Þórhildur Bjartmarz skrifar:
Í maí munu félagsmenn HRFÍ kjósa í nýja stjórn á aðalfundi félagsins. Ljóst er að nýr formaður mun taka við og með honum þrír fulltrúar úr hópi félagsmanna. Í almennum kosningum myndum við segja að nýr meirihluti tekur við. Það eru því spennandi vikur framundan. Tími, þar sem við félagsmenn, munum kynnast málefnum frambjóðenda og hvaða málefni þeir hafa fram að færa. Það er frábært að sjá hversu margir eru tilbúnir til starfa í stjórninni og ber að þakka það.
En hvaða áherslur viljum við sjá hjá frambjóðendum? Hver og einn mun svara fyrir sig með sínu atkvæði. Sjálf mun ég styðja við frambjóðendur sem vilja efla félagið, gera það sýnilegt í baráttunni fyrir bættu hundahaldi, svo og efla vinnuþátt hunda. Árið 2019 verður HRFÍ 50 ára. Væri ekki spennandi ef stefna HRFÍ næstu 4 árin, væri að knýja fram breytingar og gera þéttbýlið að hundavænna samfélagi?
Frambjóðendum í stjórn HRFÍ stendur til boða að senda okkur greinar og skýra frá sínum áherslum .
Ef einhver vill tjá skoðun sína eða gera athugasemd við þessa grein þá má senda tölvupóst; thorhildurbjartmarz@gmail.com