Dýr auðga mannlífið

Jórunn Sörensen

„Hvernig dýr auðga mannlífið“ fræðslufundur á vegum Hundalífs var haldinn í húsnæði Dýraverndarsambandsins 22. nóvember sl. Fræðslan var að þessu sinni í höndum Brynju Tomer sem talaði um hjálparhunda. Brynja er frumkvöðull á þessu sviði hér á landi.

Þórhildur Bjartmarz ræddi í upphafi um mikilvægi þess að halda á lofti þeim fjölmörgu eiginleikum hundsins sem í samskiptum sínum við manninn, auðga og bæta líf hans. „Það er skylda okkar að fræða fólk um hvað við gerum með hundum. Við verðum sjálf að markaðssetja hundinn,“ eins og hún orðaði það.

Brynja hóf mál sitt á því að segja frá sjálfri sér og hve hundar eru stór hluti af lífi hennar. Síðan giskaði hún á hve mörg heimili á Íslandi væri með gæludýr. Af 180 þúsund heimilum á Íslandi taldi Brynja að gæludýr væri á um 5. hverju heimili eða á 36 þúsund. Ástralir eiga heimsmet í gæludýraeign en þar teljast 63% heimila vera með gæludýr. Ef slík tala gilti hér á landi væri gæludýr á rúmlega 113 þúsund heimilum. Hundar eru vinsælasta gæludýrið. Síðan koma kettir og svo ýmis nagdýr og fuglar.

Brynja ræddi í stuttu máli hvernig allar rannsóknir sýna góð áhrif heimilisdýra á fólk. Bæði líkamleg og andleg og tók ýmis dæmi með fallegum, lýsandi myndum um hvernig td hundurinn er mikill ísbrjótur í samskiptum. Hún lýsti einnig hinum fjölmörgu þjóðfélagslegu og hagrænu áhrifum sem gæludýraeign hefur. Íslenskar rannsóknir sýna mikil og jákvæð áhrif gæludýra á fólk með heilabilun, einhverfu, þunglyndi og síðast en ekki síst hjá börnum með lestrarerfiðleika.

Brynja lýsti því hvernig Ingibjörg Hjaltadóttir hjúkrunarfræðingur hefði gengið í gegnum eld og brennistein til þess að ná fram hugmyndum sínum um að nota hunda í meðferð fólks með heilabilun. En það tókst og nú eru koma hundar í heimsókn á mörg hjúkrunarheimili.

Brynja sagði síðan frá því hvernig hún kom á fót verkefnum með hunda í Rauða krossinum. Það gekk ekki þrautalaust þegar hún hóf máls á þessu og í nokkurn tíma var alltaf gelt þegar Brynja gekk inn á fund hjá Rauða krossinum. Nú er öldin önnur. Verkefnið hefur verið heiðrað og er meðal mikilvægastu verkefna Rauða krossins. Helstu verkefni með hundum eru: Heimsóknarvinir, hjúkrunarheimili, einkaheimili, stofnanir, sérverkefni. Það var einstaklega áhugavert að hlusta á Brynju gefa dæmi um þessi verkefni og ekki laust við að sumar lýsingarnar kæmu út á mér tárunum.

Vigdís – Vinir gæludýra á Íslandi – er merkilegt félag með mikilvæg verkefni. Markmið félagsins er: „Sjálfboðaliðar og gæludýr Vigdísar leggja sitt af mörkum til að bæta líf og líðan fólks.“ Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Vigdísar: www.vigdis.org

Brynja hvatti áheyrendur mjög til þess að sýna frumkvæði. Hugur hennar væri ævinlega fullur af hugmyndum um allt mögulegt og ómögulegt um hvernig væri hægt að bæta mannlíf með hundum. „Ekkert nema himininn takmarkar okkur“ er móttó Brynju sem kastaði ýmsum hugmyndum út í salinn og skoraði á fólk að grípa þær á lofti. Brynja sagði einnig frá verkefnum þar sem fólk hefði sýnt frumkvæði og með hjálp dýra gert ómetanlega hluti fyrir einstaklinga sem hafa ekki sömu tækifæri í lífinu og aðrir. Hún tók dæmi um notkun hesta á reiðnámskeiðum fyrir börn með fötlun og einnig hvernig labradorhundurinn Loki einn af hundum Sigrúnar Guðlaugardóttur veitir henni mjög mikla hjálp við umönnun Ísabellu sem er með einstaklega erfitt heilkenni. Sigrún er stuðningsforeldri fyrir Ísabellu Grein um Ísabellu og hundana birtist á Hundalífspóstinum fyrir nokkru.

Brynja lauk erindi sínu með fræðslu um hjálparhunda Rauða krossins. Hvaða skilyrði hundur og eigandi hans þyrftu að uppfylla. Hún lagði áherslu á að slík verkefni henta ekki öllum hundum – sama hve ljúfir og góðir þeir væru eigendum sínum.

Eftir að Brynja lauk máli sínu beindi hún orðum sínum til nokkurra fundargesta sem h ún sagði að hefðu sýnt einstakt frumkvæði í notkun hjálparhunda og sögðu þeir frá verkefnum sínum. Er ætlunin að birta frásagnir þeirra síðar hér á Hundalífspóstinum.

fræðslufundur nóv 005 fræðslufundur nóv 004fræðslufundur nóv 003 - Copy