Dýrahjálp

Jórunn Sörensen:

Hundalífspósturinn lagði nokkrar spurningar fyrir Valgerði Valgeirsdóttur formann Dýrahjálpar.

Hvaðan kemur þrá þín eftir að aðstoða heimilislaus dýr? Hvernig byrjaði þetta allt saman?

Það má segja að þetta hafi byrjað með Pollý. Pollý er fyrsti hundurinn minn sem býr ennþá hjá mér í dag. Ég hef reyndar alltaf frá því ég man eftir mér verið mikill dýravinur.

Pollý aftur á móti kom mér á bragðið að „bjarga“ dýrum fyrir rúmum níu árum síðan þegar við hittumst fyrst. Ég hafði verið að hugsa lengi um að taka að mér hund og var búin að skoða alls konar tegundir. Svo í spjalli við mikinn dýravin þá kom upp sú hugmynd um að ég myndi taka að mér stálpaðan hund sem væri í heimilisleit. Það var engin starfsemi eins og Dýrahjálp til staðar á þeim tíma svo ég setti mig í samband við dýralæknastofu og bað þau að láta mig vita ef það kæmi inn hundur sem ætti að svæfa, sem þau fengju leyfi til að reyna að finna heimili fyrir. Tveimur dögum síðar hringdu þau og sögðu mér að ung falleg íslensk tík væri komin til þeirra, og hvort ég hefði áhuga á að hitta hana. Þann dag hitti ég elsku ástina mína hana Pollý. Hún kom með mér heim og hefur átt mig með húð og hári síðan. Frá því hún kom inn í líf mitt þá hugsaði ég reglulega til annarra dýra í sömu aðstöðu og hún var í þennan örlagaríka sumardag.

Svo vorið 2008 þá heyrði ég af nýstofnuðu félagi sem heitir Dýrahjálp. Ég setti mig í samband við þau og síðan var ekki aftur snúið.

Hvenær var Dýrahjálp stofnuð og hverjir stóðu að stofnuninni?

Félagið var stofnað af nokkrum dýravinum vorið 2008 sem vildu stofna athvarf. Það eru tveir af stofnendunum ennþá að vinna í félaginu, það er Sandra Lyngdorf og maðurinn hennar Þorvarður. Ég kom inn í starfið fljótlega eftir stofnun. Athvarfshugmyndin var svo sett á frost við bankahrunið haustið 2008 og var ákveðið að halda starfinu í fósturheimilakerfinu sem við notum enn þann dag í dag.

Hve margir vinna við Dýrahjálp nú? Á launum? Sem fósturheimili?

Það eru í dag hátt í tuttugu virkir sjálfboðaliðar sem sjá um að halda starfinu gangandi. Þar að auki eru fósturheimilin, það eru oftast milli tíu og tuttugu fósturheimili sem eru mjög virk og taka reglulega dýr í fóstur, svo eru önnur sem fóstra sjaldnar og svo að lokum „missum“ við reglulega fósturheimili þegar þau falla fyrir dýrinu sem þau fóstra og geta þá ekki tekið dýr í fóstur áfram.

Það hefur enginn þegið laun fyrir starfið enn sem komið er, en við stefnum að því að fara í fjármögnun fyrir launum fyrir einn öflugan einstakling. Við vonum að það hafist í byrjun næsta árs.

 

dýrahjálp1

 

Fjármögnun?

Við fjármögnum starfið með nokkrum leiðum. Við tökum gjald fyrir dýr sem við tökum við frá einstaklingum, sem fer upp í dýralæknakostnað. Dýralæknakostnaðurinn er stærsti kostnaðarliðurinn okkar, þar sem við heilsufarsskoðum öll dýrin, geldum, örmerkjum, bólusetjum og ormahreinsum eins og þarf. Önnur fjármögnun eru frjáls framlög dýravina, sala á dagatali og jólakortum og með ýmsum fjármögnunaratburðum. Svo má segja að önnur fjármögnun séu gjafir og vinnuframlög frá ýmsum aðilum, bæði dýra atferlisfræðingum, hundaþjálfurum, dýralæknum, aðilum sem flytja inn fóður og annað dýratengt. Þetta eru aðilar sem gera okkur kleift að vinna starfið fyrir dýrin á sem bestan hátt. Við erum því með frábært stuðningsnet dýravina sem telja að þetta starf sé gott og vert að vinna.

