Íslenskra hunda leitað á Héraði 1956

Þórhildur Bjartmarz:

Í   byrjun september 1956 kom Mark Watson austur á Egilsstaði til að leita að íslenskum fjárhundum.

Úr bókinni „Öldin okkar“ frá  árunum 1951-1960:

Í dag hefja tveir útlendingar og íslenskur leiðsögumaður leit af fjárhundum með hinum gömlu og góðu íslensku einkennum

Útlendingurinn, Mark Watson kom einn og íslenski leiðsögumaðurinn er þjóðkunnur afreksmaður, Vilhjálmur Einarsson  sem þá var nýlega kominn heim frá námi í Bandaríkjunum þegar hann fékk óvænt tilboð um starf í um vikutíma. Þrátt fyrir að þetta starf truflaði Vilhjálm við undirbúning fyrir keppni á Ólympíuleikum þá um haustið þáði hann starfið.

Þessi frásögn Vilhjálms hefur áður verið birt í Sámi, blaði Hundaræktarfélags Íslands:

Mark Watson var hávaxinn myndarmaður, kvikur og glaðlegur. Hann var prúðbúinn og hafði um sig svip ensks aðalsmanns, enda af lávarðarkyni. Watson gisti á gistihúsinu á Egilsstöðum en við snæddum saman á hótelinu. Þar var honum skipað til hægri handar húsbóndans enda raðað við borðið eftir mannvirðingum, bílstjórinn við fjærsta horn.

Það var vætutíð með sólarglennu á milli þennan vikutíma, sem leiðangurinn stóð. Ég var með Land-Rover bíl föðurs míns „Robba“ að láni, fyrst ókum við um nágrenni Egilsstaða, ekið heim að bæjum og bændur teknir tali en árangur takmarkaður fyrstu tvo dagana.

Á þriðja degi átti að leita í Jökulsárhlíðinni. Þegar ekið hafði verið örstutt norður og komið var rétt framhjá þar sem Fellabær er nú, rekur Watson upp óp og skipar mér að stansa strax. Hann hafði þá komið auga á hund sem birtist út úr þokunni. Watson stökk út og var kominn með hundinn í fangið himinlifandi á svip og ekki um annað að ræða en taka rennblauta skepnuna upp í bílinn. Nú var ekið heim að næsta bæ, Ekkjufellsseli, því líklegast þótti okkur að hundurinn væri þaðan. Nei, ónei, þar kannaðist fólk ekkert við skepnuna. Á sama hátt fór á hverjum bænum að öðrum uns við gáfumst upp við að finna réttan eiganda.

Það fjölgaði því gestum á hótelinu hjá Sveini Jónssyni hótelhaldara og stórbónda, og kærleikar jukust með Watson og hinum dularfulla hundi. Hann fór að biðja mig um að setja auglýsingu í útvarpið. Ég baðst undan lengi vel og fannst hálf-hlægilegt að auglýsa sem svo:

„Hundur hefur fundist….“, það yrði bara hlegið að þessu og talið gabb en Watson gaf það ekki eftir og útvarpstilkynningin fór í loftið.

Dagarnir liðu einn af öðrum, ekið suðurábóginn með þá félaga Watson og hundinn í faðmlögum í framsæti „Robbans“.

 

Auli fra Slebrjot 1 copy    Auli frá Sleðbrjót

 

 

Í Breiðdal og á Berufjarðarströndinni gerði Watson kaup. Það var eftirminnilegt að vera túlkur við þessi viðskipti. Bændur sýndu heilmikið viðskiptavit, því ævinlega var um hreina gersemi að ræða.

En áður en lengra var haldið í viðskiptunum vildi Watson heyra ættartöluna. Og það stóð ekki á svörum: þarna rakti margur bóndinn ætt hundsins sín í 7-8 ættliði! Þetta var mikilvægt fyrir Watson því að hann vildi fá kynið opinberlega viðurkennt í Bandaríkjunum. Ekki man ég verðið, en það skipti ekki máli, bændur fengu uppsett verð en hefðu ef til vill getað fengið helmingi meira.

