Jórunn Sörensen skrifar:
Félög fólks sem hafði áhuga á hundum voru stofnuð fyrir nærri hálfri öld. Þetta voru annars vegar Hundavinafélagið, grasrótarsamtök sem voru stofnuð um hásumar af fólki sem fyllti Súlnasalinn á Hótel Sögu. Fólki sem ofbauð harðneskja yfirvalda sem siguðu lögreglunni á hundaeigendur oft með þeim afleiðingum að dýrin voru skotin. Sama ár var Hundaræktarfélag Íslands stofnað í þeim tilgangi að rækta og vernda stofn íslenska fjárhundsins og síðar allra hreinræktaðra hunda. Þá var búið að vera hundabann í Reykjavík síðan 1924 en borgin var að sjálfsögðu aldrei hundlaus.
Leyfi til hundahalds fékkst með herkjum eftir mikla og stranga baráttu. Fyrir þetta leyfi er hundaeigendum skylt að borga þúsundir króna árlega. Þessi gjaldtaka er fáránleg því svo eru þessi “löglega skráðu dýr” til óþurftar í návist almennings. Þessi ströngu skilyrði íslenskra yfirvalda eru einsdæmi. Öll ríki sem við berum okkur saman við líta það jákvæðum augum að fólk eigi hund og hvorki skattleggja það sérstaklega né gefa út lista yfir staði sem hundar mega ekki vera á. Það er einnig alvarlegt mál að þetta neikvæða viðhorf yfirvalda á Íslandi til hundahalds gefur tóninn og þeir sem ekki vilja sjálfir eiga hund sjá margir hverjir ekkert nema hundaskít, sullaveiki, ofnæmi og hundabit í hverjum hundi.
Þetta er óviðunandi ástand og okkur, hundaeigendum og hundunum okkar, ekki bjóðandi. Breytum þessu.
Ef þú vilt gera athugasemd við þetta blogg eða tjá skoðun þína þá sendu mér póst á vorverk@simnet.is