Að bera ábyrgð á hundi

Þórhildur Bjartmarz:

Ég öfunda börn sem alast upp með hundum og ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það eru forréttindi þeirra. Sérstaklega þar sem ræktun fer fram og börnin fá að kynnast því sem fylgir s.s. pörun, hvolpafullri tík og sjá hvolpana fæðast.  Fylgjast svo með þeim fyrstu átta vikurnar, sjá þá þroskast og kynnast mismunandi skapgerð hvolpana. Þessum tímabilum fylgir sérstök umönnun og upplifun – kunnátta sem fylgir barninu allt lífið.

Þegar fjölskylda ákveður að fá sér hvolp er áríðandi að vel sé að málum staðið. Það þarf að leita að hvolpi þeirrar gerðar sem hentar vel lífsmynstri fjölskyldunnar. Foreldrarnir þurfa að vera með í verkefninu ekki bara samþykk því uppeldið verður að vera á þeirra ábyrgð. Börn geta ekki borið ábyrgð á hundi og börn yngri en 10 ára ættu ekki að  vera ein heima með hvolpi eða hundi og bera ábyrgð á honum. Börn sem langar að eignast hund lofa öllu fögru. Þau ætla að fara út með hundinn. Þau ætla að gefa honum matinn og svo framvegis. Foreldrar eiga ekki að taka slík loforð af barni eða unglingi því börn og unglingar hafa ekki þroska til þess að bera ábyrgð á hundahaldi.

Það á ekki að leyfa börnum að taka hvolp svona til prufu af því að hann er gefins. Ég hef kynnst dæmum þar sem foreldrum fannst það alveg sjálfsagt að barn fengi hvolp til reynslu, vitandi þess að það gengi aldrei upp. Ég tek það fram að ég er alls ekki mótfallin hundum sem eru gefins, yfirleitt eru þetta blendingshundar en það sama gildir um þá og hreinræktaða hunda þeir þurfa að vera velkomnir á nýja heimilið og aðstæður til að halda þá.

Að taka hvolp er binding til næstu 10 – 15 ára og því áríðandi að vanda valið. Hundalífið á að vera  ánægjulegt sameiginlegt áhugamál fyrir alla fjölskylduna. Allir hvolpar eru fallegir á mynd en það þarf að lesa sér vel til um eiginleika og skapgerð þeirra. Á heimasíðu HRFÍ eru upplýsingar um kosti og eiginleika allra þeirra hundakynja sem til eru á landinu ásamt upplýsingum um ræktendur og hvar hægt er að nálgast þá.

thorhildurbjartmarz@gmail.com