Þórhildur Bjartmarz skrifar:
Um Samþykkt um hundahald í Reykjvík
Í 6. gr um hundaræktun segir m.a.:
Til hundaræktunar telst starfsemi þar sem haldin eru sex eða fleiri dýr og ræktun fer fram, sbr. reglugerð nr. 1077/2004 um aðbúnað og umhirðu gæludýra og dýrahald í atvinnuskyni. Heimilt er að skrá hunda sem undaneldishunda við hundarækt og eru þeir undanþegnir eftirlitsgjöldum sbr. 12. gr. Hunda sem skráðir eru sem undaneldishundar við skráða hundarækt er óheimilt að flytja frá athafnasvæði hundaræktunarstöðvar og skal haldið þar og mega aldrei ganga lausir né á meðal almennings. Heimilt er Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur að veita undanþágu frá ákvæði þessu ef ætlunin er að sýna hundana á viðurkenndum hundasýningum, enda framvísi ræktandi tryggingu vátryggingafélags fyrir því tjóni sem hundur kann að valda þriðja manni.
Ég sé ekki betur en að þessi grein um hundaræktun hafi verið sett í reglugerðina eingöngu fyrir eitt stórt ræktunarbú á Reykjavíkursvæðinu. Jafnvel að það hafi þótti íþyngjandi fyrir ræktunarbúið að greiða fyrir meira en hundrað hunda eða hundruði hunda. En af hverju þarf sá sem hefur tekjur af hundunum sínum ekki að borga eftirlitsgjald eins og aðrir? Ég ætti ekki að blóta en verð að segja: Hvaða helvítis vitleysa er þetta eiginlega? Að einhver skuli sætta sig við að vinna undir þessum skilyrðum. Hvernig veit hundaræktandi sem á undaneldishunda hvort þeir séu góðir til undaneldis ef þeir mega ekki vera í eðlilegu umhverfi þar sem fullorðið fólk og börn eru? Hvernig kynnist ræktandi skapferli hundsins ef hann er ekki nokkurn tímann í okkar venjulega daglega áreiti? Þessi 6. grein er fráleit og alls ekki hundavæn. Hvernig getur Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur krafist að hundum sé haldið á ræktunarbúum og megi ekki fara þaðan nema gegn sérstöku leyfi? Samkvæmt þessu þá má t.d. ekki fara með ræktunarhund á ræktunarbúi til dýralæknis nema með leyfi. Með þessari grein stuðlar Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur að því að hundum á ræktunarbúum sé haldið eins og dýrum í dýragörðum. Hver skrifaði þessa grein og hverjir voru til umsagnar? Er ekki tími komin á breytingar?
Þórhildur Bjartmarz