Leiðsöguhundar fyrir blinda

Jórunn Sörensen:

Fyrsta fræðslukvöld Hundalífs á árinu var sunnudaginn 24. janúar. Þá fræddi Drífa Gestsdóttir leiðsöguhundaþjálfari okkur um val, þjálfun og vinnu með leiðsöguhunda fyrir blinda og sjónskerta.

Drífa lærði bæði í Svíþjóð og Bretlandi og hefur starfað sem leiðsöguhundaþjálfari síðan 2006. Einnig er Drífa umferliskennari með próf frá í háskóla í Bretlandi. Sem umferliskennari vinnur hún mest með blindum börnum – að kenna þeim að þekkja umhverfi sitt. Drífa vinnur á Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.

Drífa fræddi okkur um hvernig val á hvolpum fer fram. Hvaða eiginleika hvolpur verður að hafa til þess að geta komið til greina sem leiðsöguhundur. Hér á landi fylgist hún vel með ræktun og horfir mest til labradorhunda sem hafa reynst ákaflega vel sem leiðsöguhundar.

En þótt hvolpur sé valinn er langt frá því öruggt að hann endi sem leiðsöguhundur. Grunnþjálfun unghundsins og síðan þjálfun til að verða leiðsöguhundur er langt og strangt ferli sem lýkur með erfiðu prófi. Val á notanda leiðsöguhunds er einnig vandasamt og ekki sjálfgefið að fólk fái slíkan hund.

Þótt hundur standist slíkt próf og búið að „para saman“ – eins og það er kallað á fagmálinu – notanda og hund, er vinnu Drífu, við þetta ákveðna verkefni, langt frá því lokið. Mikil eftirfylgni stendur yfir mánuðum saman en sem dregur smátt og smátt úr. Áfram er Drífa engu að síður innan handar til aðstoðar og til þess að taka hund í endurþjálfun ef eitthvað hefur farið úrskeiðið. Talað er um notanda leiðsöguhunds en ekki eiganda því það er Þjónustu- og þekkingarmiðstöðin sem á hundinn.

Fræðsla um notkun leiðsöguhunda snýr einnig að almenningi – en það er mikilvægara en fólk gerir sér almennt grein fyrir að það má alls ekki trufla leiðsöguhund í vinnu.

Drífa sýndi nokkur vídeó um þjálfun hunds á ýmsum stigum og einnig fullþjálfaða hunda í vinnu með sínum blinda notanda. Í lokin fengu fundargestir að prófa hvernig það er að hafa skerta sjón.

Þetta var einstaklega fræðandi og skemmtilegt kvöld.