Þurfum við strætó-kort fyrir hunda?

Þórhildur Bjartmarz skrifar:

Undanfarnar vikur hafa margir rætt um einhverskonar strætó-kort fyrir hunda sem á að virka á þann hátt að hundar sem fara á sérsniðið strætó-námskeið fái að ferðast með strætó ásamt væntanlega þeim sem sækir námskeiðið með hundinn eða hvað?  Þetta getur verið flókið kerfi og skapað marga árekstra.

Ef ég tek sem dæmi 5 manna fjölskyldu sem samanstendur af móður, föður og 3 unglingum sem eiga sameiginlega svartan labrador hund sem heitir Skuggi. Móðirinn fer á námskeiðið og Skuggi verður viðurkenndur strætó-hundur. Hvað ef einhver annar í fjölskyldunni ætlar með Skugga í strætó?  Á að gefa út strætó-kort sérstaklega fyrir Skugga svartan labrador sem er eins og allir aðrir svartir labradorar í augum flestra bílstjóra eða þeirra sem lítið þekkja hunda. Eða á að mynda Skugga með allri fjölskyldunni? Hvort finnst okkur vænlegra fjölskyldumynd með Skugga eða hver og einn fjölskyldumeðlimur með Skugga samtals 5 strætó-kort?

Hundar geta verið líkir eða ólíkir eftir því hver horfir á hundinn. Það fer líka eftir því hversu vel við þekkjum tegundina. Vinkona mín flutti inn hund í gegnum einangrunarstöðina sem er bæði dýrt og mikil fyrirhöfn. Eftir nokkrar vikur kom hundurinn á sitt nýja heimili, hann var af sömu tegund, lit og stærð og hinir heimilishundarnir s.s. hann féll vel inn í hópinn. Einn daginn benti eiginmaðurinn á nýja hundinn og spurði „ er þessi nýr hjá okkur“ . Vinkonan var fljót til og svaraði um hæl. „ Nei, Nonni minn hvaða vitleysa, þetta er hann Snati við erum búinn að eiga hann í mörg ár“.

Ætlum við bílstjórum strætisvagna að vera með skanna og lesa auðkennisnúmer hunda til að sannreyna handhafa strætó-kortsins. Þetta er alltof  flókið kerfi. Ég held að kattareigendur hefðu aldrei fundið svona snildarlausn en við hundaeigendur erum svo vanir kúgun að við samþykkjum allskyns vitleysu í undirlægjuhætti eins og undirgefnir rakkar.

Að fara á sérstakt strætó-námskeið er mjög gott fyrir þá sem vilja – en að strætó-kort verði einhver skilyrði fyrir því hvort hundur sé gjaldgengur í strætó eða ekki er ekki rétta leiðin.

Ef þú vilt koma til mín athugasemd; thorhildurbjartmarz@gmail.com