 

Tölulegar upplýsingar – hve mörg dýr á ári af hverri tegund?

Frá upphafi höfum við aðstoðað við heimilisleit meira en 5.000 dýr. Það er aðallega með því að auglýsa dýr fyrir einstaklinga sem vantar heimili fyrir dýrin sín og af þeim höfum við tekið inn í fósturheimilakerfið yfir 500 dýr. Það er misjafnt eftir árum hvað við höfum verið að sinna mörgum dýrum, en með fleiri sjálfboðaliðum getum við aðstoðað fleiri dýr.

Árangur? Fáið þið dýr til baka?

Við höfum frekar ítarlegt verkferli í kringum það að finna heimili fyrir dýrin sem koma í okkar umsjá (þau sem koma inn í fósturheimilakerfið). Oft höfum við um mörg heimili að velja og veljum þá það heimili sem við teljum henta best fyrir dýrin. Ef enginn hentar til að byrja með þá fær fósturdýrið að vera á fósturheimilinu þangað til hinn rétti birtist.

Við höfum þurft að taka við dýrum til baka, stundum gengur samvistin ekki upp til að byrja með og stundum kemur upp ofnæmi, flutningar í húsnæði þar sem dýr eru ekki leyfð eða flutningar erlendis þangað sem ekki er hægt að flytja dýrin með. Við tökum alltaf við dýrunum aftur og krefjumst þess reyndar af nýjum eigendum að láta dýrin til okkar frekar en að finna sjálf heimili. Það gerum við til þess að við vitum hvar dýrin „okkar“ eru niðurkomin.

dýrahjálp 2

Framtíðarsýn?

Framtíðarsýnin er að sjálfsögðu að opna athvarf, sinna fræðslumálum af meiri þunga og halda áfram að vinna við dýravelferðarmál. Þó að við munum opna athvarf, þá teljum við samt að það sé dýrunum fyrir bestu að vera eins og hægt er í fósturheimilakerfinu, því þá eru þau inni á heimilum og fá mun meiri athygli og betri umönnun en í athvarfi.

Við höfum verið að vinna með yfirvöldum í ýmsum málum, vorum til dæmis með tvo fulltrúa í vinnuhópi við að vinna að nýju reglugerðinni fyrir gæludýr eftir að nýju dýravelferðarlögin tóku gildi. Við höfum einnig átt gott samstarf með MAST sem sinnir dýravelferðarmálum. Við hlökkum til þess að vinna með þeim áfram.

Annað sem þú vilt taka fram?

Það hefur komið fram frá MAST, í fjölmiðlum og frá okkur að við tókum við 30 köttum í tengslum við vörslusviptingu aðila á 50 köttum sem viðkomandi hélt í iðnaðarhúsnæði fyrir stuttu síðan. Þetta er stærsta einstaka dýravelferðarmál sem við höfum tekið þátt í. Þessir 30 kettir eru á fósturheimilum okkar og þurfa á næstu vikum margir að fara í aðgerðir og frekari dýralæknameðhöndlun áður en við förum í það að leita að framtíðarheimilum.

dyrahjálp 4

Ef einhverjir dýravinir vilja styðja þetta verkefni og starfið yfir höfuð með fjárframlagi þá er hægt að millifæra á reikning okkar hjá Íslandsbanka: 0513-26-4311 Kt. 620508-1010.

 

Hundalífspósturinn þakkar Valgerði fyrir svörin og myndirnar