Að mæta hundi

Jórunn Sörensen:

Kannski hefur konan sem ég mætti á göngu með Spóa orðið hissa yfir því að ég leyfði hundinum ekki að fara til hennar, svo hún gæti kjassað hann, en lét hann ganga áfram við hæl, fram hjá henni. Eins og hún brosti breitt þegar við sáumst álengdar og beygði sig meira að segja og breiddi út faðminn rétt áður en við mættumst.

Kannski varð hún sár? Eða rosalega reið? Ég veit það ekki. Hitt veit ég að ég hef lagt á mig mikla vinnu við að kenna Spóa mínum að það er hitt og annað sem honum kemur ekki við. Sem dæmi má nefna hestar, hjólhestar, vélhjól og einnig fólk á gangi sem er ekki með hund – hundleysingjar, eins og við hjónin köllum þær manneskjur sem fara út að ganga, hundlausar. Það var skemmtilegt að kenna Spóa þetta eins og allt annað sem við höfum leikið okkur að og kallast hlýðniæfingar eða eitthvað svoleiðis. Og hann skokkar til mín, glaður, þegar hann sér hesta eða hundleysingja koma á móti okkur eða í kjölfarið. Svo göngum við þétt saman þar til „hættan“ er liðin hjá og þá fær hann frí.

Það er þó nokkuð talað um að það þurfi að leiðbeina börnum um hvernig þau eigi að nálgast hunda en mér sýnist ekki vanþörf á að fullorðnir tileinki sér þessar reglur líka því þetta er ekki í fyrsta sinn sem við Spói lendum í því að manneskja á göngu nánast kastar sér yfir hann til þess að kjassa hann.

Það er mér mikils virði að ég geti verið með hundinn minn sem víðast og að hann valdi ekki vandræðum fyrir fólk sem enn er haldið andlegu hundaofnæmi. Sjúkdómur sem er, sem betur fer, á undanhaldi. Það er erfitt að kenna hundum að sumt má stundum og stundum ekki. Heilabúið þeirra ræður illa við undantekningar. Því verður bara að hafa það þótt „fólk úti í bæ“ sé alveg gáttað á því að hundurinn megi ekki heilsa hverjum sem er.