Guðfinna Kristinsdóttir skrifar:
Það er undarlegt hvað margir hafa áhyggjur af því að ef hundar yrðu leyfðir í strætó og á kaffihúsum yrði þar ekki þverfótað fyrir hundum. En hvaðan kemur þessi ranghugmynd? Hefur fólk eitthvað fyrir sér í þessu? Skoðum málið. Íslendingar ferðast mikið til annarra landa og sjá í borgum nágrannalanda okkar iðulega fólk með hund í taumi. Miklu fleiri en við gerum hér í Reykjavík, enda eru borgir nágrannalanda okkur margfalt stærri og fjölmennari. Margir íslenskir ferðamenn ferðast væntanlega með almenningsfarartækjum – lestum, sporvögnum og strætisvögnum – og sjá þar væntanlega stundum hund með eiganda sínum. En hundarnir í almenningsfarartækjunum eru miklu færri en sjást á götum og í almenningsgörðum. Hvaðan hefur fólk þá hugsun að strætisvagnar og kaffihús í Reykjavík myndu troðfyllast af hundum þegar við sem göngum um götur borgarinnar hittum aðeins einstaka manneskju með hund í taumi? Þessi hugsun er mjög óraunhæf.
Þessi ótti tengist þeirri ranghugmynd líklegast sem heyrist allt of oft að við hundaeigendur séum svo frekir. Það er alls ekki rétt, hundaeigendur, viljum bara fá að vera í friði með okkar hunda á þeim svæðum og stöðum sem ætlaðir eru almenningi – svo sem almenningsfarartækjum – og að sjálfsögðu án þess að angra annað fólk. Annað mál er með kaffihús, matsölustaði og verslanir. Slík starfsemi er í einkaeigu og ætti eigandi fyrirtækis að geta ákveðið að banna eða leyfa hunda á staðnum. Það er ekki yfirvalda að sjá um slíkt. Og ef við höfum augun opin í erlendum borgum sjáum við að við innganginn í sumar verslanir er skilti sem segir að þangað inn megi ekki koma hundar. Í aðrar má fara með hund.
Ég fullyrði að fólk gerir úlfalda úr mýflugu með því að ímynda sér verstu mögulegu útkomu ef þær breytingar verða gerðar á heilbrigðisreglugerðinni að hundur megi vera með eiganda sínum í strætó og á kaffihúsi. Vinnum saman að því að gera lífið í borginni skemmtilegra.
Ef þú vilt gera athugasemdir við þessi skrif sendu mér þá línu á guffaakristins@gmail.com