mbl 3. júní Gunnar Dofri Ólafsson:
Tveir litlir hundar tóku sér far með strætisvagni ásamt eiganda sínum í Reykjavík á dögunum. Það væri ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að gæludýr eru ekki leyfð í strætisvögnum Strætó.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, forstjóri Strætó, segir enga breytingu hafa orðið á stefnu Strætó þess efnis að gæludýr eru ekki leyfð í vögnunum. Hundarnir hafa því verið í vagninum í óleyfi, þó svo að blaðamaður mbl.is geti vottað fyrir að þeim var afar vel tekið af samferðamönnum þeirra.
„Við tókum málefni gæludýra í strætisvögnum á stjórnarfundi í vor þar sem til okkar var beint að skoða þessi mál með tilliti til þess hvernig aðrir eru að gera þetta. Það er hópur í gangi sem er að tala við notendur strætó, lækna og fleiri og skoða hvernig þetta er gert annarsstaðar,“ segir Jóhannes.
„Auðvitað vitum við að þetta er leyft víðast hvar annarsstaðar, en það er ekki búið að gera neinar breytingar, þannig að þarna hafa menn laumað þeim inn,“ segir Jóhannes.
„Ég á hund sjálfur og við Íslendingar ættum ekki að vera mikið öðruvísi en aðrar þjóðir. Ég held það sé ekki meira ofnæmi hér en annarsstaðar. Þetta er auðvitað háð ákveðnum reglum. Við erum bara að viða að okkur upplýsingum og leggjum væntanlega tillögu fyrir stjórn á næstu misserum,“ segir hann.
Mjög viðkvæmt mál
Jóhannes segir þó að það sé ekki annað í gangi en upplýsingasöfnun, og hafi margir sett sig í samband við Strætó og lýst skoðun sinni á málinu, bæði með og á móti því að leyfa gæludýr í strætó. „Við reynum að fá notendur með,“ segir Jóhannes, en ekki sé hægt að sía út hvort ábendingar og athugasemdir sem berast Strætó komi frá notendum eða frá fólki sem ekki noti vagnana en hafi eftir sem áður skoðun á þeim reglum sem um þá gilda.
„Það er erfitt fyrir mig að greina á milli hvort það er notandi sem sendir þessar athugasemdir, en auðvitað eiga notendurnir, og vagnstjórarnir, að hafa mest um þetta að segja. En satt best að segja er þetta mjög viðkvæmt mál og við ætlum að vanda vel til verksins,“ segir Jóhannes.