Lífsgæði fyrir hunda

Jórunn Sörensen:

Í sumar horfði ég á þætti frá BBC sem sýndir voru á stöð 1 í danska sjónvarpinu. Þættirnir heita: Dogs – Their Secret Lives og fjalla um hunda og hundahald í þéttbýli.

Í þáttunum voru annars vegar tekin fyrir ýmis vandamál sem upp geta komið í samskiptum fólks við hundinn sinn eða hundana sína og hins vegar var greint frá ýmsum rannsóknum er varða hunda og þær útskýrðar.

 

dogtv_pic

Vandamálin sem voru tekin til umfjöllunar voru af ýmsum toga – það var hundurinn sem snéri sér án afláts í hringi; Hundurinn sem óttaðist ókunnuga svo mjög að það stefndi í að hann myndi bíta; Hundurinn sem át allan skít – líka sinn eiginn; Hundurinn sem óttaðist allar karlkyns manneskjur – líka heimilisföðurinn og soninn; Hundurinn sem varð gjörsamlega óviðráðanlegur þegar hann sá strætisvagna eða trukka og vildi elta þá; Hundurinn sem þorði ekki út úr húsi og hundurinn sem rústaði heimilinu þegar hann var skilinn eftir og vældi klukkustundum saman.

Í hverjum þætti voru tekin fyrir 2-3 mál. Rót vandans var greind af dýraatferlisfræðingi með því að fá sögu hundsins og aðstoð myndavéla. Síðan var eigendum hundanna ráðlagt hvernig þeir gætu bætt úr. Fylgst var með hvernig gekk og hver árangurinn varð.

Inn á milli var rætt við ýmsa sérfræðinga í atferli hunda og rannsóknir á eðli og eiginleikum hunda kynntar og útskýrðar. Meðal þeirra sem rætt var við var dýraatferlisfræðingurinn John Bradschaw sem skrifaði bókina: „In Defense of Dogs“. Við hann var rætt      um hina lífseigu bábilju að hundurinn sé eiginlega úlfur og það skipti öllu máli að maðurinn sé „herra“ hundsins. Bradschaw rifjaði upp hina fölsku tilraun sem var gerð fyrir nokkrum árum þegar alls konar úlfar voru settir saman á svæði þar sem allt fór         auðvitað í háaloft og úlfarnir slógust þar til sá sterkasti réði. Bent var á hvernig þetta er í raunverulegum, náttúrlegum úlfahópum þar sem samvinna og samkennd einkennir samskipti einstaklinga innan hópsins. Einnig var skýrt hvernig hundurinn varð þessi einstaka lífvera sem tengist manninum svo mjög.

Það var bæði ákaflega fróðlegt og mannbætandi að fylgjast með þessum þáttum. Rauði þráðurinn sem gekk í gegnum öll atriði þáttanna var virðing og væntumþykja fyrir hundinum – þessum góða vini og félaga mannsins. Í hverjum einasta þætti féll setningin:

Að það þyrfti að bæta lífsgæði þessa hunds“. Og í hverjum einasta þætti kom fram að eigendur vildu allt á sig leggja til þess að svo mætti verða.

12696967525_50c898451d_b

 

Myndirnar sem fylgja greininni eru ótengdar efni hennar.