Sporapróf Vinnuhundadeildar 20. okt 2019

Þriðja sporapróf ársins fór fram sunnudaginn 20. okt við Nesjavallarveg. Prófið hófst með nafnakalli kl 10,30 og voru þá þegar þrjár sporaslóðir tilbúnar af fjórum sem þurfti að leggja.

Í Spori I voru tveir hundar skráðir í prófið, Verkefni þeirra var að rekja  u.þ.b. 300 metra langa sporaslóð, sem var um 40 mín gömul.  Sporaslóðin innihélt tvo 90° vinkla, tvo millihluti og endahlut.

Fyrstur í próf var Ivan Von Arlett, stjórnandi og eigandi Hildur Pálsdóttir. Ivan leysti verkefnið vel en hringsólaði talsvert í báðum beygjunum. Markeraði hluti vel og var á góðum hraða.  Fékk 90 stig í einkunn

Næstur í prófi var Forynju Aston, sem var alls ekki í vinnugírnum þennan dag og sýndi ekki nógu góða vinnu til að ná einkunn. En kemur alveg örugglega aftur og sýnir hvað hann getur.  Stjórnandi var Heiðrún Huld en eigandi er Hildur Pálsdóttir.

  1. sæti í Spori I með I. einkunn og 90 stig Ivan Von Arlett, stjórnandi og eigandi Hildur Pálsdóttir

 

Í Spori II var einn hundur skráður. Verkefni hans var að rekja  u.þ.b. 1000 metra langa sporaslóð sem skiptist þannig: 60 metrar í að finna upphafssporið og svo ca 940 metrar í hefbundna sporarakningu í 60 mín gamalli slóð sem innihélt sex 90° vinkla, fimm millihluti og endahlut. Hundurinn eyddi góðum tíma í að finna upphafspunktinn og koma sér af stað í sjálft sporið og missti 10 stig þar en leysti verkefnið eftir það með ágætum.

  1. sæti í Spori II með I. einkunn og 90 stig Juwika Fitness, stjórnandi og eigandi Arna Rúnarsdóttir

 

Í Spori III var einn hundur skráður. Verkefni hans var að rekja u.þ.b. 1200 metra langa sporaslóð en átti í byrjun að finna upphaf sporsins í ramma sem er 30×30 m. Slóðin var 80 mínútna gömul og innihélt sjö vinkla, þar af einn 30° vinkil, sjö
millihluti og endahlut. Hundinum gekk illa í rammanum og missti þar 20 stig. Í lokin vantaði svo einn millihlut. Einkunn var því 72 stig en þessi hundur er þegar búin að ná I. einkunn í Spori III á árinu.

  1. sæti í Spori III með 3. einkunn og 72 stig, Forynju Aska, stjórnandi og eigandi Hildur Pálsdóttir

 

Prófið var haldið við bestu aðstæður 6 stiga hiti og smá andvari. Prófinu lauk um kl 13,30 þegar viðurkenningarskjöl voru afhend. Fyrir hönd Vinnuhundadeildar þakka ég fyrir ágætis próf sem gekk á allan hátt vel fyrir sig og óska eigendum prófhundana til hamingju með góðan árangur

Dómari: Þórhildur Bjartmarz

Prófstjóri: Kristjana Guðrún

 

Prófið kom í stað prófs sem var aflýst 5. okt en þeim sem þá voru skráðir var boðið að skrá í þetta próf.