Allir voru hæstánægðir að leikslokum. Ef ég man rétt varð uppskeran 6 hundar, 4 í Breiðdal, 1 í Berufirði og 1 í Jökulsárhlíð.  Nú þurfti að smíða sérstök búr á trésmíðaverkstæði Kaupfélagsins til að flytja dýrin með flugi suður til Reykjavíkur og þaðan á hundabúgarð Watson í Kaliforníu. Það færðist glóð í augu Watsons þegar hann trúði mér fyrir vonum sínum um þessa kostnaðarsömu hundaræktunaráætlun: „Ég vonast til að komast á forsíðu Life-magasin þegar tekist hefur að hreinrækta íslenska hundinn og kynið hefur fengið löggildingu“.

En víkjum þá í lokin að fyrsta hundinum sem Watson fann í þokunni. Hvort hundatilkynningin hreif eða vandræði okkar með óskilahundinn hafi orðið heyrikunn á Héraði veit ég ekki. Eigandinn gaf sig fram. Hann reyndist vera Geir bóndi í Sleðbrjót í Hlíð, 30 km frá Egilsstöðum. Bóndi var um þessar mundir í vinnu á Egilsstöðum og hundurinn hefur verið kominn nærri alla leið á eftir honum. Kaupin gengu greiðlega og Watson flutti Aula frá Sleðbrjót á Wensum kennel í Kaliforniu.

 

Að lokum er gaman að geta þess að Vilhjálmur Einarsson, hlaut silfurverðlaun á Ólympíuleiknumum í Sidney í Ástralíu síðar um haustið og varð fyrstur Íslendinga til að hljóta verðlaun á Ólympíuleikum.

Ég hitti Vilhjálm í byrjun apríl 2016 í Reykjavík og þó að það séu tæplega 60 ár liðin frá leitinni forðum þá man hann vel eftir ferðalagi þeirra Watson með Aula á Land-Rovernum. Hann sagði Watson hafa verið ágætis ferðafélaga og ræðinn. Þá sagðist Vilhjálmur ekki hafa gert sér grein fyrir áður, hversu áhrifarík þessi leit var og þótti til þess koma að hann hafi sjálfur verið leiðsögumaðurinn sem getið er í „Öldinni okkar“ sá sem leitaði fjárhunda með hinum gömlu og góðu íslensku einkennum.

 

Vaskur-of-Thorvaldstadir-1956_200px     Vaskur frá Þorvaldsstöðum                                Konni of Lindarbakki 2 Konni frá Lindarbakka

 

Blaðið Timinn birti viðtal við Mark Watson 2. september daginn eftir að hann fór austur á Egilsstaði:

Greinin byrjar: Leiðangur gerður til að finna íslenzkt fjárhundakyn….

Watson segir frá vinnu sinni við bókina um íslenska fjárhundinn og segir;

Að þetta starf væri unnið til þess að fá íslenzku hundana viðurkennda og skrásetta sem sérstakt hundakyn, hliðstætt þekktum hundakynjum. Um þetta hafi ekki verið hirt hér á landi, og nú væri hið gamla og góða fjárhundakyn svo blandað orðið, að mjög erfitt væri að ná í ættgóða einstaklinga. Væri óséð, hvort tilraunin til að hreinrækta kynið tækist. En til þess að auðvelda það, er ferðin til Austurlands farin og síðan ætlar Watson til annara staða, ef líklegt þykir að það beri árangur.

„Í sumar fengu hreppstjórar í mörgum hreppum á Norður- og Austurlandi bréf og mynd af fjárhundi og fyrirspurn, hvort slíkir hundar væri í nágrenninu og mundu falir. Ekki hefir orðið mikill árangur af þessum skrifum sagði Watson en ef einhverjir bændur vildu enn sinna tilmælum hans er honum þökk að þeir láti hann vita sem fyrst.

Þann 25. sept birtist svo stutt frétt í Timanum um að Mark Waston var farinn af landi brott og var hann hinn ánægðasti með árangur leiðangurs síns.

 

Þórhildur Bjartmarz

Garðabæ 6. maí 2016