Það er þetta með þennan hundaskít

Lífverur eru þannig gerðar að þær eru einskona rör – það fer fæða inn um annan endann og kemur út um hinn í þó nokkuð breyttu formi. Þessi afurð hefur ýmis nöfn: Kúkur, skítur, hægðir. Þegar dýrategundin maður fór að kunna meira og tæknivæðast fór honum að líka sífellt verr við það sem kom út um hinn endann. Hann fór að fela það. Það sem kemur út úr hans eigin endagörn lætur hann renna út í sjó – þá er það horfið og þarf ekki að hafa áhyggjur af því meir. En það er manninum sífellt vandamál hvað gera á við það sem kemur út úr endagörn þeirra lífvera sem maðurinn hefur tekið í þjónustu sína. Það fer eftir ýmsu hvort reynt er að fela þann skít eða nýta hann sem áburð fyrir gras og aðrar jurtir sem maðurinn gerir sér síðan gott af. Það er nefninlega mikil næring í kúknum – fyrir skordýra- og jurtalífið og án hvorugs getur maðurinn lifað hér á jörðinni.

2545255360_df693ea0a7_o

En einn er sá skítur sem maðurinn – einkum hinn vestræni, tæknivæddi maður hefur sérlega andstyggð á og það er hundaskítur. Sumir eru meira að segja svo ofstækisfullir gagnvart hundaskít að það bitnar á dýrinu sjálfu – hundinum sem getur jú ekki öðru vísi verið en að skila matnum út um endagörnina – eins og við sjálf.

Ég hef heyrt fólk fullyrða að það myndi „tryllast“ ef það stigi ofan í hundaskít og hugsa þá ætíð að ef svona lítið óhapp myndi valda svona mikilli angist hvað þá ef eitthvað alvarlegt kæmi fyrir þessa manneskju.

Að kjarna málsins, ef ófalinn hundaskítur er þyrnir í augum fólks og það bitnar á okkur sem viljum eiga hund og vera samt hluti af samfélaginu þá er bara eitt ráð: Hirða upp hundaskítinn.

Jórunn Sörensen

Ef þú vilt koma með athugasemdir við þetta blogg – sendu þá póst til mín; vorverk@simnet.is