Þórhildur Bjartmarz skrifar:
Maður nokkur að nafni Björn Ólafur Hallgímsson skrifaði um daginn furðulega grein um hunda í tengslum við stætó og ofnæmi. Í henni kom m.a. fram að 5.000 hundar væru óskráðir í Reykjavík. Hvaðan hann fékk þá tölu kom ekki fram. En segjum svo að það séu ekki nema um 50% hunda skráðir á Reykjavíkursvæðinu er þá kerfið ekki hrunið?Ég veit um tvö ný tilvik þar sem nýir hundaeigendur vissu ekki að það þyrfti sérstakt leyfi til að halda hunda. Báðir sögðust búa í einbýlishúsi og töldu því ekki að þyrfti að spyrja um leyfi hjá nágrönnum. Þeir vissu ekki að í gildi eru reglur sem heita Samþykkt um hundahald í Reykjavík. Reglugerð sem við sem erum búin að eiga hunda í mörg ár, erum orðin svo vön að okkur þykir tilvist hennar sjálfsögð.
En af hverju þurfum við sérstakar reglur til þess að fá að halda hunda? Hundabann í Reykjavík var sett 1924 það stóð í 60 ár. 1984 var leyfi gefið til reynslu í 4 ár og 1988 var hægt að fá undanþágu frá reglunum sem bera heitið Samþykkt um hundahald í Reykjavík (en af hverju heita reglurnar Samþykkt?….) Frá 1984 höfum við búið við þetta sama skráningaform en á árinu 2012 var reglugerðinni breytt þannig að hundahald varð leyfilegt að vissum skilyrðum uppfylltum. Þetta fyrirkomulag sem við þekkjum núna því er rúmlega 30 ára gamalt. Það eru 30 ár síðan reynt var að sætta hundavini og hundaandstæðinga með ströngum reglum. Til þess að hundavinum myndi ekki fjölga um of átti helst að vera bæði dýrt og erfitt að eiga hunda. En hundavinum fjölgar enn þrátt fyrir þessar reglugerðir og samkvæmt greininni sem ég vitna í hér að ofan, þá eru 5.000 hundar óskráðir. Hafa þessir hundaeigendur hafið leynilegt stríð gegn Samþykkt um hundahald í Reykjavík? Spyr sá sem ekki veit og er e.t.v. þá kominn tími til að breyta.
Þórhildur Bjartmarz