ég var hundaeftirlitsmaður. Að mínu mati eru reglurnar réttmætar og samþykktin af hinu góða. En það vantar alveg hundagerði í Garðabæ. Það er spor í rétta átt að hafa hundagerði eins og er komið á Vatnsendasvæðinu og í Hafnarfirði.
Hvað finnst þér almennt um hundahald í þéttbýli?
Mér finnst jákvætt að fólk fái sér hunda sem hefur aðstæður til þess. En það er of algengt að sjá fólk fá sér hunda af tegund sem hentar ekki þeirra aðstæðum. Þá er ég að tala um fólk sem fær sér stóra öfluga hunda sem það ræður ekki vel við. Í sumum tilfellum væri betra að það fái sér minni og auðveldari hunda. Það er of mikið af óskráðum hundum aðallega smáhundum.
Er eitthvað útkall sem þú mannst sérstaklega eftir?
Já þau eru nokkur en til að nefna eitt þá var ég einu sinni kallaður til þar sem stór og stæðilegur heimilshundur hafði sloppið út um opna garðhurð. Þegar ég kom á heimili eigandans til að fá upplýsingar um hundinn þá sagðist eigandinn vera bundinn yfir ungbarni og kæmist ekki út til að leita að hundinum en hann væri ekki allra. Því væri betra að ég passaði barnið á meðan eigandinn færi út að leita. Ég samþykkti þetta og þar sem ég stóð og fylgdist með barninu heyrði ég lágt urr fyrir aftan mig. Hundurinn var kominn heim og var ekki hrifinn að sjá ókunnugann mann standa yfir barninu. Ég færði mig í rólegheitum frá barninu og hundinum að garðdyrunum og út. Ég var fljótur að loka bæði garðdyrunumi og svo útidyrunum, hringdi samstundis í eigandann og sagðist vera búinn að handsama hundinn.
Eru allir hundar sóttir eftir handsömum?
Nei, það hafa verið 6-8 hundar á ári, undanfarin ár sem hefur þurft að lóga. Í vetur sótti ég svarta unga tík í Hafnarfjörð og fór með hana í gæslu á Leirur. Nokkrum dögum síðar, þegar ég kom þangað með hund sá ég að tíkin var þar enn og ákvað að taka hana með mér heim um páskana. Ég gat ekki hugsað mér að láta aflífa hana. Ég var svo heppin að kona sem kom til okkar í heimsókn heillaðist af tíkinni og tók hana að sér og þær hafa verið óaðskiljanlegar síðan. Það mál hafði farsælan endi.
Viðtalið fór fram fimmtudaginn 11. júní 2015