Þann 7. september hóf göngu sína nýr þáttur á Stöð 2, sem ber nafnið Besti vinur mansins. Þáttastjórnandinn Daníel Örn Hinriksson, segir að hugmyndin af þættinum hafi kviknað fyrir nokkrum mánuðum. Hann hafi borið hugmyndina undir framleiðslustjóra 365 og vinnsla þáttana hafist nú í lok sumars.
Daníel segir markmiðið með þáttunum vera ,,að gefa fólki hugmyndir um hvers hundar eru megnugir. Þeir koma víða við í aðstoð gagnvart manninum og eru mörgum nauðsynlegir svo um munar. Einnig langaði mig að kynna fyrir fólki þær hundategundir sem eru til á landinu og gera forvitið um tegundirnar þannig að sé það í þeim hugleiðingum að fá sér hund, afli það sér frekari upplýsinga um tegundina sem heillar og í kjölfarið hafi samband við ræktanda.‘‘
,,Í upphafi var gert ráð fyrir að þættirnir væru fimm og því tók ég þá ákvörðun að byrja á kynningum á tegundum sem eru fólki ekki endilega kunnuglegar. Viðmælendur voru svo þannig valdir að þeir gætu gefið góða lýsingu á kostum og göllum tegundanna og töluðu af reynslu gagnvart þeim. Það er ágóði allra sem koma að ræktun viðkomandi hundategunda. Það er von mín að þættirnir verði fleiri og hef ég fengið jákvæð viðbrögð, því á nægu er að taka hvað tegundir varðar og hversu þarfur og góður félagi hundurinn er.‘‘
Daníel hefur sjálfur mikla reynslu af hundahaldi. ,,Ég eignaspist minn fyrsta hund þegar ég var tólf ára gamall, þýskur fjárhundur var hún heillin og var afbragðshundur. Ég fékk svo minn fyrsta ættbókarfærða hund árið 2002 og hef verið virkur félagsmaður síðan þá, hef gegnt hinum ýmsu trúnaðarstörfum á vegum Hundaræktarfélagsins og geri enn.‘‘
,,Ég myndi fagna hverju því sjónvarpsefni sem sýndi hunda í réttu ljósi og slíkt sjónvarpsefni á svo sannarlega erindi. Það eru viðbrögðin sem ég hef fengið, hvort sem um hundeigendur sé að ræða eða ekki, það þekkja allir einhvern sem á hund. Nú ef maður hefur ekki áhuga á hundum eða sjónvarpsefni tengdu hundum þá er viðkomandi í toppmálum, það er framleitt nóg efni sem þar sem ekki er fjallað um hunda. ‘‘
Þættirnir Bestu Vinur Mannsins eru sýndir á Stöð2 á mánudögum klukkan 20:30.